Fer alltaf í bæinn með systur sinni á Þorláksmessu

Hrafntinna Karlsdóttir er mikið jólabarn.
Hrafntinna Karlsdóttir er mikið jólabarn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hrafntinna Karlsdóttir segir að eftir að stelpurnar þeirra Þorvaldar Davíðs fæddust hafi þau verið að búa til sínar eigin jólahefðir og blanda saman við gömlu hefðirnar sem þau eru alin upp við. Fyrir jólin borða þau „blessað“ hangikjöt frá móðursystur Hrafntinnu sem er að hennar sögn algjör dýrlingur og fylgir kjötinu því ákveðin blessun. Eins gerir hún dásamlegar sörur og osta fyrir jólin. 

Hrafntinna og Þorvaldur Davíð eiga tvær dætur, þær Helgu Viktoríu sex ára og Emilíu Sól tveggja ára.

Helstu jólahefðir fjölskyldunnar snúa að jólakonfekti, jólatrénu, jólanáttfötum og sörum svo eitthvað sé nefnt. Jólakonfektið skipar einnig stóran sess í undirbúningi fyrir jólin.

„Þetta er ein uppáhaldsjólahefðin okkar. Við hjónin og stelpurnar okkar ásamt systur minni hittum góða vini okkar í desember og búum til jólakonfekt. Við höfum hist núna fimm ár í röð og hlökkum alltaf jafnmikið til næsta hittings. Við mætum öll í jólapeysu, fáum okkur jólaglögg og búum til fallegt og gott jólakonfekt. Konfektið verður vandaðra og betra með hverju árinu sem líður og við erum sífellt að prófa okkur áfram með fyllingar og fleira. Við höfum svo útbúið fallega gjafapoka og látið konfektið fylgja með jólapökkunum til fjölskyldu og vina síðustu ár. Þetta er dýrmæt fjölskyldu- og vinastund og kemur okkur sannarlega í jólaskapið.“

Hrafntinna segir ómissandi kaupa ilmkerti með jólailmi.
Hrafntinna segir ómissandi kaupa ilmkerti með jólailmi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar talið berst að nýlegri jólahefð nefnir Hrafntinna laufabrauðið góða.

„Þetta er ný jólahefð hjá okkur eða frá því í fyrra. Frænka mannsins míns gaf okkur sérstaka steikingarpotta fyrir laufabrauð síðustu jól. Það var áður rík hefð í fjölskyldu mannsins míns að gera laufabrauð fyrir jólin sem rekja má aftur til langafa hans sem ættaður var úr Eyjafirði. Við hittumst heima hjá tengdaforeldrum mínum og bjuggum til laufabrauð fyrir síðustu jól með nýju pottunum og ætlum að halda í þá hefð.“

Hrafntinna bakar alltaf Sörur fyrir jólin.
Hrafntinna bakar alltaf Sörur fyrir jólin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Furutréð úr Bolholtsskógi

Hvernig jólatré eruð þið með?

„Stelpurnar okkar hafa farið fyrir jól síðustu ár með ömmu sinni og afa að höggva furutré í Bolholtsskógi í Rangárþingi ytra og fá heitt kakó á eftir. Það er orðin falleg hefð sem okkur og stelpunum þykir afar vænt um.“

Hrafntinna bakar sörurnar sjálf.

„Ég hef bakað sörur síðustu ár og mér finnst þær algjörlega ómissandi með kaffibollanum í desember. Við erum með fleiri hefðir, sem dæmi þá gefum við hvort öðru og stelpunum ný náttföt hver jól. Á aðfangadag þegar búið er að opna pakkana fara allir í nýju náttfötin sín og hafa það notalegt. Ég kaupi alltaf eitt gott jólailmkerti fyrir jólin og kveiki á því í desember til að fylla heimilið af góðum jólailmi.“

Síðustu pakkarnir kláraðir á Þorláksmessu

„Ég hef alltaf tekið rölt með systur minni frá því ég man eftir mér upp og niður Laugaveginn á Þorláksmessu. Síðan börnin fæddust hafa þau verið með. Við röltum í búðir og klárum allra síðustu jólapakkana, fáum okkur heitt kakó og heitar jólamöndlur.“

Hvað með jólamatinn?

„Mér finnst voðalega gaman að elda og í desember höfum við alltaf boðið góðum vinum okkar í heimalagaðan „julefrokost“ þar sem við erum með ýmislegt á boðstólum. Þar á meðal er heit lifrarkæfa með beikoni, smurbrauð með reyktum laxi og sinnepssósu og heitur brie-ostur með hunangi, hnetum og rósmaríni ásamt alls kyns góðgæti. Með matnum höfum við haft gott rauðvín og púrtvín í fallegum kristallsglösum sem við fengum frá ömmu og afa mannsins míns í jólapakkanum eitt árið.“

Blessaða hangikjötið

Eruð þið hrifin af hangikjöti?

„Við fáum alltaf hangikjöt heima hjá mömmu og pabba á jóladag. Kjötið kemur frá Vestmannaeyjum, en móðir mín á ættir að rekja þangað. Móðursystir mín og maðurinn hennar eru með kindur uppi á Heimakletti og þau úrbeina og reykja sjálf kjöt hvert ár. Við köllum þetta blessaða hangikjötið þar sem móðursystir mín er algjör dýrlingur og okkur finnst alltaf ákveðin blessun fylgja kjötinu. Allir í fjölskyldunni bíða spenntir eftir jóladegi að fá þetta hangikjöt, sem er að okkar mati það allra besta.“

Eruð þið alltaf með það sama í jólamatinn?

„Við höfum verið að prófa okkur áfram síðustu ár hvað jólamatinn varðar. Við höfum til dæmis verið með kalkún, nautakjöt, hreindýrakjöt og hamborgarhrygg síðustu ár. Að mínu mati klikkar hamborgarhryggurinn ekki. Gott waldorf-salat og rauðkálið hennar mömmu er þó alltaf á boðstólum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál