Bæjarstjóri Garðabæjar kemur konunni á óvart

Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ er mikið fyrir jólin.
Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ er mikið fyrir jólin. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ lifir heilbrigðu lífi þar sem hreyfing og hugleiðsla skipta miklu máli. Hann lýsir jólunum sem gjöfulum og góðum tíma. Hér segir hann frá tengdasyninum sem hann frysti úti og straujárninu sem hann fékk seinna í hausinn. Gunnar hefur verið bæjarstjóri í tæp 15 ár en áður starfaði hann sem forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar.

Hann er með doktorspróf í stjórnun og hefur setið í fjölmörgum nefndum og stjórnum. Íþróttir og hreyfing hafa heillað hann lengi enda var hann formaður Fimleikasambands Íslands og þjálfari Stjörnunnar og unglingalandsliðs Íslands í handknattleik í mörg ár svo eitthvað sé nefnt. Sjálfur var hann einn af fyrstu atvinnumönnum okkar í handknattleik og lék lengst af með Göppingen í Þýskalandi, á árunum 1975-1979.

Notar jákvæðnina að staðaldri

Það er mikil lífsgleði í kringum Gunnar og auðséð að hann hefur gaman af starfi sínu en ekki síður að umgangast fjölskyldu og vini. Hann stundar jóga og hugleiðslu, hleypur og lyftir lóðum auk þess að nota jákvæða sálfræði að staðaldri. Ekki síst þar sem hann vill vera til staðar fyrir sig og aðra í lífinu.

„Þetta hljómar auðvitað ágætlega og virkar fullkomið en það eru líka tímar þar sem ég sef illa, pirrast, hef áhyggjur, finn til og efast, eða eins og maðurinn sagði: Hann getur verið gestaglaður en baðstofufúll.“

Hvernig heldur þú jólin?

„Það er nú nokkuð hefðbundið. Við hjónin förum alltaf í kirkju á aðfangadag, stundum með börnum og barnabörnum. Í gamla daga fór ég alltaf með ömmu minni í kirkju á jólunum og hef haldið þeim sið síðan. Hér áður fyrr vorum við með alla í mat, foreldra, börn og tengdaforeldra, en nú hefur þetta snúist við, nú er okkur boðið auk þess sem við förum í hefðbundið jólaboð þar sem m.a. er gengið í kringum jólatré. Einnig höfum við síðustu ár verið um áramót í sumarbústað okkar með alla fjölskylduna. Það má segja að við hringjum inn jólin með því að bjóða stórfjölskyldunni í laufabrauðsgerð um mánaðamótin nóvember-desember. Þá sker fólk, ungt sem gamalt, í gríð og erg laufabrauð. Jólin eru þannig mikil fjölskylduhátíð þar sem allir gefa af sér í samskiptum, gleði og umhyggju. Ég reyni einnig að heimsækja ástvini, lifandi og látna, um jólaleytið.“

Tær vitund, mildi og velsæld eftirsóknaverð

Byrjarðu snemma að undirbúa jólin fyrir alla bæjarbúa?

„Við byrjum á því að auka lýsingu í byrjun nóvember, setjum sérstaka jólalýsingu á staura og á Garðatorgið. Þá förum við einnig að huga að því að finna gott jólatré sem við kveikjum á með athöfn í byrjun desember. Í skólum bæjarins eru ýmis verkefni tengd jólum og kærleik almennt. Jólagleði starfsmanna á bæjarskrifstofum er svo um mánaðamótin nóv./des. Það er hins vegar svo að bæjarbúar sjá alveg sjálfir um að koma sér í jólaskap með skreytingum og almennt með léttara fasi. Ég finn vel fyrir þeirri stemningu sem jólin skapa; ákveðin friðsæld og umburðarlyndi svífur yfir. Í þeirri bylgju eigum við einnig að hugsa vel til þeirra sem eiga um sárt að binda og þeirra sem geta ekki af margvíslegum ástæðum glaðst sem skyldi.“

Hvað skiptir mestu máli fyrir Garðabæ og fólkið í bænum um jólin?

„Fyrir Garðabæ skiptir máli að fólki líði vel, sé öruggt, fái góða þjónustu og þyki vænt um bæinn sinn. Við teljum okkur vera með góðan bæjarbrag þar sem fólk fær vonandi sanngjarna úrlausn sinna mála og að traust ríki milli Garðabæjar sem stjórnvalds og íbúanna. Við viljum að íbúarnir séu stoltir af bænum sínum allt árið um kring. Um jólin sérstaklega gefst oft tími til að hugleiða stöðu sína og gjörðir og setja sér ný markmið. Ég met það svo að það skipti einstaklinginn mestu máli að vera hreinskilinn við sjálfan sig og vilja bæta sig í samskiptum, hugsun og athöfnum og vera tilbúinn að taka við ábendingum um það sem betur má fara. Líta á ábendingar sem verðmæti. Almennt stefna allir einstaklingar á að ná hæsta stigi, tærri vitund, mildi og velsæld. Þessu stigi hafa að ég held einstaklingar á borð við Jesú, Búdda, Gandí og móður Teresu, svo nokkrir séu nefndir, náð með mikilli íhugun og sterkum vilja.“

Flestir verða glaðari um jólin

Gunnar segir jólin dásamlegan tíma.

„Fólk skiptir dálítið um gír, flestir verða glaðari, brosa meira og bjóða gleðileg jól. Nándin verður meiri. Jólin eru hátíð og þegar við höldum hátíð gleðjumst við og fögnum. Jólin eru líka til að minna okkur á andstæður, myrkur og ljós, gleði og sorg, hlátur og grát. Jólin tákna líka von, betri tíð. Þannig geta jólin verið driffjöður góðra verka um leið og vonin getur veitt hverjum einstaklingi meiri sjálfsþekkingu því hún getur markað veginn sem þú vilt fara. Fyrir mér eru jólin fyrst og fremst hátíð, hátíð gleði og kærleiks, til að minna okkur á boðskap og góða breytni.“

Hvernig er dæmigerður aðfangadagur hjá þér?

„Dæmigerður aðfangadagur núna er að fara í heitt bað þegar ég vakna, setja hreint á rúmið, lesa blöðin og klára að pakka inn gjöfum. Síðan er farið í kirkjugarðinn að vitja leiða ástvina. Þá eru pakkar keyrðir út, gjarnan með eitthvert barnabarnanna með í ferð. Síðan er kirkjuferð kl. 18 og farið að því loknu í jólaboð til barnanna og heim að lesa og sofa saddur og glaður um klukkan ellefu.“

Er eitthvað sem fólk veit ekki um þig sem væri gaman að ræða og tengist jólunum?

„Ég hef í nokkuð mörg ár heimsótt eldra fólk um jólin og fært því lítilræði í tilefni jólanna. Það er svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að fólkið er alltaf jafn hissa á að sjá mig. Svo tek ég ákvarðanir um hver jól um að gera eitthvað á nýju ári sem er þvert á það sem er hefðbundið fyrir miðaldra karla eins og mig. Sem dæmi um þetta hef ég lært dáleiðslu, iðka núvitund, innhverfa íhugun og jóga auk þess að hlaupa hálft maraþon og ganga á Hvannadalshnjúk svo fátt eitt sé nefnt. Ætli sjóböð og/eða matreiðslunámskeið sé ekki næst á döfinni.“

Maðurinn sem hvarf af landi brott

Áttu góða jólasögu?

„Já, ég kalla það jólasögu því hún endaði svo vel og gerðist yfir hátíðirnar. Sagan er um á þeim tíma verðandi tengdason sem við hjónin vorum sammála um að væri ekki nægjanlega góður kostur fyrir dóttur okkar sem var 18 ára. Hún hafði verið skiptinemi í Brasilíu og á eftir henni kom þessi „tengdasonur“ sem við vorum sannfærð um að væri örugglega helmingi eldri en hún. Í sannleika sagt óttuðumst við í eigingirni okkar að missa hana úr landi. Við höfðum samband við „galdrakerlingu“ í fjölskyldunni sem þekkt var fyrir að leysa erfið mál. Hún ráðlagði okkur að faðma manninn innilega í tíma og ótíma en um leið hafa ískalt í húsinu, en hann dvaldi hjá okkur tímabundið. Það var eins og við manninn mælt; hann hvarf á braut og hefur ekki sést síðan.“

Hvert er þitt meginhlutverk á jólunum heima?

„Ég er nokkuð góður í að þrífa og dytta að, setja upp jólaskrautið og jólatré. Við fáum gjarnan barnabörnin með okkur í að skreyta tréð á Þorláksmessu en þá erum við með skötuveislu fyrir tengdasyni og þá sem treysta sér úr fjölskyldunni í slíkan mat. Ég er ekki með mikla kunnáttu í að búa til mat en hef tekið framförum og stefni hærra í þeim efnum. Þegar við vorum með fólk í mat hér áður fyrr þá hamfletti ég rjúpurnar. Annars er mitt hlutverk að vera til staðar, hjálpa til og fara að fyrirmælum.“

Gjöfin sem aldrei skyldi gefa

En hvað gerir þú skemmtilegt fyrir eiginkonuna?

„Ég er ekki viss um að ég geri neitt sérstaklega skemmtilegt fyrir eiginkonuna annað en að reyna að koma henni á óvart með skemmtilegri gjöf og vera með húmorinn í lagi. Ég nota nóvember til að reyna að komast að því hvað væri skemmtilegt að gefa henni í jólagjöf, spyr börnin álits og held uppi umræðu um jólagjafir almennt. Ég reyni mjög að sjá spaugilegar hliðar á lífinu og deila því með henni. Þegar ég kem henni til að hlæja er ég nokkuð ánægður fyrir hönd okkar beggja. Reyndar gaf ég henni einu sinni jólagjöf þegar við bjuggum í Þýskalandi fyrir rúmum 40 árum, jólagjöf sem ég skammast mín enn fyrir en það var straujárn. Ég fékk það kirfilega í hausinn og hef straujað mín föt sjálfur síðan, ég veit ekki hvað ég var að hugsa.“

Hvað kanntu að meta að sé gert fyrir þig um jólin?

„Ég kann vel að meta góðan mat, gott rauðvín og að fá góða bók í jólagjöf. Ég er svo heppinn að vera með skemmtilegt fólk í kringum mig og návist við það veitir mér mikla gleði. Það er eiginlega besta jólagjöfin. Þá finnst mér gaman að horfa á tvær eða þrjár bíómyndir sem helst innihalda eitthvert lögfræðiplott. „The Firm“ er uppáhaldsmyndin mín sem dæmi.“

Úr myndasafni fjölskyldunnar.
Úr myndasafni fjölskyldunnar. mbl.is
Úr myndasafni fjölskyldunnar.
Úr myndasafni fjölskyldunnar. mbl.is
Úr myndasafni fjölskyldunnar.
Úr myndasafni fjölskyldunnar. mbl.is
Úr myndasafni fjölskyldunnar.
Úr myndasafni fjölskyldunnar. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál