Fékk bónorð á Þorláksmessukvöld

Ásta S. Fjeldsted.
Ásta S. Fjeldsted. mbl.is/Árni Sæberg

Ásta S. Fjeldsted vélaverkfræðingur og framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands er klár, opin og skemmtileg kona. Að hennar mati eru jólin einstakur tími og Þorláksmessa rómantískasti dagur ársins. Ástæðan fyrir því er án efa sú að unnusti hennar, Bolli Thoroddsen, fór á hnén fyrir tveimur árum, einmitt á Þorláksmessukvöld, fyrir framan jólatréð heima.

Ásta S. Fjeldsted er með þetta fallega alþjóðlega yfirbragð. Hún er opin og sjálfsörugg; rétt eins og sumir myndu lýsa hinni dæmigerðu ungu íslensku athafnakonu – í hennar tilfelli með franskan fatastíl og japanska fágun. „Frakkland er í miklu uppáhaldi hjá mér, enda bjó ég þar um árabil, fyrst eftir menntaskóla og síðar þegar ég starfaði þar fyrir stoðtækjafyrirtækið Össur. Ástæðan fyrir því að ég fór fyrst til Frakklands var sú að mig langaði út fyrir þægindarammann, að finna mig í ókunnugu landi.“

Talaði ekki ensku fyrr en ég talaði frönsku

Ásta valdi Provence-héraðið í Suður-Frakklandi og lagði stund á nám þar. „Aix-en-Provence er lítill fallegur bær, með steinlögðum götum og fáguðum arkitektúr. Alþjóðlegir háskólanemar setja svip á bæjarlífið en annars búa þarna að mestu efnameiri Frakkar. Ég leigði litla kytru af franskri konu; Noëlle Peyre, sem hafði mikil áhrif á mig á þessum tíma. Noëlle, sem þýðir í raun jól á frönsku (Noël), var einstaklega smart kona á besta aldri, sem hafði hvorki gifst né eignast börn. Hún starfaði sem sálfræðingur en hafði sem ung kona ferðast um allan heim sem ljósmyndari. Hún lék að vissu leyti á mig og þóttist ekki tala stakt orð í ensku fyrr en ég hafði búið hjá henni í um hálft ár og foreldrar mínir komu í heimsókn. Þá allt í einu tjáði hún sig reiprennandi á ensku við þau! Svo einbeitt var hún að láta mig ná árangri á þessum nýja stað.

Það var margt í fari hennar sem heillaði mig. Fatastíllinn, stutta svarta hárið, silfurskartið og Kent-sígaretturnar – sem hún því miður keðjureykti. Hún kenndi mér að rífast – en í Frakklandi þykir ekkert betra en gott rifrildi. Það var nokkuð sem henni fannst ég alls ekki nógu góð í. Ég var vön íslenskri framkomu, þar sem það að vera ósammála þýðir oftar en ekki drama í marga daga á eftir.

Móðir Noëlle var einstakur kokkur og útbjó litla sæta ljúffenga franska rétti fyrir okkur á kvöldin. Ég átti margar dýrmætar stundir með þessum áhugaverðu konum og vinafólki þeirra sem var ýmist fólk í fjallaklifri, listamenn eða fisksalar á bæjarmarkaðnum. A.m.k. voru þau allt öðruvísi en það fólk sem ég hafði áður kynnst. Það sem ég komst hins vegar að í Frakklandi var að ólík menning, takmörkuð tungumálageta og fleira reyndist ekki hindrun fyrir mig við að kynnast fólki og eignast nýja vini. Mér fannst gott að fara út og sjá veröldina í nýju samhengi. Þetta er nokkuð sem ég hef tileinkað mér og trúi að sé gott fyrir alla að gera með reglulegu millibili, eigi þeir þess kost.“

Ásta og Bolli með börnin sín tvö.
Ásta og Bolli með börnin sín tvö.

Að standa með sér og njóta lífsins

Í þessu litla einbýlishúsi sem stóð aðeins ofan við bæinn, umkringt ólífutrjám og fallegum blómum, lærði Ásta listgreinina að standa með sér, vera sammála um að vera ósammála og að njóta lífsins. Eftir Frakklandsdvölina hélt Ásta til Kaupmannahafnar og lauk prófi í vélaverkfræði. Síðan fór hún að starfa fyrir stoðtækjafyrirtækið Össur, þar sem hún fékk aftur tækifæri til að búa í Frakklandi. Síðar vann hún fyrir IBM í Danmörku, ráðgjafarfyrirtækið McKinsey & Co. í Kaupmannahöfn og síðar í Tókýó sem hún segir að hafi verið einstakt tækifæri og ekki síðra nám en verkfræðinámið í danska tækniháskólanum DTU.

Voru fyrst keppinautar en síðan lífsförunautar

Ásta og Bolli sambýlismaður hennar eru miklir sálufélagar og vinir. Þau kynntust fyrst í Menntaskólanum í Reykjavík, þar sem þau kepptu um stöðu inspectors scholae, formanns nemendafélagsins. Hún vann hann í forkosningu en hann „valtaði yfir hana“ í aðalkosningunni að hennar sögn. Þau sátu saman í stjórn Vöku í HÍ og urðu ágætis félagar – en bjuggu að mestu hvort í sínu landinu til fjölda ára – svo sambandið var stopult. Það var svo um jólin árið 2013 að Ásta ákvað að þau skyldu skoða eitthvað meira en vinskap. Það var einmitt á Þorláksmessukvöld.

„Það var svo sérstök tenging á milli okkar Bolla. Þótt við hefðum í fyrstu verið keppinautar var þessi mikla virðing og vinskapur sem viðhélt okkar tengslum. Við töluðum nokkrum sinnum saman á ári í síma og vorum vanalega hvort í sinni heimsálfunni þegar símtölin áttu sér stað. Eitt sumarið ákvað ég svo að fara að heimsækja Bolla til Japans þar sem hann hafði byggt upp fyrirtæki. Við áttum dásamlegan tíma saman, þó svo að plön mín um að klífa fjöll og fara á sjóbretti í þessari ferð hafi farið fyrir lítið. Bolli skipulagði dvölina og vildi hann að við myndum bara njóta og slaka á saman.“

Sagði honum að við værum málið

Ásta er þessi manneskja sem vill alltaf vera á fullu.

„Bolli tekur hins vegar stundum af mér völdin og kennir mér raunverulega að njóta stundarinnar. Þessi heimsókn markaði tímamót í okkar sambandi, því á Þorláksmessukvöld þetta sama ár bankaði ég upp á hjá Bolla sem var staddur á Íslandi og tilkynnti honum nokkuð snögg upp á lagið að ég teldi okkur málið hvort fyrir annað. Hann brosti bara og sagði að hann hefði lengi verið að bíða eftir að ég fattaði þetta.“

Stuttu eftir þetta, eða um páskana árið eftir, ákvað Ásta að flytja til Japans og var boðin föst staða á skrifstofu McKinsey í Tókýó. Eftir að dóttir þeirra kom í heiminn, tveimur árum síðar, flutti hún til Íslands og nú búa þau Bolli í raun á tveimur stöðum. Ásta er meira hér heima en Bolli er reglulega úti í Japan þar sem hann starfrækir fyrirtækið Takanawa. Hann reynir að stýra dagskrá sinni þannig að hann geti unnið meira á Íslandi og notið samvista við Ástu og börnin þeirra tvö.

„Bolli er hörkuduglegur og maður sem margir leita til þegar hugað er að viðskiptum í Japan. Hann er góður í mannlegum samskiptum, rólegur og hógvær. Hann lætur hlutina gerast og er kominn með mikla reynslu og þekkingu á Japansmarkaði, talar reiprennandi japönsku eftir samtals 12 ára dvöl í landinu og ætla ég ekki að taka það af honum. Við finnum bara út úr hlutunum í náinni framtíð um búsetu og fleira. Það eru margir sem spyrja okkur hvernig við ætlum að hafa hlutina í framtíðinni, en við erum meira bara í flæðinu myndi ég segja og leyfum því að ráðast.“

Ánægð með búsetuna á Íslandi

Ásta er hins vegar ánægð með að vera komin til Íslands aftur, enda telur hún að að mörgu leyti sé lífið hér betra en á þeim stöðum þar sem hún hefur starfað í heiminum. Fyrir utan að vera með fjölskylduna og vini í kringum sig er tíminn sem fer í samgöngur tiltölulega lítill, boðleiðir stuttar og e.t.v. einfaldara að mörgu leyti að láta hlutina gerast hér.

„Sumum finnst nóg um þessa jákvæðni og spyrja á hvaða gleðilofti ég sé, en ég er bara frekar sátt með hlutina hér – þó svo ég sakni auðvitað stundum alþjóðlegs umhverfis og meiri fjölbreytileika.“

Hvað með jólin?

„Mér finnst jólin dásamlegur tími. Ég er í grunninn mikil fjölskyldumanneskja, þó svo að vinnan eigi oft hug minn allan. Jólin nota ég til þess að skrúfa aðeins niður „tempóið“ og verja notalegum stundum með Bolla, börnunum, fjölskyldunni og vinum. Á jólunum vinnum við Bolli ágætlega vel saman. Hann er mikill stemningsmaður og ég svo sem líka – en við leggjum áherslu á ólíka hluti. Hann er slakur og skemmtilegur en ég er aðeins meiri planari.“

Risastórt jólatré keypt á síðustu stundu

Á Þorláksmessu fara Ásta óg bolli vanalega að kaupa risastórt jólatré.

„Bolli velur tréð gaumgæfilega að gömlum sið í hans fjölskyldu. Hann elskar að gera góð kaup og velur vanalega stærsta tréð á staðnum – sem e.t.v. ætti frekar heima á jólatrésskemmtun en í heimahúsi – og endar auðvitað kengbogið inni á stofugólfi. Þetta er heilög athöfn í hans huga og vinir hans þekkja þetta vel. Mér finnst bara gaman að þessu.

Við pössum alltaf að eiga notalegt kvöld saman á Þorláksmessu, helst með góðu bæjarrölti og kertaljósum. Síðan skreytum við, pökkum inn síðustu pökkunum og njótum samverunnar. Við getum eiginlega talað endalaust saman – og gleymum okkur oft – þannig að svefninn líður fyrir það. Við erum þannig séð bestu vinir og félagar líka.“

Aldrei upplifað rómantískari stund

Hvernig var að trúlofast á Þorláksmessu?

„Ég hef ekki upplifað rómantískari stund. Við vorum komin heim eftir gott bæjarrölt og nýbúin að pakka inn síðustu gjöfinni. Það sem ég kunni svo vel að meta var að hann skyldi biðja um hönd mína heima í stofunni okkar, beint fyrir framan bogna jólatréð. Við höfum ferðast mikið í gegnum árin og hefðum mögulega getað verið á einhverjum framandi stað eða merkilegu fjalli, en að vera bara heima, í kjarnanum okkar, með dóttur okkar sofandi inni í herbergi, var fullkomið augnablik að mínu mati. Þorláksmessa hefur því margs konar gildi fyrir okkur: Dagurinn sem ég tók ákvörðun um að við værum góð hugmynd og síðan dagurinn sem hann staðfesti það.“

Listrænar systur sem elska jólin

Ásta á ekki langt að sækja fagurfræði sína, enda er Ragnhildur Fjeldsted, blómaskreytir hjá Dansi á rósum, systir hennar.

„Ragnhildur er mesta jólabarn sem ég þekki og mikil stemningsmanneskja. Hún er meistari í að velja fallegar og vel ígrundaðar gjafir, bakar sortir í falleg box, handsaumar blóm á hluti þegar það á við og býr til guðdómlega kransa á hurðir. Ég panta vanalega fullt af skreytingum frá henni fyrir jólin sem ég síðan gef vinum og vandamönnum. Ragnhildur er systir mín en hún er einnig svo margt meira í mínu lífi. Hún er besta vinkona mín en samt svolítil mamma mín líka, þar sem ég er örverpi fjölskyldunnar og 15 ár eru á milli okkar.

Ragnhildur er listræn og það stendur henni enginn framar í skreytingum sem eru vanalega mjög einfaldar og aðeins út í japanskan stíl. Ég hef lært mikið af henni og legg því t.a.m. mikið upp úr því sjálf að hafa jólapakkana sem fallegasta – enda höfum við systur nánast meiri áhuga á innpökkuninni en sjálfu innihaldinu.

Ég myndi samt aldrei bera mig saman við Ragnhildi á þessu sviði, en hún hefur smitað mig með áhuga sínum og fagurfræði og svo marga fleiri í gegnum árin. Hún segir að þetta sé allt frá foreldrum okkar komið sem gengust upp í að setja fallega bangsa eða sælgæti á pakkana til að gleðja okkur börnin um jólin.“

Sækir í fjölbreyttar áskoranir

Ertu í draumastarfinu þínu núna?

„Ég er í ótrúlega skemmtilegu starfi þar sem ég kynnist nýju fólki og fyrirtækjum nánast dag hvern – en það er líka krefjandi. Það er af mörgu að taka innan veggja Viðskiptaráðs og utan, en með því öfluga og frábæra teymi sem þar starfar, reyndum formanni og framkvæmdastjórn, finnst mér nánast allir vegir færir. Það hefur verið virkilega lærdómsríkt að koma heim og fá tækifæri til að kynnast öllum þessum flottu fyrirtækjum, stjórnendum þeirra sem og stjórnmálamönnum – og sjá hvernig þetta spilar allt saman.

Hvað framtíðina varðar er erfitt að segja en ég þykist vita að leið mín muni liggja í átt að fyrirtækjarekstri, jafnvel með einhverri kennslu líka. Hjá Össuri, IBM og McKinsey kynntist ég fjölbreyttum og öflugum fyrirtækjum þar sem ég á mér margar flottar fyrirmyndir. Ég sæki í að vinna með öflugu og helst ólíku fólki þar sem áskoranirnar eru fjölbreyttar og áhrif vinnunnar áþreifanleg að einhverju leyti. Svo þarf auðvitað að vera líf og fjör í vinnunni. Í dag sit ég í stjórn Háskólans í Reykjavík og hef tekið að mér stöku stundakennslu þar m.a. í stefnumótun og efnahagsmálum Japans fyrir MBA-nemendur skólans. Ég hef haft mjög gaman af því að reyna að fá fólk með mér í eins konar hugarferðalag um ókunnugar slóðir með myndefni sem ég á oftar en ekki sjálf og kafa ofan í menninguna um leið og ég tengi það við ískaldar staðreyndir og niðurstöður mælinga. Þetta snýst í mínum huga um að fá fólk á flug og víkka sjóndeildarhringinn. Þetta er mikilvægt bæði í rekstri og kennslu. Foreldrar mínir eru bæði kennaramenntuð og ég ber ómælda virðingu fyrir kennarastarfinu. Þau hafa reyndar varað mig við lágum launum innan greinarinnar, sem mér finnst fáránlegt. Af hverju borgum við kennurum ekki betur fyrir þeirra mikilvægu störf? Fáar stéttir eru samfélagi okkar mikilvægari.“

Jólahefðirnar í Japan áhugaverðar

Stöðug uppfærsla á þekkingu heillar Ástu.

„Það sem mér finnst áhugavert við kennsluna sem og reyndar fjölbreyttan fyrirtækjarekstur, fyrir utan að geta vonandi miðlað af eigin reynslu, er að hvort tveggja heldur manni á tánum þekkingarlega. Maður er svo fljótur að staðna og festast inni í eigin bergmálshelli. Eins tel ég mikilvægt að rífa sig upp annað slagið og kynnast öðrum heimshlutum betur, menningu og hefðum. Ég hvet til dæmis alla til að fara til Japans eða Kína – það hristir allverulega upp í manni.“

Hvað er áhugavert við jólin í Japan?

,,Jólahefðirnar í Japan eru áhugaverðar. Um 70% Japana eru shintotrúar en þjóðin hefur tekið upp marga kristna siði. Sem dæmi er algengt að fólk gifti sig samkvæmt kristnum sið, helst með vestrænan prest, sem er þó iðulega ekki alvöruprestur heldur oft háskólaskiptinemi í aukavinnu. Síðan eru jólin að mörgu leyti áhugaverð. Japanir leggja áherslu á rómantík og sambönd um jólin, sem eru oftar en ekki tími stefnumóta. Fleiri siðir eru dásamlegir, eins og að fara á KFC og kaupa sér fötu af kjúklingi um jólin. Veit ekki hvort þetta á að vera í anda þess að borða amerískan kalkún yfir hátíðirnar en þetta er dálítið spaugilegur siður sem margir hafa tileinkað sér.“

Hvað gera Japanir tengt samböndum sem við getum tileinkað okkur?

„Ég er ekki viss um að við Íslendingar viljum tileinka okkur mikið úr sambandsmenningu þeirra. Konur mennta sig mjög vel í Japan og eru ekki síður færar en karlarnir en síðan fara 2/3 kvenna út af vinnumarkaðnum um leið og þær eignast fyrsta barn sitt. Um leið og þær gifta sig, sem vanalega er gert með pomp og prakt, er drifið í barneignum. Um leið og barnið kemur virðist samband hjóna oft breytast mikið. Mæðurnar sofa vanalega í öðru herbergi á meðan barnið er lítið, þá með barninu og tengdamamma flytur iðulega inn tímabundið. Íbúðir í Japan eru litlar og þröngar. Allt sem heitir nánd og að viðhalda hjónabandinu virðist vera áskorun í þessu umhverfi.“

Ásta bendir á eitt sem Íslendingar gætu tileinkað sér á japanska vísu.

„Hins vegar er eitt sniðugt í stefnumótamenningu Japana sem við gætum tekið upp eftir þeim en það er að hópur vina fer út saman á stefnumót með jafnstórum hópi af vinkonum. Vanalega er farið út að borða og síðan í karókí, sem er hrikalega skemmtilegt að prófa í Japan. Maður verður helst að vera í búningi, en Japanir elska að klæða sig í búninga, og syngja, misvel að sjálfsögðu. Alveg kostulegur siður sem fleiri mættu prófa. Neyðir okkur út úr þægindarammanum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál