„Fyrstu jólin voru svolítið erfið fyrir okkur bæði“

Dagbjört Baldvinsdóttir og Aron Bjarnason ásamt dótturinni Eilíf sem fædd …
Dagbjört Baldvinsdóttir og Aron Bjarnason ásamt dótturinni Eilíf sem fædd er árið 2018.

Dagbjört Baldvinsdóttir og Aron Bjarnason eru á því að jólin séu tími þar sem allir ættu að búa til sínar hefðir saman. Þau eru vegan og borða gómsæta sveppa Wellington-steik á aðfangadag. Þau segja skipulag forsendu fyrir rómantík um jólin. Dagbjört og Aron eru búsett í Hafnarfirði. Saman eiga þau dótturina Eilíf sem fæddist sumarið 2018.

Þau eiga og reka auglýsingastofuna Filmís í Hamraborginni og hafa verið í auglýsingageiranum frá árinu 2012.

„Það var alltaf draumurinn að stofna okkar eigið fyrirtæki, sem við gerðum í ágúst 2017. Stofan hefur síðan þá vaxið hægt og rólega. Við erum nú fjögur sem störfum saman á stofunni og sérhæfum við okkur í vefhönnun, myndböndum og auglýsingagerð,“ segja þau.

Eruð þið bæði mikið fyrir jólin?

„Já, tvímælalaust! Við erum bæði mikil jólabörn og þurfum í raun bara að passa okkur að byrja ekki of snemma að hlakka til. Aron var til dæmis strax að tala um hvað hann hlakkaði til jólanna um leið og það byrjaði að hausta. Sumarið var varla búið og hann byrjaður að hugsa um jólin! Það er gaman að hlakka til en við erum mjög samstiga með að halda okkur aðeins á bremsunni þegar að jólunum kemur.“

Það skiptir miklu máli að rækta ástina um jólin að …
Það skiptir miklu máli að rækta ástina um jólin að mati Dagbjartar og Arons.

Hvað hafið þið verið lengi saman?

„Við erum búin að vera saman í rúm 8 ár og gift í 7 ár.“

Er það vinna að setja jólin saman, þegar um ólíkar hefðir er að ræða, sem síðan þarf að samþætta?

„Já, það getur verið það, algjörlega. Fyrstu jólin voru svolítið erfið fyrir okkur bæði. En þá komumst við að því að jólin snúast mikið meira um hefðir en við höfðum gert okkur grein fyrir. Að borða annan mat, hlusta á aðra tónlist, og fagna með annarri fjölskyldu en maður er vanur geta verið mikil viðbrigði. Ég man til dæmis að á fyrstu jólunum okkar saman keyrði ég sérferð heim til mömmu til að borða afganga, því mér fannst bara engin jól án matarins hennar! Eftir það ákváðum við að búa til nýjar hefðir, sem við værum bæði ánægð með. Við höfum lagt okkur fram um það á síðustu árum,“ segir Dagbjört.

Jólin alltaf að þróast

Hvernig er að upplifa jólin með nýju barni?

„Jólin voru alltaf frábær, en þau urðu bara betri með Eilíf dóttur okkar. Maður upplifir svolítið jólin í gegnum barnið, ég man að ég var til dæmis eiginlega spenntari fyrir hennar pökkum en mínum eigin! Ég man hvað við vorum ótrúlega spennt fyrir fyrstu jólunum hennar. Hún var að vísu bara sex mánaða gömul og gat takmarkað verið með, en þetta var yndislegur og eftirminnilegur tími. Spenningurinn fyrir þessum jólum er alls ekki síðri, því nú mun hún skilja meira og geta tekið meiri þátt í hátíðahöldunum,“ segir Aron.

Hverjar eru jólahefðirnar?

„Við erum enn að búa til okkar eigin hefðir, og þær munu líklegast breytast og bætast nú þegar maður er orðinn foreldri. En við skreytum heimilið í byrjun desember og veljum góðar jólamyndir til þess að horfa á á aðventunni. Uppáhaldsjólamyndin okkar en án efa The Holiday, það væru ekki jól án hennar. Svo er ómissandi að hlusta á jólalög Borgardætra. Við erum dugleg að fara í göngutúra með heitt súkkulaði í hendi að dást að jólaskrauti á húsum og í görðum. Við höfum líka verið dugleg að gefa hvort öðru í skóinn af og til og fara á jólatónleika. Á aðfangadag hlustum við á bjöllurnar hringja inn jólin og lesum jólaguðspjallið.“

Hvað er í matinn um jólin?

„Hnetusteik hefur orðið fyrir valinu síðustu ár, með klassísku jólameðlæti. Við urðum grænkerar fyrir nokkrum árum, svo jólin eru líka tími nýrra uppskrifta. Jólamatarhefðir eru því í raun enn að þróast hjá okkur,“ segir Aron.

Það er vanalega mikið pakkaflóð á heimili þeirra um jólin.
Það er vanalega mikið pakkaflóð á heimili þeirra um jólin.

Skipta skreytingarnar máli?

„Já, mér finnst það eitt það skemmtilegasta við þetta tímabil. Að setja heimilið í jólabúning í stíl við jólaskapið,“ segir Dagbjört.

Hvenær byrjið þið að spila jólalög og undirbúa jólin?

„Í enda nóvember erum við yfirleitt byrjuð að hlusta á jólalög. Einu sinni reyndum við alltaf að halda í okkur þangað til í desember, en núna erum við farin að leyfa okkur þetta aðeins fyrr, þannig er enn lengri tími til að njóta saman. Jólin eru nú bara einu sinni á ári,“ segir Aron.

Stór pakki og hundur besta gjöfin

Hvað mælið þið með að fólk geri þegar kemur að jólunum og hjónabandinu?

„Að vera skipulögð og klára að kaupa jólagjafirnar. Síðustu tvö ár kláruðum við þær fyrir desember, þannig að jólamánuðurinn fór ekki í neitt stress. Þannig urðu jólin mun rómantískari, þar sem við vorum meðvituð um að bara njóta alls sem þessi tími hefur upp á að bjóða. Stress gerir samböndum engan greiða,“ segir Dagbjört og Aron bætir við: „Við erum meðvituð um að gera eitthvað saman, hvort sem það er að horfa á mynd, fara í göngutúr eða á jólatónleika. Bara búa til tilefni til að vera saman. Okkur hefur líka fundist mjög gaman að koma hvort öðru á óvart með litlum gjöfum í aðventunni.“

Hver er besta gjöfin sem þið hafið fengið?

„Þegar ég var 10 ára fengum við systkinin hund í jólagjöf. Hann var svo með okkur í 14 ár eftir það. Það er klárlega besta gjöf sem ég man eftir,“ segir Dagbjört.

Aron er á því að eftirminnilegasta gjöfin hans sé stærsti pakki sem hann hefur fengið.

„Þegar ég var sex ára fengum við eldri bróðir minn pakka sem var nánast jafnstór og jólatréð í minningunni, en í honum leyndist rafmagnsbílabraut. Það var vart tími fyrir neitt annað þau jólin.“

Gómsætt sveppa Wellington að hætti Dagbjartar og Arons.
Gómsætt sveppa Wellington að hætti Dagbjartar og Arons.

Farið þið á tónleika eða listviðburði um jólin?

„Já, síðustu ár höfum við verið mjög dugleg við það, ætli þetta sé ekki bara að verða svolítil hefð hjá okkur,“ segja þau.

Sveppa-wellington

Hráefni

4 stórir portobello-sveppir

3 stórir saxaðir laukar

3 msk. ólífuolía

300 g spínat

4 kvistar af timjanlaufum

1 vegan smjördeig

1 tsk. dijon-sinnep

salt og pipar eftir smekk

Smjördeigs-smyrja

1 tsk. kjúklingabaunasafi (aquafaba)

1 msk. möndlu- eða kasjúmjólk

1 tsk. olía (með hlutlausu bragði)

½ tsk. hlynsíróp

Setjið stóra steikarpönnu yfir lágan til miðlungslágan hita. Bætið ½ tsk. af ólífuolíu og lauk við og lækkið svo hitann. Kryddið með salti og pipar og hrærið af og til í 15-20 mínútur, þar til laukurinn er orðinn gullbrúnn. Fjarlægið laukinn af pönnunni og bætið spínatinu við. Þegar það er tilbúið fjarlægið það af pönnunni og látið kólna. Aukið hitann í miðlungsháan og bætið við ólífuolíunni sem eftir er, ásamt sveppunum. Eldið þar til þeir verða léttgylltir (eftir u.þ.b. 5 mínútur) og snúið þeim svo við og eldið í 5 mínútur til viðbótar.

Setjið sveppina svo á eldhúsbréf í smástund til að losna við vökvann þegar þeir kólna. Setjið svo laukinn, spínatið og sveppina í kæli og kælið alveg.

Hitið ofninn í 200 gráður. Setjið bökunarpappír á bökunarplötuna og smjördeigið ofan á. Dreifið helmingi karamellukennda lauksins yfir miðjan þriðjung smjördeigsins og passið að skilja eftir 2 cm kant við brún deigsins. Dreifið svo helmingnum af spínatinu yfir laukinn. Hrærið svo dijon-sinnepinu yfir sveppina og kryddið vel með salti og pipar, og setjið sveppina ofan á spínatið. Kryddið svo sveppina með tímían, og setjið það sem eftir er af spínati og lauk yfir. Rúllið smjördeiginu varlega yfir sveppablönduna og ýtið niður á brúnirnar til að innsigla þær. Rúllið deiginu svo þannig að saumurinn snúi niður.

Fyrir smjördeigs-smyrjuna hrærum við öllum innihaldsefnunum saman í skál. Það þarf bara mjög þunnt lag af henni á deigið. Setjið svo smjördeigið í frysti í 10 mínútur áður en þið endurtakið með öðru lagi og frystið svo smjördeigið í 10 mínútur til viðbótar. Þið getið svo skorið fallegt munstur í deigið.

Smjördeigið er svo sett aftur á bökunarplötuna og í ofninn í 30-35 mínútur, eða þar til það verður gyllt og fallegt.

Sveppa-wellington er langbest enn heitt og nýkomið úr ofninum, áður en sveppirnir kólna og leysa frá sér vökva sem getur mýkt deigið.

Njótið vel!

Te og piparkökur eru dýrindis matur.
Te og piparkökur eru dýrindis matur.
Allskonar jolakræsingar
Allskonar jolakræsingar
Að pakka inn gjöfum með góðu meðlæti.
Að pakka inn gjöfum með góðu meðlæti.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál