Árið 1987 færði henni bestu jólin

Myndlistarkonan Margrét Rut ásamt dóttur sinni Emmu.
Myndlistarkonan Margrét Rut ásamt dóttur sinni Emmu.

Myndlistarkonunni Margréti Rut finnst mikilvægt að ræða allar tilfinningar sem koma upp um jólin. Bæði gleðina, en ekki síður sorgina, áföllin og tómleikann. Sjálf fer hún í gegnum tilvistarkreppu hver einustu jól þótt hún upplifi gleði með börnunum yfir hátíðina. 

Margrét Rut ólst upp í Bandaríkjunum fyrstu ár ævi sinnar, en flutti svo til Íslands átta ára að aldri. Hún er búsett í San Francisco í Kaliforníu ásamt fjölskyldu sinni.

Hvernig er dæmigerður dagur í þínu lífi?

„Við ferðumst mikið. Það ættu að vera til lög sem skylda svona fólk eins og okkur til að planta visst mörgum trjám til að draga úr vistspori okkar. Ég er ekki frá því að maðurinn minn sé að kanna slíka möguleika, þ.e.a.s. að planta trjám. Þegar við erum ekki á flandri er ég mjög einbeitt í myndlistinni. Ef dagurinn byrjar vel byrja ég á því að vekja börnin, sem fara iðulega of seint að sofa. Þau eru einstaklega geðgóð þrátt fyrir lakar svefnvenjur. Þá reyni ég eins fljótt og ég get að útbúa morgunmat sem er ekki bara loft og sykur. Stundum endar morgunmaturinn á að vera loft og sykur og við gleðjumst yfir því.

Ég útbý nesti fyrir börnin og segi Emmu, sjö ára dóttur minni, að klæða sig, sirka átta sinnum rólega og fjórum sinnum eins og heimurinn sé á hraðri leið inn í tvöfalt svarthol. Svo vek ég manninn minn, sem er þó yfirleitt vaknaður í hamaganginum, og aðstoða hann fram úr. Hann er með sjaldgæfan vöðvarýrnunarsjúkdóm og í hjólastól. Halli pumpar okkur svo í gang með því að setja smá Lizzo á fóninn, Truth Hurts, og við í sameiningu feikum hressleikann þar til við meikum hann. Fyrir mér er þetta mjög mikilvægur hluti af deginum. Við dönsum okkur saman áður en við tvístrumst hvert í sína áttina. Halli fer í vinnuna og ég og Miro, tveggja ára sonur okkar, keyrum Emmu í skólann. Morgnarnir eru fullir af ástarjátningum á milli okkar allra, sama hversu þreytt eða pirruð við erum. Við Miro komum svo aftur heim rétt fyrir níu og náum þá aðeins að láta Transformers og Pikachu fíflast saman þar til barnfóstran kemur klukkan níu.“

Þegar barnfóstran tekur við nær Margrét Rut að sinna öllu því sem þarf að sinna á stóru heimili þar til hún og Miro fara út klukkan ellefu. Þá byrjar ballið hjá henni í myndlistinni.

Sinnir myndlistinni af alúð

Margrét Rut sinnir myndlistinni af alúð þar til hún sækir Emmu í eftirmiðdaginn í skólann.

„Emmu hefur þótt það mikil áskorun að eignast lítinn bróður og hún nýtur þess mjög að eiga tíma ein með mér. Ég reyni að halda hátíðlegan mömmu og Emmu-dag á fimmtudögum þegar hún er búin snemma í skólanum. Þá gerum við eitthvað notalegt saman.“

Ertu mikil jólakona?

„Ég er alls engin jólakona, því er ég sérlega glöð að eiga sess í blaði um jólin! Frá því ég var 14 ára hefur vaxið í mér löngun til að draga mig frá hátíðinni, þ.e.a.s. þeirri glansmynd sem gefin er af henni í gegnum fjölmiðla. Þessi glansmynd og neysluhyggjan sem umkringir hana gerir það að verkum að mörgum líður enn verr. Ég fer sjálf í gegnum eins konar tilvistarkreppu hver einustu jól. Í gegnum árin fékk ég samviskubit ef mér fannst ég gefa of lítið – eða of mikið. Hvort tveggja var jafn slæmt og mér hefur aldrei liðið eins og það sem ég var að gera í öllu þessu stússi væri heiðarlegt. Mér fannst sem ég væri að taka þátt í leikriti og það sem var að gerast í kringum mig passaði ekki við hvernig mér leið. Ég vil að fólkið sem upplifir erfiðleika um jólin finni fyrir huggun og tengslum við aðra. Það er það eina sem skiptir máli. Ekkert annað skiptir máli.“

Fjölskyldan er samrýmd og falleg. Hér eru þau Emma, Halli, …
Fjölskyldan er samrýmd og falleg. Hér eru þau Emma, Halli, Miro og Margrét Rut öll saman á ljósmynd.

Alls konar tilfinningar koma upp um jólin

Margrét Rut segir að þeir sem eru að vinna sig í gegnum áföll yfir jólin eða eiga í erfiðum samskiptum við fjölskyldu sína þurfi að fá athygli og umhyggju.

„Ég vil að þeir sem eru að fást við áföll yfir jólin eða eiga í rosalega erfiðum samskiptum við fjölskyldu sína og neyðast samt til að umgangast hana yfir hátíðarnar, þeir sem eru að takast á við þunglyndi og kvíða eða skuldugir upp fyrir haus ofan á allt annað eða þeir sem eru í sjálfsvígshættu; ég vil að þið vitið að við sjáum ykkur og það er allt í lagi að finna til og finnast jólin erfið. Þið þurfið ekki að fylla upp í þessa glæstu og nánast ósnertanlegu ímynd sem fylgir jólunum, þó að hluti af mér reyni sennilega í hvert einasta skipti að gera það. Þrátt fyrir allt þetta tilfinningarót er barn í mér sem reynir að teygja sig alla leið aftur í tímann þar til árið er 1987 hver einustu jól.“

Það sem enginn talar um að gerist á jólunum

Hverja telurðu ástæðu þess að jólin hafa svona mikil áhrif á tilfinningalíf okkar?

„Ég held að jólin tákni mjög mismunandi hluti fyrir fólk. Ég er ekki trúuð en fyrir mörgum er þetta ennþá trúarhátíð. Ég held að það sé mjög einfalt að sjá hvernig jólin hafa áhrif á okkur út frá streituvöldunum, trúarþáttum, barnatrúnni og síðast en ekki síst skammdeginu. Þetta er myrkasti tími vetrarins sem hefur mikil áhrif á geðslagið og á sama tíma ótrúlega mikill streituvaldur viðvíkjandi útgjöldum, væntingum og, ef þú ert ég, örvæntingu og svo eru nemendur í prófum og annað slíkt. Þetta er fínasti kokkteill fyrir smá spennutrylling í lok árs. Það er satt best að segja ótrúlegt kraftaverk að sjá hversu huggulegt og rólegt er hjá flestum yfir jólin. Eða svo virðist vera. Mér finnst stundum eins og flestir, þrátt fyrir allan hamaganginn, fari svolítið inn á við um jólin. Fólk dregur sig saman og á ögurstundu á aðfangadagskvöld, klukkan sex hjá þeim sem eru með allt á hreinu, fellur allt í kyrrð. Meira að segja hjá fólki sem ekki er trúað. Það kemur þessi tilfinning eins og þegar snjór er nýfallinn og einangrar allt.“

Margrét Rut segir að fólkið í fjölskyldunni með alla samskiptabrestina, sem hún gerir ráð fyrir að sé hjá annarri hverri fjölskyldu, reyni að halda friðinn til að minnsta kosti níu um kvöldið. „Þá kemur kannski ýmislegt í ljós. Lífið mætir í öllu sínu veldi.“

Hver er besta minning þín frá jólunum?

„Besta minning mín er frá því ég var lítil, eflaust árið 1987. Þangar fer hugurinn hver jól. Við bjuggum í Chicago í Illinois og foreldrar mínir sendu okkur systurnar út í beiskan veturinn þar að leika á meðan þau kláruðu síðustu metrana af jólaundirbúningnum. Með öðrum orðum voru þau að klára að pakka gjöfum og færa þær undir stærsta jólatré sem ég hef augum litið. Ég fékk nefnilega að velja tréð og það var mér mikill heiður og hitamál hvers lags tré var valið. Það bognaði undan loftinu, það var svo stórt. Við bjuggum í lítilli nemendaíbúð svo sjón var sögu ríkari. Ég er ævinlega þakklát foreldrum mínum og eldri systur fyrir að hafa látið eftir vitleysunni í mér í gegnum tíðina. Það er besta jólagjöf allra tíma. Takk fyrir mig kærlega!

En það að koma aftur inn eftir að hafa verið úti í kuldanum er tilfinningin sem loðir hvað mest við. Á þessari stundu voru jólin allt. Það var hlýtt og við vorum öll saman. Mamma og pabbi stússuðu í eldhúsinu á meðan við systir mín klæddum okkur í sparigallana á milli þess að gjóa augum á alla pakkana sem fékk mig til að trúa á jólasveina enn frekar af því að ekki voru foreldrar mínir, námsmennirnir, vel stæðir á þessum tíma. Síður en svo. Við áttum lítið en á sama tíma áttum við allt. Við áttum hvert annað.

Ég hef aldrei fyrr leitt hugann að því en mögulega eru þessi jól mér hvað minnisstæðust út af þessum einfaldleika. Ári síðar dó amma mín í föðurlegg og 1989 fluttum við aftur til Íslands svo það má segja að tilfinningarnar og minningarnar hafi komist á skrið eftir þessi jól og orðið flóknari.“

Hvað gerir þú alltaf um jólin?

„Fyrir utan það að tapa mér ekki í hringstiga tilvistarkreppu minnar gleðst ég mikið með krökkunum yfir því að velja jólatré. Nú sér dóttir mín um það að velja og ég passa að forðast staði með ofvaxin tré. Þegar heim er komið með tréð hlustum við á jólatónlist og skreytum tréð. Ég er aðstoðarmanneskja í þessu samhengi og tréð er yfirleitt mjög vel skreytt á annarri hliðinni og örlítið skakkt. Sem sagt: Fullkomið. Alveg frá upphafi hef ég sagt börnunum satt frá með jólasveina og aðrar dulverur en svo skýt ég alltaf öðru hvoru inn í kímnitali um jólasveina sem er nóg til að fá blessuð börnin til að efast um sannleiksgildi þeirra eða mitt, sem er nú kannski öllu verra! Þrátt fyrir þetta elska þau allt í kringum jólasveina og jólin og lyfta andanum á heimilinu upp í sjöunda veldi. Þau setja skóna spennt út í glugga þrettán dögum fyrir jól og allt í einu verður skammdegið bærilegt og morgnarnir æsispennandi.“

Emma lætur ekki sitt eftir liggja þegar kemur að því …
Emma lætur ekki sitt eftir liggja þegar kemur að því að skreyta.

En aldrei?

„Ég fer aldrei í kirkjugarða til að heimsækja þá sem eru farnir, það fólk er með mér alla tíð og ekki bundið við staði, en ég get skilið hvernig það færir fólki frið að heimsækja garðana. Ég sendi heldur aldrei jólakort. Ár eftir ár skrifaði ég póstkort en sendi þau aldrei. Það hljómar kannski undarlega en það var orðið hefð hjá mér að skrifa þessi kort og henda þeim svo að innan við ári liðnu úr einhverri skúffunni. Af hverju mér þótti þetta svona erfitt veit ég ekki en mikið er ég fegin að ég get núna notað samskiptamiðla til að koma kveðjum áleiðis. En bara svo það sé á hreinu, þá finnst mér mjög gaman að fá jólakort og ég fæ ekkert samviskubit lengur þegar ég fæ kort án þess að hafa sent eitt sjálf. Ég þakka alltaf bara kærlega fyrir mig.“

Jólin skemmtilegri með börnunum

Hvernig breyttust jólin eftir að börnin fæddust?

„Í fáum orðum sagt urðu jólin mun bærilegri og jafnvel leyfi ég mér að segja skemmtileg. Allt með börnunum er skemmtilegra. Þau sjá heiminn á allt annan hátt en við þau fullorðnu. Þau flækja hlutina ekki fyrir sér og lifa fyrir núið. Það eina sem þau þurfa er það sama og við hin; ást og umhyggja. Um leið og ég sleppi þessum orðum krossa ég putta um að allt rifrildi um gjafirnar verði í algjöru lágmarki á milli barnanna. Annars er Grýlu að mæta. Það trúa allir á Grýlu ekki satt?“

Hvað hefur þig langað að prófa um jólin?

„Ég hef ekki prófað þetta en ég held að það gæti verið áhugavert að ferðast til landa þar sem ekki eru haldin jól. Það væri í mínum huga áhugaverð tilraun. Mögulega myndi ég sakna einhvers en kannski væri það ólíklegt ef menningarmunurinn væri nógu mikill. Ég er samt ekki viss um að börnunum þætti þetta áhugaverð tilraun.“

Þessa dagana er hún að undirbúa myndlistarsýningar sem verða eftir áramótin.

„Mér til mikillar gleði verð ég líka með nokkur verk á jólaopnun Gallerís Foldar hinn 7. desember næstkomandi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál