Pabbi laumaði sér inn í hjónaherbergi með ungu konunni

Mikael Torfason skrifaði móður sinni bréf í bókinni, Bréf til …
Mikael Torfason skrifaði móður sinni bréf í bókinni, Bréf til mömmu. Ljósmynd/Matthias Horn/Burgtheater

Mikael Torfason var að gefa frá sér bókina, Bréf til mömmu. Í bókinni skrifar hann móður sinni, Huldu Fríðu Berndsen, bréf þar sem hann gerir upp fortíðina. Í viðtali í tímariti Smartlands sagði Mikael að það hafi tekið hann 25 ár að sættast við fortíðina. Faðir hans, Torfi Geirmundsson heitinn, er fyrirferðamikill í bókinni eins og sést á þessum kafla úr bókinni: 

Við eigum svo margt sameiginlegt, mamma. Pabbi minn drakk sig í hel og það sama gerði pabbi þinn. Auðvitað erum við bæði að vinna úr þeim áföllum. Hvort með sínum hætti. Það hefur alltaf hjálpað mér að skrifa og ég veit að sum verkin mín hafa gengið nærri þér, hvort sem það eru bækur eða leikrit, því oftar en ekki hefur þú verið umfjöllunarefnið með beinum eða óbeinum hætti. 

Manstu þegar ég skrifaði mína fyrstu bók og gaf hana út sjálfur í ljósriti? Ljóðabókin Guð, eru mömmur til? Ég hef aldrei sagt þér það en mér rann til rifja að sjá hversu illa þér leið eftir að hafa lesið þetta litla óljóðakver sem ég kallaði svo. Ef ég man rétt þá hrundi veröld þín og vikurnar á eftir sökkstu í þunglyndi og vildir ekki lifa lengur. Við höfðum fjarlægst svo mikið að ég ákvað að mér væri skítsama hvað þér þætti um mín ljóð. Ég var ljóðskáld og listamaður og ætlaði ekki að láta konu í Breiðholti hafa áhrif á það hvernig ég skrifaði og um hvað. Ég var þá unglingur, rétt sextán ára, en þú tæplega fertug og þæg húsmóðir í Vottunum. Þá áttum við nákvæmlega ekkert sameiginlegt og vorum alveg sammála um það.

Ljóðin í bókinni eru mestmegnis reiðilestur í þinn garð. Því er merkilegt að skoða þessa bók í dag. Ég get ekki annað en brosað að öllu því ójafnvægi sem ungskáldið var í þegar það orti þessi ljóð. Þau bera titla eins og Ókunnug kona eða Djöflamamma, með vísun í þann Satan sem þú sást í hverju horni um það leyti sem ljóðin voru samin. Í mörg ár hafði ég engan húmor fyrir þessari bók og gat ekki lesið ljóðin í henni því ég fékk svo mikinn kjánahroll. Í dag þykir mér vænt um þennan ungling sem var óhræddur við bæði væmnina og reiðina sem lagði undir sig allt hans tilfinningalíf.

Pabbi hélt mikið upp á þessa ljóðabók og átti eina eintakið sem ég held að enn sé til. Ég fann það í dánarbúi hans þegar ég var að taka þar til. Bókin liggur hérna á skrifborðinu mínu. Síðurnar eru gular og þvældar og augljóst að pabbi hefur lesið hana oft í gegn. Ég skrifaði hana að mestu á fylliríi með honum þegar við bjuggum saman tveir á Skólavörðustíg og Ingvi bróðir með okkur þegar hann var ekki á sjó.

Nokkrum vikum eða mánuðum eftir að ég gaf þér bókina reifstu þig upp úr þunglyndinu, hringdir í mig ofan úr Breiðholti og bauðst mér í mat. Ætli þetta hafi ekki verið einhvers konar sáttahugmynd, að við ættum að hittast í mat heima hjá þér og verða vinir aftur. Ég samþykkti að koma þótt ég hefði önnur plön. Og mætti svo ekki. Stundum hef ég reynt að telja mér trú um að ég hafi í raun og veru viljað fara til þín í mat en svo hafi það bara fokkast upp. En ég held ekki. Ég held ég hafi viljandi sagt já til að geta sært þig með því að mæta ekki. Kannski svo þú vissir hvernig mér leið þegar ég elti Löduna. Svo þið biðuð eftir mér, þú og Villi maðurinn þinn og Lilja systir, á meðan lambalæri með öllu kólnaði á eldhúsborðinu í Vesturbergi. Ég býst við að Lilja hafi ekki fyrir sitt litla líf þorað að spyrja hvort hún mætti byrja að borða. Hún var strangtrúuð og heilaþvegin af ykkur Villa og Vottunum á þessum árum. Ég man að hún var með fléttur í hárinu og alltaf í síðu pilsi til að móðga ekki Jehóva sem hlyti að tryllast ef hann sæi hana í buxum.

Að lokum hefur Villi, húsbóndinn á heimilinu, farið með bæn:

„Himneski faðir Jehóva, við þökkum fyrir þessa máltíð...“ og þá hafið þið Lilja mátt byrja að borða án mín.

Á meðan stóð ég úti á svölum á Skólavörðustíg með æskufélögum mínum og bannaði þeim að svara í símann því ég vissi að þú varst að hringja og spyrja hvort ég ætlaði ekki að koma. Við félagarnir sungum lög eftir Bubba Morthens, eins og vanalega, eða öskruðum þessi lög öllu heldur yfir miðbæinn:

„Stál og hnífur er merki mitt. Merki farandverkamanna.“

Við vorum þá allir komnir í verkamannavinnu, æskufélagarnir, nema þeir sem voru enn í grunnskóla, svo að Stál og hnífur var okkar einkennislag. Pabbi splæsti á okkur brennivíni og ef hann var heima hneykslaðist hann á því að það væru aldrei neinar stelpur með okkur.

„Þið fáið ekkert að ríða út á Bubba,“ sagði hann og gaf okkur þau ráð að drekka rauðvín en ekki vodka í kók því kellingarnar væru vitlausar í léttvín.

Ef svo ólíklega hefði viljað til að einhverjar stelpur hefðu viljað hanga með okkur strákunum á þessum árum veit ég að pabbi hefði reynt að stinga undan okkur. Einu sinni tókst honum að stinga undan Ingva, sem bauð heim stelpu sem hann sá ekki sólina fyrir. Pabba leist svona líka vel á hana og fór með fögur ljóð og skenkti henni rauðvín. Hann þótti ógurlega fallegur á þessum árum og var voðalega smart klæddur í stofunni á Skólavörðustíg með léttvínsglas í hendi. Honum tókst alltaf að lauma inn klúrum brandara hér og þar til að gefa í skyn að hann væri ofboðslega góður í rúminu. Svo rauk hann til og setti Rod Stewart á fóninn því það var að hans sögn líklegast til að virka vel á kvenfólkið.

„If you want my body and you think I'm sexy, come on sugar let me know,“ söng pabbi svo með Rod, sem hann sagðist hafa hitt árið 1985 þegar söngvarinn kom til landsins og var viðstaddur krýningu Hólmfríðar Karlsdóttur sem þá varð Ungfrú Ísland og seinna Ungfrú alls heimsins.

Þetta var mikið sjónarspil fyrir mig og félaga mína sem forðuðum okkur fljótlega aftur út á svalir að reykja og syngja fyrir miðbæinn. Og áður en við vissum af var pabbi búinn að lauma sér inn í hjónaherbergi með þessari ungu konu sem við vissum báðir að Ingvi var skotinn í.

Bréf til mömmu heitir nýjasta bók Mikaels Torfasonar.
Bréf til mömmu heitir nýjasta bók Mikaels Torfasonar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál