Ásdís hefur oft haldið jól 21. desember

Ásdís Gunnarsdóttir listakona fagnar jólunum á dimmasta degi ársins, 21. …
Ásdís Gunnarsdóttir listakona fagnar jólunum á dimmasta degi ársins, 21. desember. mbl.is/Daniel Leeb

Ásdís Gunnarsdóttir listakona heldur upp á jólin að heiðnum sið. Hún hvetur fólk til að búa til nýjar hefðir og hafa gaman af. Að forðast gamlar hefðir sem eru orðnar að skyldum er nokkuð sem allir ættu að skoða. Hún fagnar sem dæmi jólunum, á dimmasta degi ársins, 21. desember. 

Ásdís Gunnarsdóttir listakona gerir hlutina eftir eigin sannfæringu. Jólin á þessu ári verða áhugaverð. Hún verður með sýningu í Iðnó 18. desember sem verður um leið fögnuður vegna útgáfu vefsíðunnar hennar asdissif.com. Síðan er unnin í samvinnu við eiginmann hennar, Daniel Leeb, og er um öll verkefni hennar og verk. Jólin verða því eins konar uppskeruhátíð á heimili fjölskyldunnar. En hvernig eru jólin að heiðnum sið?

„Ég hef svo oft hugsað um 21. desember sem jól. Það er af því að samkvæmt heiðnum sið þá eru jólin á dimmasta degi ársins. Ég hef oft fagnað þeim degi með því að gera listaverk; ljós í myrkri.“

Fara í helli á gamlársdag

Meðal jólahefða fjölskyldunnar er einnig siður frá afa Ásdísar, Þorsteini Einarssyni.

„Afi bjó til þá hefð að fara í helli, sem ég má ekki segja frá hvar er, á gamlársdag ár hvert. Þá klæddi hann sig upp í rauða skikkju og sagði okkur sögur af álfum inni í hellinum. Sögur sem ég hef aldrei heyrt aftur. Ég vildi óska þess að ég hefði tekið það upp. Mamma er ein af tíu systkinum og ég er hluti af stórum barnabarnahópi (á bilinu 30 til 40), svo við vorum mörg í þessari hefð á gamlársdag. Hellarnir voru vanalega skreyttir með kertum og kveikt var í bálkesti. Staðsetningin er algjört leyndarmál, en ég get sagt frá því að hellirinn er í álfabyggð.“

Afi Ásdísar, Þorsteinn Einarsson, bjó til þá hefð að fara …
Afi Ásdísar, Þorsteinn Einarsson, bjó til þá hefð að fara í helli á gamlársdag ár hvert. mbl.is/Daniel Leeb

Hvað gerir þú vanalega á jóladag?

„Það er mismunandi eftir árum, síðasta jóladag, þegar dóttir mín kom til mín frá pabba sínum, horfðum við fjölskyldan á „Christmas story“ svo falleg og skemmtileg mynd, en það hefur verið hefð hjá manninum mínum að horfa á hana á jólunum í New York. Ég hef tvisvar farið á tónleika í Fríkirkjunni með Agli Ólafssyni og það eru fallegustu jólatónleikar sem ég hef farið á. Mér finnst líka Fríkirkjan flott kirkja. Þegar ég hugsa um jóladag þá hugsa ég um möndlugraut sem mamma og pabbi búa til og möndlugrautinn sem amma og afi bjuggu til með kirsuberjasósu og möndluverðlaunum.“

Í jólaveislu á aðfangadag

Hvað með aðfangadag jóla?

„Á aðfangadag hef ég byrjað nýja hefð ásamt vinkonu minni Jessicu Bowe; að pakka inn jólapökkum og fá okkur hvítvínsglas og súkkulaði.

Á aðfangadag förum við oftast til foreldra minna í jólaveislu og þá hefur mér alltaf fundist mikilvægt að heyra í kirkjuklukkum hringja inn jólin.

Þegar ég var að alast upp fór ég með pabba mínum á St. Jósefs-spítala þar sem hann vitjaði sjúklinga og þar á eftir sungum við með nunnunum, það var ótrúlega falleg hefð. Mamma mín saumaði á mig jólakjóla sem voru svo fallegir. Það var eitt af því sem kom mér í hátíðarskap og maturinn! Rækjuhlaup, lundi og heimatilbúinn ís. Núna fæ ég mér hnetusteik úr Garðinum.“

Skreytirðu eitthvað á þessum árstíma?

„Ég næ aldrei að skreyta eins mikið og mig langar en markmiðið er alltaf að skreyta með miklu af ljósum (e. kitsch overload) og glitri. Ef ég ætti stórt hús, þá myndi ég skreyta það eins og amman í Fanney og Alexander eftir Bergman, engin spurning.“

Á stefnumót við sjálfið

Hvaða merkingu hefur lífið í þínum huga?

„Að fanga augnablikið, njóta og skapa og elska.“

Hvernig sérðu framtíðina?

„Á gamlársdag og nýársdag á ég stefnumót við sjálfið, kveiki á kerti og skrifa niður hugleiðingar um liðið ár og hvað ég sé fyrir mér á komandi ári.“

Á gamlársdag og nýársdag á Ásdís stefnumót við sjálfið þar …
Á gamlársdag og nýársdag á Ásdís stefnumót við sjálfið þar sem hún kveikir á kerti og skrifar niður hugleiðingar um liðið ár. mbl.is/Daniel Leeb

Hvað viltu segja við þá sem eru orðnir leiðir á gömlum hefðum?

„Búið til nýjar hefðir sem þið trúið á og hafið gaman að og forðist gamlar hefðir sem eru orðnar að skyldum.

Hátíðleiki, hvort sem hann er um jól eða á sunnudögum eða mánudögum, stuðlar að hamingju, trúi ég.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál