Einstæðar mæður geta líka látið draumana rætast

Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir.
Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Marel á Íslandi, býr til sínar eigin jólahefðir. Þær snúast aðallega um að hitta skemmtilegt fólk, borða góðan mat og gera eitthvað innihaldsríkt með dætrum sínum, vinum og fjölskyldu. Hún telur mikilvægt að hver og einn fá frelsi til að skapa sín eigin jól. 

Guðbjörg unir sér hvergi betur en í hópi með öðru fólki. Hún segir að hver dagur með fólkinu í Marel sé gjöf og hún leggi sig fram um að gera sitt besta daglega.

„Það nær enginn árangri einn síns liðs að mínu mati. Ég hef mjög gaman af mannlegum samskiptum. Starfið mitt felur í sér að taka ákvarðanir, vera í samskiptum við fólk og vita hvenær er rétt að ýta verkefnum áfram og hvenær þarf að dýpka samtalið áður en hægt er að hlaupa með verkefnið áfram. Að dýpka samtalið og átta sig á hver er staðan og hver er tilgangurinn er eitthvað sem ég hef gaman af.“

Guðbjörg segir mikilvægt að muna á jólunum að allt mögulegt gerist á stórum vinnustað.

„Sumir fara inn í jólin með gleði og tilhlökkun í hjarta á meðan aðrir eru að takast á við lífið og sakna kannski jólanna frá því í fyrra eða einhvers sem var. Þess vegna finnst mér mikilvægt að vanda jólakveðjuna; að hún sé einlæg og til okkar allra.“

Dæturnar í forgrunni um jólin

Þessi raunsæislega einlægni er rauði þráðurinn í persónuleika Guðbjargar þó að það sé alltaf stutt í hlátur og brosið.

„Ég vil vera þátttakandi í eigin lífi. Ég hef tekist á við áskoranir og lært af þeim og þroskast með tímanum og náð sátt.“

Guðbjörg á tvær dætur, Heklu og Hrafnhildi. Sú eldri er þrettán ára og sú yngri er þriggja ára. Hún leggur sig fram um að gera jólin skemmtileg og innihaldsrík fyrir sig og dætur sínar. Hún leggur mikla áherslu á að eiga stefnumót við jólin eins og hún hefur skilgreint þau. Hún reynir ekki að gera allt fyrir alla um jólin. Heldur að vera til staðar fyrir sig og þá sem standa henni næst.

„Fyrir tíu árum varð ég einstæð móðir. Mér þótti æðislegt að eiga dóttur mína en fann löngun til þess að eignast annað barn í kjölfar aðgerðar sem ég þurfti að fara í þar sem þótti tvísýnt hvort ég gæti í framtíðinni eignast fleiri börn. Ég ákvað þá að mig langaði í barn, þó að ég ætti ekki maka og lét slag standa og eignaðist seinni dóttur mína í gegnum tæknisæðingu.“

Ákvörðunin um að eignast barn með þessum hætti var ekki auðveld fyrir Guðbjörgu.

„Ég leitaði til fjölmargra sérfræðinga og fékk lánaða dómgreind hjá þeim. Ég held að allt sem maður setur athyglina á og leggur alúð og ást í, það vex. Ég hugsaði þetta vel og vandlega og upplifði sterka tilfinningu um að langa í annað barn á meðan löngunin í eiginmann og hefðbundna kjarnafjölskyldu, sameiginlegt húsnæði og fleira í þeim dúr var ekki til staðar. Ég man að einn sérfræðingur sem ég talaði við sagði mér að öll börn kæmu í heiminn með eitthvað. Líf barnsins yrði það líf sem ég gæti boðið henni. Ég var sannfærð um að hennar líf gæti orðið hamingjuríkt og frábært.“

Hefur þurft að læra að biðja um aðstoð

Guðbjörg þorir að viðurkenna að fyrstu árin ein með dæturnar hafi tekið á hana. Enda aldrei auðvelt að vera ein með lítið barn að hennar sögn.

„Ég hef þurft að tileinka mér nýjungar. Sem dæmi að biðja um aðstoð. Lífið stækkar þegar fjölskyldan stækkar. Ég hef aldrei upplifað einmanaleika á þessum árum sem ég hef verið ein. Eða svona næstum því aldrei, stundum sjálfsvorkunn auðvitað þegar maður er alveg að kafna yfir öllu sem þarf að gera eða er þreyttur uppi í sófa eftir daginn. En það einhvern veginn fór þegar Hrafnhildur fæddist. Maður lærir að sjá þessar tilfinningar þegar þær koma og láta þær ekki ná tökum á sér.“

Hvernig varðstu svona sjálfstæð?

„Það er spurning. Ég er ekki alveg viss. Ég held að maður sé fæddur með vissan eiginleika og þetta sér maður einmitt á börnunum sínum og þá hvað systkin geta verið ólík. Síðan tekur umhverfið og verkefni lífsins við. Ég hugsa að ég hafi verið heppin að fá að læra og þroskast af lífinu. Við þroskumst ekki bara í gegnum gleði heldur líka í gegnum áskoranir. Þegar við upplifum áskoranir þá fáum við tækifæri til að hugsa hlutina upp á nýtt. Stundum kemur lærdómurinn einnig í gegnum fólk sem segir einmitt réttu orðin á þeim tímapunkti þegar maður nær að hlusta. Tengdamamma mín fyrrverandi ræddi sem dæmi við mig einu sinni um sjálfstraust. Úr þessu samtali fékk ég dýpri skilning á hversu mikilvægt það er fyrir dætur mínar að ég búi yfir sjálfstrausti til að vera lifandi fyrirmynd þeirra á því sviði. Enda getur maður ekki kennt börnunum sínum eitthvað sem maður á ekki sjálfur.“

Guðbjörg nefnir annað dæmi þar sem fyrrverandi hátt settur stjórnandi hjá Marel spurði hana um drauma hennar í lífinu.

„Ég svaraði honum snögg upp á lagið að ég ætti mér enga draum af því ég væri einstæð móðir og útskýrði svo fyrir honum hvernig einstæðar mæður gætu ekki leyft sér að láta sig dreyma í lífinu. Hann benti mér á að það ættu allir rétt á að láta drauma sína rætast. Svo var það einn í vöruþróun sem benti mér á að honum þætti ég góð í mannlegum samskiptum og spurði mig hvort ég hefði hugsað hvernig ég ætlaði að nýta mér þann styrkleika. Það var eitthvað sem ég hafði ekki hugsað út í. Það hafa verið nokkur svona lærdómsaugnablik í lífinu, þar sem ég hef heyrt alveg sérstaklega vel það sem var verið að segja. Þannig að fyrirmyndir mínar eru nokkrar og ég er þeim þakklát.“

Reynir að hafa jólin einföld en innihaldsrík

Þegar kemur að löngunum hennar og væntingum fyrir jólin þá segir hún jólin hennar í dag dásamlegan tíma.

„Ég hef þurft að læra að hafa þau eins og mig langar. Fyrst þurfti ég að hugsa mig vel og vandlega um hverjir væru kjarnafjölskylda mín og hvaða vini mig langaði að hitta. Ég ákvað sem dæmi að hafa allan desember, sem jólamánuð, ekki setja alla athyglina á jóladagana þrjá og láta allt standa og falla með þeim. Ég fer á allskonar tónleika og geri ýmislegt skemmtilegt með vinkonum mínum og stelpunum fyrir hátíðina. Ég er einnig dugleg að skoða jólahefðirnar og máta þær við það sem mig langar að gera sjálf. Ég fer ekki niður í bæ á Þorláksmessukvöld, það var eitthvað sem ég hafði alltaf gert, en ég ákvað að hætta því. Ég sendi ekki jólakort, ég ákvað að hætta því líka svo einföld dæmi séu tekin.

Stundum er maður að hugsa eitthvað alveg í þrot og fattar svo að það sem er að valda hugarangri er að maður er ekki alveg sáttur og kvíðir að fara út fyrir þann ramma sem maður sjálfur jafnvel hefur sett sér á ákveðnum tímapunkti og samfélagið þar af leiðandi líka. Að breyta þessu krefst þess að maður þarf að láta aðra vita af því sem fær mann til að upplifa að maður sé að valda vonbrigðum. Við eigum eins og við getum að hafa jólin eins og við viljum. Að sjálfsögðu þurfum við stundum að gera málamiðlun, en við þurfum alltaf að vera sátt með niðurstöðuna. Þá er hægt að líða vel með stöðuna hverju sinni.“

Hvernig útskýrir þú hugtakið stefnumót við jólin?

„Ég á stefnumót við jólin á hverju ári og reyni að bjóða fólkinu sem mér þykir vænst um inn í það. Ég er ekkert sérlega góð í að elda og ekki heldur í að baka. Ég virðist geta tekið allskonar flóknar ákvarðanir í vinnunni, en þegar kemur að heimilinu finnst mér stundum alltof flókið að taka ákvarðanir um hvernig til dæmis eigi að mála eða hvaða sófa eigi að kaupa. Svo ekki sé talað um að velja flísar. Ég hef aldrei á ævinni verið jafnringluð og þegar ég þurfti að kaupa flísar fyrir anddyrið mitt. Ég reyni að finna leiðir til að einfalda hlutina. Sem dæmi þá er frændi minn kokkur. Hann kemur alltaf með sósuna til mín á aðfangadag. Þá er ég með kalkúnabringu sem er einföld og góð að mínu mati. Ég elda það sem mig langar að borða og er síðan dugleg að sækja aðföng svo allt gangi upp. Eins nýti ég tækifærin þegar þau koma til mín. Ef ég sé fallegt jólatré í byrjun desember þá bara kaupi ég það þá og set það upp strax. Mér finnst gaman að kaupa fallegar gjafir fyrir mína nánustu. Ég er með góðan mat og síðan þegar kemur að skreytingunum er ég með frábært ráð. Ég reyni að kaupa alltaf eitt flott jólaskraut á hverju ári, sem gerir það að verkum að maður á allt í einu bara ágætis safn af skrauti.“

Stundum flókið að svara einföldum spurningum

Guðbjörgu finnst áhugavert hvernig við ómeðvitað þvingum hefðum upp á hvert annað með sakleysislegum spurningum og bendir á að spurningar eins og hvar verðið þið um jólin? Ertu búin að kaupa föt á stelpurnar? Ertu búin að baka? Þetta eru allt saman vingjarnlegar forvitnispurningar en stundum eru ekki til einföld svör við þeim.

„Ég minnist sem dæmi tímans á síðustu áramótum, þar sem ég fór heim fyrir miðnætti með yngri dóttur mína og fannst æðislegt að eiga ein stefnumót við nýtt ár. Ég fór út á svalir þegar klukkan sló tólf á miðnætti, með kampavín í glasi og hugsaði með mér hvað lífið væri dásamlegt og síðan kom upp þessi setning: Áfram gakk!“

Guðbjörg segir að þessi setning komi oft upp í huga hennar.

„Það þarf ekki að vera með yfirgang heldur bara að halda áfram. Þá hægt og rólega kemst maður á betri stað.“

Þegar kemur að draumunum Guðbjargar þá snúast þeir að stórum hluta um dætur hennar tvær.

„Ég vona að heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna eigi eftir að nást og þjóðir heimsins nái að tileinka sér meiri víðsýni þegar kemur að einstaklingnum í samfélaginu. Hjá Marel erum við að leggja okkar á vogarskálarnar í þessum málum, með því að stuðla að sjálfbærari matvælavinnslu á heimsvísu með lausnunum okkar, en einnig vinnum við að því að móta frábæran vinnustað þar sem fólk líði vel, hæfileikar þeirra séu nýttir í krefjandi en gefandi verkefni og það fari heim í lok vinnudags glatt og sátt.

Ég vona að dætur mínar muni alast upp í heimi þar sem fólki líði vel og að ákvarðanir sem verða teknar séu hugsaðar í sátt við umhverfið og til lengri tíma. Langtímaáhrif aðgerða okkar ættu að falla að þeirri heimsmynd sem okkur langar að börnin okkar lifi við um ókomna tíð. Ég vona að stelpurnar mínar verði hamingjusamar og gefi sér leyfi til að láta sig dreyma, að þær hafi heilbrigða sjálfsmynd og umhverfið taki þeim eins og þær eru.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »