Mætir í Hagkaup á miðnætti annan í jólum

Hrafnhildur Magnea Ingólfsdóttir.
Hrafnhildur Magnea Ingólfsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tónlistarkonan Hrafnhildur Magnea Ingólfsdóttir, sem gengur undir listamannsnafninu Raven, bakar lakkrístoppa um jólin og mælir með uppskriftinni utan á lakkrískurlspokunum góðu. 

Hrafnhildur Magnea hefur verið tengd tónlistarstarfi frá unga aldri og stundar nú nám í Amsterdam þar sem hún leggur stund á djasssöng við Conservatorium van Amsterdam. Sjálf býr hún í litlum bæ í 25 mínútna fjarlægð frá borginni. Tónlistin á hug hennar allan þessa daga sem og aðra. „Ég gaf nýverið út lagið „Hjartað tók kipp“ sem er jafnframt fyrsta lagið sem ég gef út á íslensku. Lagið er „singull“ af komandi EP-plötu sem Alda Music gefur út.“

Hvað ætlarðu að gera um jólin?

„Þar sem ég bý erlendis núna er ég bara ótrúlega spennt að koma til Íslands yfir jólin og verja tíma með fjölskyldunni minni. Það verður eflaust mikið um hittinga og boð, sem er bara æði.“

Hvernig eru jólahefðirnar þínar?

„Á aðfangadag förum við stórfjölskyldan í kirkjugarðinn að leiðinu hans afa. Þar fæ ég að hitta mörg frændsystkini mín, fólk skiptist á gjöfum og það er alltaf eitthvað notalegt við það. Ég vaki alltaf langt fram eftir á aðfaranótt jóladags og horfi á einhverjar skemmtilegar myndir. Á jóladag ligg ég í leti, les bækur sem ég hef fengið að gjöf eða glápi á sjónvarpið þangað til við förum í hangikjöt hjá ömmu.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefur aldrei verið erlendis um jólin

Hvað gerir þú alltaf um jólin?

„Á Þorláksmessu fer ég undantekningalaust á Mokka með mömmu, pabba og bróður mínum. Það er algjörlega ómissandi í miðri jólageðveikinni.

Síðustu ár hef ég gert það að smá hefð að mæta í Iceland eða Hagkaup á miðnætti annan í jólum þegar allt hefur verið lokað á jóladag. Þetta kemur til vegna þess að ég á eitthvað erfitt með það þegar allar búðir eru lokaðar og er þess vegna alltaf mætt þegar það er opnað. Frekar skrítin hefð.“

Hvað hefurðu aldrei gert á jólunum?

„Ég hef ennþá ekki verið erlendis yfir jólin. Enda held ég að ég gæti ekki hugsað mér að vera annars staðar en í frostinu í Reykjavík.“

Hver er besta gjöfin sem þú hefur fengið á jólunum?

„Einu sinni gaf besta vinkona mín mér áletrað armband sem mér þykir ofboðslega vænt um.“

Hvernig tónlist hlustarðu á um jólin?

„Einhvern veginn dett ég alltaf í Adele-gírinn um jólin svona fyrir utan þessi hefðbundnu jólalög.“

Hvaða kvikmynd horfirðu á um jólin?

„Ég horfi á Harry Potter öll jól og að sjálfsögðu á kvikmyndina Holiday.“

Með hamborgarhrygg á aðfangadag

Hvernig lýsir þú dæmigerðum aðfangadegi í þínu lífi?

„Eins og áður sagði byrjum við daginn á að kíkja í kirkjugarðinn þar sem ég hitti stóran hluta af fjölskyldu minni. Síðan keyrum við út gjafir og jólakort, sem mér finnst alltaf æðislega gaman. Eftir það fer allt í fullan gang heima og því fylgir vottur af stressi eins og á svo mörgum heimilum. Klukkan sex, í miðjum hamagangi, hlustum við á klukkurnar hringja inn jólin á meðan sósan mallar og hryggurinn eldast. Svo borðum við og opnum gjafir. Aðfangadagur er svo ekki fullkominn fyrr en maður er búinn að horfa á einhverja góða bíómynd.“

Hvað borðarðu um jólin?

„Hamborgarhrygg, waldorfsalat, baunir, brúna sósu og laufabrauð.“

Áttu góða uppskrift að deila með lesendum, eitthvað sem þú gerir alltaf á jólunum?

„Ég ætla að játa mig sigraða og viðurkenna það að ég kaupi bara lakkrískurl og fylgi lakkrístoppauppskriftinni aftan á pokanum.“

Mandarínur með negulnöglum

Hvernig eru æskuminningar þínar frá jólum?

„Ég man að mamma stakk stundum negulnöglum í mandarínur og það kom æðislega góð lykt sem ég tengi alltaf við jólin.“

Hefurðu alltaf sungið?

„Já, alveg síðan ég man eftir mér. Elstu myndböndin af mér syngjandi eru frá því ég var svona 3-4 ára. Þá söng ég Krummi krunkar úti hástöfum.“

Hvenær ákvaðstu að leggja sönglistina fyrir þig?

„Ég held að það hafi aldrei beint verið neitt meðvituð ákvörðun. Ég vissi alltaf að þetta væri það skemmtilegasta sem ég gerði og að stóri draumurinn væri að gera þetta að atvinnu. Ég vissi kannski ekki alveg hvernig ég færi að. Þegar ég byrjaði að semja mín eigin lög fann ég mig almennilega og þegar ég byrjaði í FÍH áttaði ég mig á því að þetta væri kannski bara alveg málið!“

Nóa-lakkrístoppar

3 eggjahvítur

200 g púðursykur

150 g Síríus-rjómasúkkulaði

150 g Nóa-lakkrískurl Stífþeytið eggjahvítur og púðursykur. Saxið súkkulaðið smátt. Blandið lakkrískurli og súkkulaði varlega saman við stífþeyttu eggjahvíturnar. Látið á plötu með teskeið. Bakið í miðjum ofni vð 150°C í 20 mínútur.

Athugið að hiti og tími getur verið svolítið breytilegur eftir ofnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál