„Nenni ekki lengur að bugta mig og beygja fyrir bakkusi“

Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju.
Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju.

„Á þessum fimm árum sem í ár eru liðin frá því að ég hætti að neyta áfengis hef ég einhvern veginn alltaf gætt þess, kannski í ákveðinni meðvirkni eða hreinum ótta við að vera talin teitistrunta, að tala ekkert um hvernig það sé að vera edrú innan um drukkið fólk. Ég hef sumsé þurft fimm ár til safna kjarki til að segja það sem mér raunverulega finnst um að vera edrú innan um blindfullt fólk,“ segir Hildur Eir Bolladóttir prestur í Akureyrarkirkju í sínum nýjasta pistli: 

Ætli ástæðan sé ekki sú að normið í okkar samfélagi er að fullorðið fólk megi fokka reglulega upp í miðtaugakerfi sínu á meðan edrúmennska er talin merki um annaðhvort fasisma eða skrautlega fortíð. Áður en lengra er haldið langar mig að taka það skýrt fram að ég geri töluverðan greinarmun á fólki sem finnur á sér og fólki sem er fullt. Mér finnst oft mjög gaman að vera innan um þá sem kunna að fara með vín og verða örlítið kenndir á meðan mér finnst ótrúlega erfitt og þreytandi að vera innan um drukkið fólk.

Vil ég nota tækifærið hér og biðjast afsökunar á öllum þeim skiptum sem ég hef verið drukkin og leiðinleg í gegnum tíðina, það voru allmörg skipti sem ég hef ákveðið að gleyma bara alls ekki.

Nú hugsar eflaust einhver „en bíddu þú getur bara valið hvort þú viljir vera innan um drukkið fólk eða ekki“. Og það má vissulega til sanns vegar færa, hins vegar má þá líka spyrja hvers vegna þeir sem verða fullir eigi frekar að ráða stemningunni á barnum eða á ballinu eða tónleikastaðnum sem líka er bar? Af hverju er sjálfsagðara að ég drífi mig heim þegar fólk er orðið svo drukkið að það getur ekki haldið munnvatninu innan vara og frussar framan í mig í öðru hverju orði, líka vegna þess að það er orðið ónæmt á líkamleg landamæri og stendur allt of nálægt manni?

Mér finnst gaman að fara út að skemmta mér en eftir að ég hætti að nota vín er það alltaf mitt að flýja af hólmi þegar fulla fólkið hefur hertekið stemninguna, til dæmis með eftirfarandi hætti: Tala um starfið mitt af því að þegar menn eru orðnir fullir verða þeir umsvifalaust ofsatrúaðir og vilja með öllum ráðum koma mér í skilning um að þeir séu ekki á leið til helvítis: Þjarma að mér af því að ég nota ekki vín og spyrja stanslaust hvort ég sé ekki hress, bara af því að auðvitað get ég ekki verið mojitohress af Pepsi Max en ég get samt verið að skemmta mér og tala um áhugaverða hluti: Hella yfir mig bjór af því að bæði gróf- og fínhreyfingar eru lamaðar af ofdrykkju: Tala og hlæja ofan í skemmti- og tónlistaratriði þannig að listamennirnir standa niðurlægðir á sviðinu og við sem erum edrú þjáumst með þeim, einu sinni var ég á tónleikum með KK, hann var einn á sviðinu með kassagítarinn að syngja "when I think of angel" þegar einhver seinþreyttur hvítvínsklúbbur ákvað að keppa við hann um athyglina og síðan þá hugsa ég alltaf um þetta vandræðalega móment þegar þetta fallega lag er flutt við viðkvæmar stundir í kirkjunni.

Og nú finnst einhverjum ég örugglega alveg ógeðslega leiðinleg og hrokafull en hey….. ég nenni ekki lengur að bugta mig og beygja fyrir bakkusi þegar hann er löngu horfinn úr lífi mínu, ég dýrka annan Guð og mig hefur lengi langað til að segja þetta. Þið ráðið hvernig viðbrögð ykkar verða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál