Jólin að hætti Egils Sæbjörnssonar

Egill Sæbjörnsson listamaður.
Egill Sæbjörnsson listamaður. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Listamaðurinn Egill Sæbjörnsson bendir á orð Charlie Chaplin sem sagði að lífið væri „tragedía“ í nærmynd en „kómedía“ í fjærmynd. Hann segir lífið stórkostlegt ferðalag og það sé leiðinlegt að vera of neikvæður. Hann er mikið fyrir jólin og gefur lesendum sínum uppskrift að þeim. 

Egill er búsettur í Berlín og hefur gert það um árabil. Hann er einnig með íbúð á Njálsgötu þar sem hann býr ásamt kærustu sinni Katrínu Ingu Jónsdóttur Hjördísardóttur. Þau skipta búsetu á milli þessara borga og annarra ferðalaga vegna sýningarhalds og annars. Í gegnum árin hefur Egill þó alltaf einnig komið reglulega til Íslands að heimasækja fjölskyldu og vini, meðal annars um jólin sem eru notalegur samverutími að hans mati. Það er áhugavert að spegla sig í hugmyndum Egils hvort heldur sem er um listina, jólin, lífið eða tilveruna. Hann hefur verið kyndilberi myndlistar og tónlistar allt sitt líf en einnig skrifar hann mikið af textum og fæst við önnur hugðarefni sem ekki fá alltaf að sjá dagsins ljós, en hann segist sjá sama loga á bak við allar starfsstéttir.

„Jólin eru góður tími, þegar maður tekur sér tíma frá amstri dagsins að vera með fjölskyldunni og vinum. Ég er frekar afslappaður um jólin og nýt þess að vera með fólkinu mínu og að borða góðan mat. Jólin koma einu sinni á ári, en síðan eru litlu jólin sirka 364 daga ársins. Ég er vanalega lengi í vinnunni og fæ mikla ánægju út úr því – en á jólunum leyfi ég mér að slaka á. Að sjálsögðu gefur maður fólki gjafir. Gjafir þurfa að mínu mati ekki að vera stórar. Stundum getur verið nóg að gefa bara samveruna. Sumir eiga líka nóg af hlutum og þá er gaman að gefa þeim bara gleði. Mér þykir í það minnsta rosalega gott að eiga jólin á jólunum en gleyma ekki boðskap jólanna alla hina daga ársins.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Það má finna hið æðra í öllu

Hvað með trúna? Ertu trúaður?

„Já, ég trúi á æðri mátt, alveg sama hvaða nafni hann er nefndur. Öll trúarbrögðin eru af sama merg og hafa sama kjarna, sem er hinn andlegi þáttur tilverunnar. Ég er hins vegar á því að nútíma trúarbrögð séu bara stuttlíft fyrirbæri og ekki komin til að vera. Ég tel þau hafa orðið til þegar borgarskipulagið krafðist þess og borgir og lönd urðu svo stór, fyrir um 2.000 árum, að trúarbrögð hafi verið notuð til að halda fólkinu saman í einu ríki eða innan ákveðinna heilda. Með aukinni tengingu fólks eftir öðrum leiðum, m.a. með internetinu og túrisma, munu gildi fólks sameinast það mikið að trúarbrögðin verða ekki þörf sem lím lengur. Við gætum sameinast um að trúa á æðri mátt og að hver og einn ráði hvað hann/hún/það er eða heitir. Það að trúa er nauðsynlegt, ef við tryðum því ekki að fæturnir bæru okkur kæmumst við ekki einu sinni úr rúminu. Trúin er taugafræðilegt fyrirbæri sem teygist á mismunandi svæði lífs okkar. Það að trúa á eitthvað æðra getur verið mjög hjálplegt við að losna við óþarfa áhyggjur og annað sem annars hamlar okkur í lífinu. Trúin er eldri en nútíma trúarbrögð og mun lifa lengur en kristni, íslam og búddismi.

Ég hef átt erfitt með að segja nafn Allah upp á síðkastið, það eru tímar trúarfordóma á margan hátt. Ég á sálufélaga í Berlín sem rekur tyrkneska sælgætisbúð í Berlín. Ég fer stundum til hans og sit hjá honum í hálftíma og ég finn hve samveran með honum er þægileg. Það er eitthvað sem erfitt er að útskýra með orðum. Eitt skiptið þegar ég sat hjá honum trúði hann mér fyrir áhyggjum sínum af framtíðinni. Hann er að eldast og þá vakna oft áhyggjur tengdar peningum. Þá sagði ég honum að hafa engar áhyggjur. Að Allah myndi sjá fyrir honum og allt yrði í lagi. Hann var glaður að ég segði Allah í staðinn fyrir Guð og svaraði: Já, þú trúir á Guð og ég á Allah og aðrir á eitthvað annað en í raun skiptir öllu að við trúum. Og það er mikill kjarni. Ég hef þá skoðun að trú sé mikilvæg, alveg sama hvað hún nefnist. Jólin eru miklu eldra fyrirbæri en kristin jól og það er gott að hafa í huga á þessum tímum og sameinast í gleði yfir vetrarsólstöðum með öllum í heiminum sama hverrar þjóðar eða trúar þau eru.“

Nú hefur þú lifað á listinni lengi – hvernig skilgreinir þú velgengni í þínu fagi?

„Ég hef notið nógu mikillar velgengni til að hafa getað lifað á listinni í ein 20 ár og get staðið með vel flestu sem ég hef gert hverju sinni, hvort heldur sem er í tónlist, myndlist, myndbandsinnsetningu eða öðru sem ég hef tekið mér fyrir hendur innan listarinnar. Að þurfa ekki að vera með málamiðlun innan myndlistarinnar er velgengni að mínu mati. Það er starfið en í einkalífinu er það öll sálarvinnan sem við fáum líka tækifæri til að vinna. Ég get kannski ekki sagt að þar sé hægt að tala um velgengni, því lífið er svo mikilfenglegt og erfiðir tímar eru ekki síður mikils virði en góðir tímar. Charlie Chaplin sagði að lífið væri „tragedía“ í nærmynd en „kómedía“ í fjærmynd. Lífið er stórkostlegt ferðalag. Það er leiðinlegt samt að vera of mikið neikvæður og vonandi ná sem flestir að stíga inn í jákvæðari hliðar lífsins enda eru þær líka heilsusamlegri. Að eiga líf utan myndlistar og sköpunar er mikilvægt.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Upplifði miðaldurskrísu sem tók á sálarlífið

Hver er forsaga verkefnanna sem fengu þig í þína sálarvinnu?

„Lífið getur verið að mörgu leyti flókið og um 38 ára aldurinn var ég farinn að skrapa botninn og leitaði þá ýmissa leiða til að skilja stóra samhengið á milli hlutanna, tilgang minn í lífinu og hvernig ég gæti breytt viðhorfunum mínum til hlutanna. Það sem ég hef fengið speglað til mín og ég finn samhengi í er að ég er kyndilberi, m.a. myndlistar, tímabundið hér á jörðinni. Listin verður ekki til innan í mér, hún hefur verið til löngu áður en ég kom til sögunnar. Líkami minn er þróaður af öðrum en mér, tungumálið þróað af öðrum, hugmyndirnar sem við veltumst í eru einnig komnar frá öðrum, umhverfið og í raun og veru bara módelið að því hvernig við lifum lífinu er búið til af öðrum. Við erum bara svona einn múrsteinn í veggnum, á einn eða annan hátt og þá meina ég það aðallega á jákvæðan hátt. Ég bjó ekki til myndlistina, ég bjó ekki til tækin eða tólin sem ég vinn með þegar ég geri myndlist, ég bjó ekki til neinar af þeim hugmyndum sem ég er að vinna með. Eiginlega er ég að vinna á verkstæði sem einhverjir aðrir bjuggu til. Núna er ég að vinna þar og síðan kemur einhver annar og vinnur á þessu verkstæði. Við erum kyndilberar, okkur er réttur kyndill þegar við fæðumst, við berum hann í gegnum okkar lífstíð og svo tekur einhver annar við og svo koll af kolli.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Treystir mannkyninu fyrir sér

Þetta er auðmjúk leið til að líta á tilveruna. Hvað með framtíðina?

„Ég held að ef fólk horfir svona á heiminn, að við séum kyndilberar, í þjónustuhlutverki, þá sjái það að við þurfum að skila jörðinni af okkur á sæmilega góðan hátt. Annars nenni ég ekki að fara djúpt ofan í það. En ég trúi ekki að heimurinn sé að fara til helvítis. Ég lít fremur á mannkynið sem ungling sem er að læra. Ég held að það sé eðlilegt að við höfum búið til allar þessar frábæru vélar og brennt alla þessa olíu. Af því að það er bara svo svakalega gaman að geta keyrt svona hratt. Síðan munum við komast að því einhverntímann að það verða afleiðingar af því sem við höfum gert. Rétt eins og með allt annað í lífinu, því allt er ferli, lærdómsferli. Við erum stöðugt á einskonar lærdómsbraut. Ef við horfum á tímana sem við lifum á í dag, séð úr framtíðinni, getum við líka séð að hann er nauðsynlegur partur af lærdómsferli. Eftir 50 eða 100 ár, þegar við verðum komin í meiri samvinnu við náttúruna, gerlana og bakteríurnar munum við sjá að við hefðum aldrei komist á þann stað ef við hefðum ekki lifað eins og við gerum í dag og þurft að fara í gegnum þetta lærdómsferli. Ég leyfi mér að varpa þessari jákvæðu vörpun inn í heiminn, vonandi virkar það og hefur áhrif. Fólk verður að trúa á mannkynið.“

Færðu aldrei löngun til að rífa þig út úr samhenginu?

„Nei, ég treysti manneskjunni gjörsamlega. Við mannkynið í heild sinni munum leysa úr hlutunum saman. Rétt eins og fólk sem lendir í öðrum vandræðum í lífinu. Ef það fær réttar upplýsingar og hjálp, þá nær það vanalega að rétta úr sér. Við mannkynið erum fruma úr einni veru, samstarfandi í einu samfélagi, hluti af einni stórri heild. Ég sé mannkynið fyrir mér þannig að við séum öll í raun hluti af einni stórri manneskju, í raun sem frumur eins líkama. Og þennan stóra líkama sé ég fyrir mér sem konu sem heldur á barni. Og það er ekki séns að þessi kona láti barnið falla. Barnið og konan eru sami einstaklingurinn. Við erum ekki að fara að klúðra þessu. Það er útilokað.“

Með ást á þekkingu

Hvað finnst þér þá um hin ólíku starfsheiti? Líkar listamanninum ekki illa við „lobbíistann“ og öfugt?

„Ég held að það þurfi ekki að vera þannig. Ég hef komist á þann stað að skilja að á bak við hverja einustu starfsgrein er samskonar logi. Myndlistin var það eina sem kom til greina fyrir mig. Allt frá því ég var lítill hef ég fengið hrós fyrir það sem ég hef skapað listrænt. Ég man eftir mér á leikskólanum að setja saman ólíka liti af leir. Að reyna að finna út hvaða litur kom þegar maður blandar saman rauðum og grænum og af hverju liturinn á leirnum varð brúnn þegar allir litir voru settir saman. Ég var frekar einrænn og út af fyrir mig og man eftir því hvað það gladdi mig mikið þegar fóstrurnar söfnuðu saman legóhúsunum mínum og settu upp á hillu. Þó maður hafi verið í myndlist alla ævi gerir það mann ekki endilega að góðum myndlistarmanni. Margir gætu talið að það væri mikilvægt fyrir mig að taka niður myndlistargleraugun í lífinu og prófa eitthvað fleira. En það er kannski það sem ég er að gera á tilfinningasviðinu, með því að finna hamingjuna í einkalífinu en ekki einvörðungu í gegnum myndlistina, tónlist og myndbandsinnsetningu.“

Hefur þér alltaf fundist þú hafa leyfi til að færa þig á milli listgreina? Hvernig öðlast maður þannig hlutdeild á milli sviða?

„Ég er löngu hættur að hugsa að ég eigi ekki heima einhvers staðar. Eftir að ég hitti Forn-Grikkina í Aþenu inni í grafhýsi þá veit ég að þeirra logi er sá sami og brennur inni í okkur og að allar greinarnar eru skyldar og af sama meiði. Þú veist að Michelangelo gerði styttur og málaði stór listaverk – rétt eins og það kæmi allt úr sömu tölvunni. Á dánarbeðinum sagðist hann mest sjá eftir því að hafa notað pensilinn. Ég geri aðallega myndbandsinnsetningar, sem er í raun og veru tæknilegt framhald af málverkum. Ég er teiknari og málari í grunninn og þar eru ræturnar mínar og stofn. En svo á ég heima í tónlist líka og hef átt það lengi. Ég er forvitinn um margt og hef ást á þekkingu og þess vegna eins og við kannski flest, eins konar „amatör-fílósóf“.“

Egill útskýrir að orðið „philosophie“ þýðir að elska þekkinguna.

„Eða að fíla „sófíuna“ – fíla þekkinguna. Það er það sem Forn-Grikkirnir gerðu – og gera – þeir eru nefnilega ennþá hér, við erum þau.“

Hvað viltu segja við þá sem þora ekki inn í ákveðnar greinar?

„Ég lærði myndlist og þannig fór ég inn í myndlistina. Það gerir mig ekki endilega að betri myndlistarmanni, en ég hef gert myndlist frá því ég man eftir mér. Ég lít ekki svo á að ég hafi verið fæddur inn í greinina og var ekki sjálfur með fjölskyldutengingu þangað. En ég geri það sem færir ánægju hvort heldur sem er að skrifa, mála, vinna með tækni eða tónlist. Ég er ekki gott dæmi því ég byrjaði þriggja ára og hef eiginlega stundað þessa vitleysu alla tíð síðan. Ég mæli með því að allir fylgi draumum sínum. Það myndu Forn-Grikkirnir segja, allt annað er tímasóun. Stundum er þó erfitt að sjá hvað er manns eigin draumur og hvað er speglun úr draumum annarra. Það er allt tengt.“

Listin mun standa af sér kapítalismann

Þessa dagana er Egill bæði að vinna í eigin tónlist (hljóðblanda 12 laga plötu með frumsömdu efni frá árinu 2018 sem gefin verður út af The Vinylfactory í vetur) og að vinna í listaverki sem er 12 metra há bygging og baðstofa í risastóru spai á vegum Therma Art Group. Einnig er hann að fara yfir efni sem móðir hans hefur unnið með leynd í 20 ár, en þau voru samferða í gegnum Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1993 til 1997. Egill hefur stýrt tveimur sýningum síðustu 2 ár með efni móður sinnar sem inniheldur einnig efni frá mömmu hennar, ömmu Egils. Efni sem spannar þrjár kynslóðir.

„Þetta fjallar um heilun í gegnum list og tengsl kynslóða, en móðir mín hefur unnið að bók um Sigríði Björnsdóttur síðustu 10 árin, sem nú er að verða tilbúin til útgáfu.

Amma Elín var bóndakona sem síðan gafst upp, hætti að tala, hætti að borða og lá í rúminu þangað til sjúkrabíll kom og tók hana og setti á spítala. Segja má að í vanmætti og vanþekkingu tímans hafi fjölskyldan fengið hnekk sem enn hefur ekki verið fyllilega unnið úr. Er það ein af fjölmörgum svipuðum sögum frá þessum tíma. Síðar eftir að mamma fór í „art therapíu“ hjá Sigríði í 10 ár og fór að vinna úr hlutunum meðal annars með því að fara í daglegar gönguferðir með mömmu sinni, þá komu upp endalausar sögur frá ömmu, sem mamma skrifaði niður á laun. Sumar voru djúpar, aðrar léttar, þær voru ýmist fyndnar, sorglegar, lítil atvik úr daglegu lífi eða dramatískir atburðir og af allskonar toga. Mamma hélt þessu leyndu fyrir ömmu í tuttugu ár, því amma vildi tala varlega og með aðgát um annað fólk. Það gæti verið að við mamma setjum upp sýningu úr þessu efni á næsta ári sem verður þá þriðja sýning okkar saman. Vinnutitill sýningarinnar er „Heilun í gegnum list“ og yrði þá Sigríður heiðursgesturinn. Sigríður Björnsdóttur er einn frumkvöðla listþerapíu í heiminum og er hreinlega ótrúlegt hvernig hún sem ung kona í kringum 1952 (hún var með Erró og Braga Ásgeirs í bekk í MHÍ) fann sprungu í vegg listarinnar þar sem hlutverki listamannsins er gjörsamlega snúið við og notað á annan hátt en nokkur af hennar fyrirrennurum eða samferðamönnum voru að gera. Þetta er á þeim tímum sem verið er að velta því fyrir sér „hvað sé list“, eins og að setja klósettskál á hvolf á sýningu og segja að hún sé list og þess háttar. En hún sá leið til þess að snúa hlutverkum áhorfandans og listakonunnar við. Með því að gefa fólki blað og liti til að teikna á sjálft og ræða svo um innihaldið gerði hún listamann úr öllum og settist í staðinn í þeirra sæti og horfði á hvað þau gerðu. Hún hafði af innsæi sem barn í sveit komist að því að leikur og samband við drullu, gras og spýtur gaf mann kraft sem var heilandi og styrkjandi. Sigríður var að mínu mati mikill sjáandi og frumkvöðull fyrir sinn tíma. Mér finnst áhugavert að hætta að sjá myndlist sem sérfræðingastarfsstétt fólks sem telur sig hafa rétt á því að geta sagt hvað sé list og hvað ekki. Sigríður sneri því við. Í dag er í tísku að nota frasa eins og „Your point of view“ eða „Your art“ eins og í verkum t.d. hins flotta listamanns Ólafs Elíassonar sem samt hljómar svolítið eins og auglýsing fyrir nýjasta snjallsímann. Sigríður fór alla leið og gerði þá sem vanalega eru áhorfendur að gerendum. Í dag gera listamenn list, hengja hana upp á vegg og listfræðingar eiga að skýra út fyrir okkur hvað listin sé og hvað sé góð list. Þetta er tengt markaðnum. En listin er eldri og stendur á dýpri merg, svona eins og trúin er eldri en „kommersíal“ útgáfur hennar í formi kristni, íslams og búddisma. Listin er afl sem er gífurlega stórt og Forn-Grikkirnir fundu fyrir og einnig hellamálararnir sem skoðuðu sjálfa sig og heiminn í gegnum myndir. Ég sé listina sem form og liti sem fór að ganga með manninum og varð að listaverkum. Það er svona „thing species“ eða „hluta-tegund“. Úlfurinn fór að ganga með manninum fyrir um 15.000 árum og úr varð hundur og manneskja sem býr á sama stað. Listin gengur með okkur og mótar okkur ekki síður en við mótum hana. Þannig mun listin einnig standa af sér kapítalsimann og annað sem einkennir hverja tíma, hún er tímalaus vera, djúpt inni í veru mannsins, eins og trúin, sem er vera djúpt inni í manninum.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál