„Ég er það sem kalla má jólasígauna“

Geirþrúður Ása Guðjónsdóttir.
Geirþrúður Ása Guðjónsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Geirþrúður Ása Guðjónsdóttir fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveitinni hefur í nógu að snúst þessa dagana. Hún er mikið á ferð og flugi vegna vinnu sinnar og veit fátt dásamlegra en að ferðast um jólin. Hún segir að jólin þurfi ekki að vera flókin, en hvar sem hún er í heiminum bakar hún fyrir jólin. Geirþrúður Ása hefur ákveðið að halda jólin hátíðleg í Flórída þetta árið.

Hún lifir ævintýralegu lífi. Sem dæmi var hún nýverið að klára tónleika í Tíbrártónleikaröðinni í Salnum í Kópavogi með tangóhópnum sínum, Le Grand Tango. Eftir það stökk hún upp í flugvél til San Francisco að hitta manninn sinn, sem var að syngja með Sinfóníuhjómsveitinni í San Francisco. „Svo kem ég heim og fer beint í jólastuðið hérna. Ég byrja á því að spila Svanavatnið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og St. Petersburg Festival Ballet sem er alltaf svo jólalegt og svo heldur boltinn áfram að rúlla fram að jólum. Ég sé meðal annars um strengjasveitina fyrir Friðrik Ómar fyrir norðan í Heima um jólin um miðjan desember en gestir Friðriks þetta árið eru Gissur Páll Gissurarson, Svala Björgvinsdóttir, Margrét Eir, Jógvan Hansen og Sigríður Beinteinsdóttir. Eftir það ævintýri fer ég svo beint í æfingar og tónleika með Jólagestum Björgvins í Hörpu og hringi þannig inn jólin hérna heima áður en ég stekk aftur upp í vél á Þorláksmessu og hringi inn jólin í Flórída þetta árið.“

Spilaði í búðargluggum á Þorláksmessu

„Allir sem þekkja mig vita að ég er alveg svakalega mikil jólakona. Þetta er uppáhaldstíminn minn og ég hreinlega get ekki setið á mér þegar nóvember gengur í garð. Ég er byrjuð að skoða nýjar uppskriftir fyrir jólasortirnar og hátíðarrétti. Ég er kannski frekar snemma í því þetta árið og er búin að fá pabba í heimsókn til að hjálpa mér að setja upp jólaseríuna á svalirnar hjá mér. Það er nú ekkert búið að skreyta enn inni en mér finnst svo yndislega kósí þegar ég er búin að setja upp einhver ljós í skammdeginu. Þegar ég var yngri, í Listaháskólanum, fór ég á Laugaveginn viku fyrir jól og bað búðareigendur um að fá að koma og spila á Þorláksmessu. Það gekk rosalega vel eftir og ég spilaði í fullt af búðum, oftast í búðargluggunum til að fá fólkið inn, og hlóp svo á milli búðanna sem ég var búin að skrá mig í – þar til það var lokað. Nú er ég alltaf að spila alveg fram að Þorláksmessu þannig að við pöntum með löngum fyrirvara á veitingahúsi og förum út að borða og rölta um bæinn kvöldið fyrir jól. Sumac er alltaf með æðislegan jólamatseðil þannig að hann er algjört uppáhald daginn fyrir jól. Við ætlum að fara núna í byrjun desember því að við verðum erlendis.“

Geirþrúður Ása Guðjónsdóttir.
Geirþrúður Ása Guðjónsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Jólin aldrei í föstum skorðum

Frá því að Geirþrúður Ása var unglingur hafa jólin aldrei verið í of föstum skorðum.

„Ég er það sem kalla má jólasígauna. Við fórum oft til Kanaríeyja um jólin og eftir að ég og maðurinn minn kynntumst hefur ferðabólan bara aukist þar sem hann vinnur úti um allan heim við að syngja í óperuhúsum, oft í kringum jólin. Mér er eiginlega alveg sama hvar ég er. Ég hef til dæmis verið í Flórída, New York, París og fleiri stöðum. Það snýst bara um að búa til stemninguna með því að vera saman og njóta. Fyrir jól þurfa nokkrir hlutir að gerast til að búa til steminguna. Ég verð að baka nokkrar sortir, það eru ekki jól án þess! Mamma sér samt um að baka sörurnar sem ég tek svo með mér hvert sem ég fer. Ég vil endilega spila fullt af jólatónleikum því þar myndast stemningin finnst mér. Pakka inn jólagjöfunum heima í stofunni hjá mömmu og pabba í kringum miðnættið með jóladiskana í gangi og eitt gott púrtvínsglas og hendast svo á milli staða með jólapakkana korter í jól áður en ég hoppa upp í flugvél ef ég er ekki hérna um jólin. Mér finnst það svo jólalegt að fljúga rétt fyrir jólin. Kannski er það vegna þess að ég var úti í námi í svo mörg ár og var alltaf á leið heim í jólafrí á þessum tíma en að sjá risastór jólatré í flugstöðvunum og jólaljósin alls staðar finnst mér alveg svakalega jólalegt. Mamma og pabbi stressuðu sig aldrei á þessu og þau sögðu einmitt að jólin kæmu hvort sem maður væri tilbúinn eða búinn að þrífa alla skápana. Ég hef einhvern veginn tekið þá stefnu í mínu lífi og jólin koma sama hvað. Þá er bara að njóta þeirra og samverunnar hvar sem maður er.“

Geirþrúður Ása elskar að vera í eldhúsinu, bæði að elda góðan mat og baka. „Við höfum oft verið á svo mismunandi stöðum yfir jólatímann en það stoppar okkur ekkert. Það er ýmislegt hægt að búa til bara með eina eða tvær hellur og það er nú ekki verra ef það er ofn með. Ég nota bara tómar vínflöskur til að fletja út ef það er ekki til kökukefli og ég bý til eitthvað gómsætt með því sem er til á hverjum stað! Fyrir nokkrum árum vorum við í París yfir jólin og áramótin í pínkulítilli íbúð í Mýrinni. Íbúðin var eiginlega bara eins og skókassi en sem betur fer vorum við með lítið útisvæði, eins konar svalir inni í portinu með borði og tveimur stólum. Við ákváðum bara að gera sem best úr öllu og rákumst á 50 cm stórt jólatré með ljósum og batteríum í einni hverfisbúðinni, sem við keyptum, svo fórum við bara í matvörubúðina og fundum confit-önd og kartöflur og rótargrænmeti sem við elduðum svo á einu hellunni í íbúðinni. Þar gátum við tvíristað kartöflurnar, eldað öndina á pönnu og búið til frisee-salat sem var ótrúlega gott saman í litla eldhúskróknum. Við kipptum líka með alls konar ostum og kæfu því nóg er nú valið í París. Við hliðina á matvörubúðinni var svo æðisleg vínbúð þar sem við völdum dýrindis frönsk vín og varð jólavínið það árið 2011 Nuit St. Georges frá Búrgúndí. Svo héldum við jólin bara hátíðleg, tvö saman í litlu íbúðinni, eftir að við rápuðum óvart í jólamessu sem var í kirkjunni á enda götunnar frá 17. öld með glæsilegum arkítektúr og frábærum hljómburði. Það þarf ekkert meira en það.“

Nýjasta jólauppskriftin hennar Geirþrúðar Ásu er sveppapaté emð rósmaríni og valhnetum.

„Ég hef verið að prufa mig áfram á veganfæði og ég elska að finna nýjar uppskriftir sem ég prófa og læt svo fjölskylduna og manninn minn smakka. Það gengur nú oftast vel en stundum misheppnast það líka alveg stórkostlega. Þessi uppskrift er reyndar skotheld og í miklu uppáhaldi hjá okkur. Hún er eiginlega svakalega jólaleg og rósmarínkeimurinn gerir hana svo hátíðlega.“

Hvernig skreytirðu fyrir jólin?

„Ég skreyti bæði íbúðina hér heima og í húsinu okkar á Flórída, þar sem við verðum um jólin.

Við setjum jólaljós á pálmatrén fyrir utan húsið og svo framan á allt húsið og í bakgarðinum líka. Það er alltaf best að vera bara með nóg af jólaljósum! Við og allir nágrannarnir úti tökum þetta alla leið!“

„Jólasögurnar mínar eru flestar tengdar því að spila fyrir jólin. Ég man eftir mér átta eða níu ára að klæða mig í fínasta jólakjólinn á föstudagskvöldi. Ég fór í kuldaskó og hélt á spariskónum í poka. Ég var í jólakápunni á leiðinni á Hótel Sögu að spila á jólahlaðborði með fiðluhópnum mínum. Kennarinn minn á þessum tíma var Lilja Hjaltadóttir. Það var ótrúlega skemmtilegt og örugglega ástæðan fyrir því að ég elska að spila á svona mörgum tónleikum fyrir jólin. Meðan aðrir voru heima að horfa á föstudagsbíómyndir eða eitthvað álíka var ég að spila öll jólalögin sem ég kunni fyrir jólahlaðborðsgestina. Þetta gerðum við frá því ég man eftir mér. Ég var alltaf einhvers staðar að spila með fiðluhópnum og Lilju í desember.“

Þegar kemur að sögum sem valda taugatitringi um jólin segir Geirþrúður Ása:

„Ég held að ég eigi ekki eina leiðinlega minningu um jól eða í kringum jólin. Kannski er mesta stressið að reyna að finna hina fullkomnu jólagjöf en ég reyni oftast að vera byrjuð að hugsa hvað mig langar að gefa snemma þar sem ég eyði mestum tímanum í desember við að spila jólalög í alls konar útsetningum með öllum þessum frábæru listamönnum sem ég fæ að deila sviðinu með.“

Jólin blanda af íslenskum, áströlskum og bandarískum hefðum

Þegar Geirþrúður flýgur út á Þorláksmessu á þessu ári verður maðurinn hennar búinn að skreyta allt fyrir jólin.

„Þá tökum við áströlsku og amerísku útgáfuna og höldum jólin á jóladagsmorgun. Mér finnst það alltaf voðalega huggulegt. Ekkert stress, bara huggulegheit. Þá græði ég líka aukadag á aðfangadag þar sem við erum hvort í sínu herberginu að pakka inn síðustu gjöfunum. Svo göngum við á milli húsa og látum nágrannana fá jólakortin og kíkjum kannski inn í smá heimsókn. Mary vinkona beint á móti kemur alltaf með jólakonfekt á aðfangadag sem endist öll jólin. Áður en við förum að sofa á aðfangadagskvöld hringjum við í áströlsku fjölskylduna því þau eru 16 tímum á undan okkur þannig að það hentar fullkomlega að hringja í þau áður en við förum að sofa. Svo á jóladag þá vöknum við í rólegheitum, fáum okkur gott morgunkaffi og eitthvað smá með því og byrjum svo að stússa í eldhúsinu við að elda jólamatinn og meðan hann er að malla opnum við pakkana saman og njótum samverunnar í rólegheitum í sólinni og hringjum svo í íslensku fjölskylduna og óskum þeim gleðilegra jóla.“

Sveppapaté með rósmaríni og valhnetum

Innihald: 1 kassi kastaníusveppir (mér finnst dönsku sveppirnir í Krónunni eða Nettó bestir)

4-5 hvítlauksrif

½ bolli fersk steinselja

2-3 msk. ferskt rósmarín

1 rauðlaukur

½-1 tsk. pipar

1 tsk. salt

1 msk. ólífuolía (má sleppa og nota vatn í staðinn)

90 g poki af valhnetum

Aðferð: Valhneturnar eru skornar gróft í bita og ristaðar við miðlungshita á pönnu. Það þarf að fylgjast vel með því þær brenna auðveldlega.

Sveppir, hvítlaukur, steinselja, rósmarín og laukur er svo allt skorið niður og skellt á pönnu ásamt salti, pipar og ólífuolíu þangað til laukurinn er orðinn hálfgegnsær og vökvinn í sveppunum gufaður upp.

Þá er öllu skellt í blandarann, NutriBullet eða matvinnsluvél þangað til þetta er maukað vel saman.

„Áferðin verður alveg eins og lifrarkæfa og þetta geymist vel í glerkrukku eða öðru íláti upp í fimm daga í ísskáp.

Mér finnst oft svo gott að hafa meira af rósmaríni og pipar frekar en minna. Það er líka hægt að prufa sig áfram með pekanhnetur í staðinn fyrir valhnetur og jafnvel kasjúhnetur eða brasilíuhnetur eftir því sem til er í búðinni.

Ef fersku jurtirnar eru ekki til nota ég bara þurrkrydd í staðinn. Útkoman verður alltaf góð, alveg sama hvað maður notar.

Mér finnst mjög gott að smyrja þessu svo á rósmarínkex frá Stonewall Kitchen og svo smá sultu með. Hátíðarsultan frá Stonewall Kitchen er til dæmis æðisleg í desember. Eða bara heimatilbúin aðalbláberjasulta frá mömmu,“ segir Geirþrúður Ása.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál