Mælir alls ekki með því að grilla pylsur í brauðristinni

Úlfar Finnbjörnsson elskar rjúpur.
Úlfar Finnbjörnsson elskar rjúpur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úlfar Finnbjörnsson matreiðslumeistari hefur fengið viðurnefnið „Villti kokkurinn“ þar sem hann þykir afskaplega fær þegar kemur að matreiðslu villibráðar. Úlfar var ungur að aldri þegar hann byrjaði að prófa sig áfram í eldhúsinu. Það var líf og fjör á æskuheimili hans enda voru þau systkinin sjö talsins og því stundum erilsamt í eldhúsinu.

„Ég var bæði mjög snöggur og aldrei hræddur við að búa mér til mat. Þegar aðrir fengu sér morgunkorn bjó ég mér sem dæmi til þriggja hæða samlokur. Ég prófaði mig áfram með allskonar álegg og myndi segja að ég hafi verið meiri sælkeri en margir á mínum aldri á þessum tíma.“

Grillaði pylsur í brauðristinni

Úlfar segist ekki muna hvort maturinn hans hafi smakkast vel á þessum tíma en hann geti staðfest að stundum þegar hann snéri sér við í eldhúsinu hafi verið búið að stelast í helminginn af samlokunum.

„Ég grillaði einnig pylsur í brauðristum sem ég mæli ekki með fyrir neinn að gera, enda skildi pabbi ekkert í því að hann þurfti að kaupa nokkrar brauðristar á stuttum tíma.“

Úlfar byrjaði fljótlega að veiða á stöng og síðan að skjóta fugla í framhaldinu af því.

„Eins og sönnum veiðimönnum hæfir fylgir maður matnum eftir á matardiskinn. Svo það má segja að áhugi minn fyrir veiðum hafi fæðst á svipuðum tíma og ástríða mín fyrir matargerð.“

Langamma sem var engri annarri lík

Úlfar á ekki langt að sækja hæfileika sína í eldhúsinu. Langamma hans, Theódóra Sveinsdóttir, var brautryðjandi á sínu sviði í eldhúsinu.

„Theódóra langamma var matreiðslukona sem stóð fyrir veislum þegar tignir gestir komu til landsins á sínum tíma. Hún var brautryðjandi á sínum tíma. Einstæð móðir fjögurra barna, sá um allskonar atvinnurekstur, var forfrömuð frá fínum hótelum í Kaupmannahöfn og lærði að útbúa kóngafæði á þeim tímum þegar aðstæður voru oft afar frumstæðar. Saga hennar er einstök enda var langamma fædd í Gerðum í Garði árið 1876 og þó að hún hafi alist upp við fábreyttan kost fór hún til borgarinnar tvítug að aldri og hóf nám við Hússtjórnarskólann í Reykjavík og fór síðan eftir námið til Kaupmannahafnar, félítil og fákunnandi í erlendum tungumál. Það voru töggur í langömmu á öllum aldursskeiðum. Móðir mín heitin varðveitti þessar sögur fyrir okkur í gegnum árin. Hvernig hún keyrði á milli bæjarfélaga til að sinna eigin rekstri sem hún hafði í nokkrum sýslum, einstæð móðir með meira að segja dóttur sína með sér félítil í útlöndum.“

Úlfar segir að áhugi hans á villibráð og veiðum hafi kviknað hjá honum níu ára að aldri þegar hann fór í sveit til bræðranna Guðmundar og Guðlaugs Theódórssona sem bjuggu í Axarfirði.

„Guðmundur og Guðlaugur kenndu mér á náttúruna. Hvernig maður nýtir ber og rabarbara í sultu. Við veiddum á landi og við strendur og þeir notuðu alla bráð upp til agna. Veröldin sá til þess að ég myndi tileinka mér þeirra siði vel og vandlega. Enda var ég í níu ár árlega í sveit hjá þeim á sumrin. Jörðin er einstök og náttúran svo nákvæm. Að veiða og lifa í samræmi við það mættu fleiri tileinka sér að mínu mati.“

Getum byrjað strax í dag

Hefurðu þá jafn mikinn áhuga á að veiða og að elda?

„Já, ekki spurning. Þetta er allt hluti af sama ferlinu. Að fylgja bráðinni eftir og upplifa þessa tilfinningu þar sem maður situr við matarborðið, allt í senn þakklátur, stoltur og svolítið montinn með matinn.“

Úlfar er hvað þekktastur fyrir villibráðarhlaðborðin sín og má segja að forréttahlutinn sé ekki síður veglegur en aðalréttirnir í þessum veislu.

„Já, það er áhugavert að leggja áherslu á forréttina og hvet ég alla þá sem hafa áhuga á góðum villibráðarréttum um jólin að byrja ekki seinna en í dag að spá í hvað þeir ætla að bera fram um jólin. Það sem er sniðugt að gera í þessu samhengi er að laga réttina og síðan frysta þá. Eins getur ein tegund af kjöti farið í allt að þrjátíu rétti, ef maður bara þorir að láta hugann reika og prófa sig áfram með uppskriftir.“

Salt og pipar aðalmálið

Hvað er í uppáhaldi hjá þér um jólin?

„Það eru alltaf rjúpur í matinn hjá mér á jólunum. Ég elda þær alltaf eins og mamma og langamma mín Theódóra gerði hér áður. Þetta er leyniuppskrift sem er í Villibráðarbókinni minni. Við notum hana öll fjölskyldan, sjö systkinin og mamma og pabbi þegar þau voru á lífi.“

Úlfar segir frá skemmtilegri hefð hér á árum áður þar sem allir hittust í húsi foreldra þeirra eftir aðfangadagskvöld þar sem hver kom með sína rjúpusósu og síðan fór af stað keppni þar sem fjölskyldan valdi bestu sósuna.

„Þegar ég var að læra prófaði ég að útfæra leyniuppskriftina þannig að ég leyfði rjúpunum að sjóða í vatni en bætti gulrótum, kryddjurtum og berjum við sósugrunninn. Mamma sauð alltaf rjúpurnar einungis í vatni og kryddaði með salti og pipar. Ég lenti í öðru sæti með þessa uppfærslu því ef maður setur gulrætur og fleira í sósuna deyfir maður góða rjúpubragðið. Svo mín reynsla er sú að ef maður ætlar að sigra í svona keppni þá er alltaf minna meira enda leita flestir eftir þessu djúpa góða rjúpubragði. Að minnsta kosti í minni fjölskyldu.“

Arfleifð veislumatseljunnar lifir áfram

Þegar kemur að tímanum fram að jólum og framtíðinni segir Úlfar fjölskylduna, börnin og barnabörnin skipta mestu máli.

„Ég er með jólahlaðborð fram að jólum á Grand hóteli, sem er að sjálfsögðu með villibráðarívafi. Börnin eru svo í forgrunni þessa dagana og barnabörnin að sjálfsögðu. En ég held áfram að veiða og elda mat eins lengi og ég finna þörfina fyrir slíkt innra með mér.“

Úlfar á son að nafni Úlfar Örn Úlfarsson sem er um þessar mundir að læra að vera kokkur á Hótel Sögu. Arfleifð veislumatseljunnar Theódóru mun því lifa áfram um ókomna tíð.

Rjúpur

8 rjúpur, hamflettar

8 fóörn

8 hjörtu

salt og nýmalaður pipar

4 msk. olía

sósujafnari

1,5 dl rjómi

2 msk. rifsberjahlaup

1 tsk. gráðostur

Skerið fóörn til helminga og skolið innan úr þeim. Kryddið rjúpu, fóörn og hjörtu með salti og pipar og brúnið í olíu á pönnu á öllum hliðum þar til allt er orðið fallega brúnt. Setjið rjúpurnar, fóörnin og hjörtun í pott, hellið vatni yfir og sjóðið við vægan hita í 50-60 mínútur. Sigtið þá soðið yfir í annan pott. Þykkið soðið með sósujafnara og bætið rjóma, rifsberjahlaupi og gráðosti út í. Kryddið með salti og pipar. Úlfar mælir með að bera rjúpurnar fram með sósunni, berjasoðnum perum, rósmarínkartöflum og sykrubrúnuðum rófum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál