Hringferð um landið breytti Auði Jónsdóttur

Auður Jónsdóttir rithöfundur.
Auður Jónsdóttir rithöfundur. mbl.is/Arnþór

Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir gaf út bókina Tilfinningabyltinguna fyrr á þessu ári og hefur hlotið mikið lof fyrir. Í bókinni fjallar Auður meðal annars um skilnað sinn á síðasta ári auk fleiri atburða í lífi hennar. Auður ætlar að hætta alveg að reykja á næsta ári auk þess sem hún ætlar að hætta að óttast bókhaldið sitt eins og tígrisdýr.

Hápunkt­ur árs­ins?
Hápunktur ársins var hringferð í kringum landið sem ég fór í ásamt þremur vinkonum mínum, Margréti Marteinsdóttur, Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur og Ísold Uggadóttur. Yfirskrift ferðarinnar var Konur á krossgötum og við lentum í alls konar æsilegum vegamynda-ævintýrum í ferðinni. Sú sem kom aftur úr þessari ferð, þessi ég, var önnur en sú sem lagði í hana örfáum dögum fyrr. Held að það hafi kannski átt við um fleiri.

Lág­punkt­ur árs­ins?

Ég í skammdeginu að fresta því endalaust að gefa út reikninga af því ég er ekki ennþá komin yfir bókhaldsfælni mína. Vona að ég verði áræðnari í þeim efnum á næsta ári.

Skrýtn­asta augna­blikið árið 2019?
Þegar ég varð tipsí með vinkonu minni sem er spámiðill en hún var það kvöldið glitrandi fögur í pelsi með hvítvínsglas, bara eins og í Almadovar-mynd, og í svo flæðandi góðu skapi að hún las aðra kaffihúsagesti, alveg græskulausa, eins og opna bók á hinu skemmtilega góðborgaralega Kaffi Vest.

Hvernig ætl­ar þú að fagna nýju ári?
Framtíðinni, öllu því skrýtna sem ég vonast til að eiga eftir að lifa. Og auðvitað syni mínum, ég vonast til að fagna sem mest með honum, við óteljandi tækifæri. 

Ára­móta­heit fyr­ir árið 2020?
Hætta alveg að reykja, óvani sem ég var löngu hætt en byrjaði aftur á þegar ég skildi fyrir tveimur árum. En hef enga afsökun lengur. Og ég ætla að hætta að óttast bókhaldið eins og tígrisdýr.

Ætlar þú að vera dug­legri að gera eitt­hvað árið 2020 en þú varst 2019?
Já, ég ætla að reyna að komast oftar að dansa. Að dansa er það skemmtilegasta sem ég geri og fer oftast þá í Kramhúsið eða Jógasetrið í eins konar ósjálfráðan dans. Og stundum dansa ég bara heima. En inn á milli gleymi ég mér og finn fyrir því ef ég dansa ekki í lengri tíma.

Rétt­ur árs­ins í eld­hús­inu þínu?
Bleikja og kartöflur.

Besta bók árs­ins?
Ef spurningin á við um íslenskar bækur, þá er ég búin að vera í svo miklu útgáfustússi sjálf að ég hef ekki komist yfir að lesa nógu mikið úr jólabókaflóðinu. En um daginn las ég ljóðabækur Fríðu Ísberg og Kristínar Eiríksdóttur í hægindastól í Mál og menningu og leið eins og fiski sem kemst loksins í vatn eftir að hafa spriklað í höndum veiðimanns. Æðisleg lesning, báðar.

Besta kvik­mynd árs­ins?
Agnes Joy.

Bestu þætt­ir árs­ins?
Ég verð að segja Kveikur því ég hef sjaldan séð eins kröftuga umfjöllun
hér og þá um Samherjamálið.

Besta lag árs­ins?
Dance Monkey (held það sé frá árinu í ár).

mbl.is