Nenna ekki að skrifa fyrir ruslafötur landsmanna

Greipur Gíslason og Edda Kristín Sigurjónsdóttir.
Greipur Gíslason og Edda Kristín Sigurjónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vinirnir Edda Kristín Sigurjónsdóttir og Greipur Gíslason standa fyrir fréttabréfi um menningu sem kemur í tölvupósti hálfsmánaðarlega. Í fréttabréfinu, sem ber einfaldlega heitið Edda og Greipur mæla með, velja þau sýningar, viðburði og tónleika sem þeim finnst standa upp úr. Þau hafa bæði brennandi áhuga á og mikla reynslu úr menningar- og listalífi landsins.

-Hvers vegna fóruð þið af stað með fréttabréfið?

„Greipur kom til mín og sagði að nú værum við að verða pínu gömul, þekktum allt og alla í menningarlífinu, en svo yrði ekki um aldur og ævi svo nú væri lag að hefja létt ritstörf, okkur og kannski öðrum til yndis. Við skyldum taka upp gamaldags ritstjórnarhætti og senda fólki bréf og spara mögulegum áskrifendum endalaust áreiti af kynningu á öllu því sem er í gangi hverju sinni og velja úr okkar uppáhaldssýningar og -viðburði og deila með þeim sem óskuðu. Ég var á kafi í að undirbúa opnun Sequences-myndlistarhátíðar þegar hann kom að máli við mig og hafði engan tíma til að segja nei. Við sammæltumst um að við hefðum engan áhuga á að vera fyrst með fréttirnar en skyldum leggja okkur fram um að velja fyrst og fremst það sem talaði sérstaklega til okkar. Ekkert lýðræðislegt, aldrei tæmandi listi, alltaf sérvalið og alltaf óháð,“ segir Edda og Greipur bætir við:

„Mjög strategískt hjá mér, að ráðast til atlögu þegar Edda var á kafi í öðru. Enda virkaði það. Þetta er lítið verkefni til að halda okkur pínu á tánum og hvetja okkur sjálf til að halda áfram að fylgjast með. Og vonandi verður það öðrum til gagns,“ segir hann.

– Fyrir hvern er fréttabréfið?

„Það er held ég fyrir fólk sem hefur áhuga á listum og menningu, langar að vita meira en finnst það kannski ekki nægilega duglegt að drífa sig. Okkur langar að gefa fólki ýmis sjónarhorn á framboðið sem kannski virkar hvetjandi. Áramótaheitið gæti verið að reyna að fara á fleiri listviðburði, setja sig betur inn í málin og þá eru meðmælin okkar góður leiðarvísir,“ segir hann.

„Það er ekki skrifað sérstaklega fyrir menningarlærða eða innvígða, þó að það geti aldeilis talað til þeirra, en er kannski einmitt hentugt fyrir þá sem hafa áhuga á menningunni og langar að vera með puttann á púlsinum, hvort sem þeir svo hafa sig af stað eða ekki. Það er engin skylda,“ segir Edda og Greipur bætir við:

„En vonandi verða allir sem lesa aðeins spenntari fyrir vikið að drífa sig af stað.“

-Finnst ykkur fólk ekki nægilega duglegt að heimsækja menningarviðburði?

„Jú, fólk hér er ótrúlega duglegt í raun. Það sést vel á mikilli aðsókn á tónleika, til dæmis fyrir jólin og auðvitað bara allt árið – sést líka á ríkulegu framboði á viðburðum og það er kannski þess vegna sem við viljum prófa að beina okkar eigin kastljósi á ákveðna viðburði,“ segir Greipur.

„Ég held að það sé kannski bundið við hópa. Sumir fara aldrei á menningarviðburði og það er miður. Þetta er að hluta til uppeldismál og þar gæti skólakerfið verið enn duglegra, námskráin býður alveg upp á það, en djúpt virðist á frekari útfærslum. Molarnir okkar geta því vel átt erindi bæði við þá sem fara aldrei á menningarviðburði og eins þá sem eru að drukkna í upplýsingum og vilja einfalda sér lífið,“ segir Edda.

„En þá þarf fólk auðvitað að treysta okkur. Við veljum fáa viðburði úr miklu úrvali. Það er okkar áhersla,“ segir hann.

Í fréttabréfinu ykkar er ítarleg umfjöllun um hvern viðburð. Er það nauðsynlegt til þess að fá fólk til þess að mæta?

„Nei, það held ég ekki, er það nokkuð?“ spyr hann.

„Alls ekki, en okkur liggur bara svo mikið á hjarta og langar að segja aðeins frá því sem við höfum valið úr flórunni. Annars held ég að við skrifum mögulega allt of mikið. En þetta er á léttum nótum og ekki fræðileg skrif, kannski eins og sendibréf eða dagbók á góðum degi, fullt af upplýsingum fyrir þá sem langar að grúska, en auðvelt að skauta yfir og fanga aðalatriðin,“ segir hún.

„Okkur finnst líka gaman að benda á tengingar sem við vitum af, setja hluti í samhengi, sýna hvað við erum vel með á nótunum,“ segir hann.

„Við höfum mismikið spáð í það, skulum við segja. Ég er vön því að vera síðust með fréttirnar og muna aldrei slúður og þannig, en finnst þetta form nokkuð gott, er enda mikill aðdáandi dagbókaskrifa og á þær nokkuð margar í tilfinningakössunum í geymslunni,“ segir hún.

-Hvað finnst ykkur mest spennandi við menningarlífið í Reykjavík?

„Það er ólgandi kraftur í því og hér ríkir einhugur um að menning sé mikilvæg. Það sést vel á listamannalaunum til dæmis, að þau séu yfirhöfuð til, sem er stórkostlegt. Ég hef mjög gaman af litlum sýningarstöðum, til dæmis heimagalleríum og alls konar hreyfanlegri eða tímabundinni starfsemi. Hvatinn á bak við hana er oft annar en hjá stóru stofnununum og algerlega skilyrðislaus. Það er nauðsynlegt að hafa það í bland við þrautseigu listamannareknu rýmin, söfnin, galleríin og alla hina menningarstaðina,“ segir Edda.

„Það er svo mikið um að vera og það er svo gaman. Og allt í graut. Við erum ótrúlega heppin hér. Hingað vilja koma heimsins færustu og fremstu listamenn og jafnvel stilla saman strengi sína með okkar fólki. Þetta hefur verið drifkraftur lengi og úr því myndast tengingar sem eru svo skemmtilegar,“ segir Greipur.

„Svo er hér í boði klassa háskólamenntun í listum í Listaháskólanum, sem ekki skal vanmeta. Þar er mikill suðupottur. Mér finnst alltaf gaman að fylgjast með því sem næstu kynslóðir listamanna eru að gera. Já, og afleiðan af þessari lagköku er auðvitað sprúðlandi menningarlíf, alger bragðsprengja,“ segir hún.

– Farið þið á sýningar og á tónleika í hverri viku?

„Ég held að það komi alveg einhverjar vikur sem maður gerir ekki neitt en flestar vikur fer ég á eitthvað. Framboðið er svo ótrúlegt, tónleikar oft í viku, opnanir og leiksýningar. Það er hægt að vera í fullri vinnu við þetta. Og það er auðvitað kjarni málsins. Maður verður að velja,“ segir hann og Edda tekur undir.

„Stundum þarf ég pásu, það er eins og hugurinn mettist og ég þarf svigrúm til að vinna úr því sem ég hef safnað saman í líkamanum og get þá ekki hugsað mér að fara á sýningar eða annað og langar bara að vera heima eða í Heiðmörk. En almennt séð þá er það að fara á sýningar eðlilegur hluti af hversdeginum mínum, það er eins og það gerist af sjálfu sér, það togar. Það er alltaf eitthvað að græða, líka við að sjá og finna það sem talar ekki til manns og það er ekki síður mikilvægt. Annars er svo margt sem hægt er að gera að heiman og stundum á það betur við, og stundum bendum við lesendum okkar líka á eitthvað þannig,“ segir hún.

-Hvað gefur það ykkur að sinna menningarlífi af krafti?

„Krafturinn sveiflast upp og niður, en það getur verið verulega mikið kikk að sjá og finna eitthvað verða úr engu, að sjá lítið hugmyndakorn verða að heilu verki, jafnvel heilli sýningu eða heilli hátíð. Hugmyndir eru ókeypis, það er framkvæmdin á þeim sem er aðalmálið. Nema þær séu andvirði hundraða milljóna, svo ég snúi málinu upp í þversögn og vísi í tvo listamenn. En það er þetta ferli sem getur verið svo nærandi, alger alkemía.

Með því að vinna og eiginlega lifa í menningarlífinu bætir maður alltaf einhverju við sig, þótt það sé eins og heimurinn þenjist út í sömu andrá, sem hann svo sem gerir. Maður finnur fávísi sína betur eftir því sem maður lærir meira og það er ósköp ágætt líka. Kannski eins og í matargerð, þeim mun fleiri brögð sem maður smakkar og lærir á, þeim mun skýrara verður hvað maður á eftir að smakka mikið af heiminum. Þetta er einhvern veginn svona í listinni líka, hún er óþrjótandi en það er hægt að komast nær listinni í sjálfum sér í smáskömmtum, uppgötva stórkostlega hluti innra og ytra með því að smakka.

Samtakamátturinn í menningarlífinu á Íslandi er líka ósköp fallegur, meðal listamanna og liststofnana/-staða ríkir hjálpsemi og greiðvikni umfram samkeppni, sem er mikil blessun, enda er það ekki sjálfgefið, þó að það sé sjálfsagt. Þótt kerfin margumtöluðu þurfi á endurskilgreiningu að halda þá er góður andi í menningarlífinu og það er (andlega) gefandi að hrærast í því,“ segir hún.

Edda og Greipur.
Edda og Greipur.

-Eru listir ykkar stærsta áhugamál?

„Ég veit ekki hvort það er hægt að orða það þannig að menningin sé stærsta áhugamálið, jú ábyggilega, en það er svo margt sem mótar menningu og snúið að skilgreina hvar hún hefst og endar. Hvernig sem sú skilgreining er, þá vitum við að hún er það sem skilgreinir okkur sem samfélag umfram allt annað. Svo þetta er ákveðin afstaða líka. Ég hef mjög einlæga, ábyggilega barnslega trú á listinni, hún er bæði svo máttug og dularfull, mild og gjöful. Eins konar nærandi afl sem finnur sér leið ef maður treystir því og hleypir inn í líf sitt, kannski svona eins og páfarnir guði. Er það ekki, Greipur,“ spyr hún.

„Hún er eins og þú, máttug og dularfull, mild og gjöful,“ segir hann og hlær.

„En ef hægt er að setja alla listviðburði undir einn hatt þá má segja að mest af frítíma mínum fari í það. Og ef það er mælikvarði þá get ég svarað þessu játandi,“ segir Greipur.

„Ég hefði annars áhuga á að heyra meiri og dýpri umfjöllun um listir almennt séð. Á málþingi um tungutak um listina, sem Bandalag íslenskra listamanna stóð fyrir í Hörpu um næstsíðustu helgi, kom meðal annars fram að við mættum taka okkur páfana tvo (kvikmyndina The Two Popes, sem við mæltum með í síðasta fréttabréfi og mælum eindregið með að fólk horfi á) og kaþólsku kirkjuna sérstaklega til fyrirmyndar um það eitt (og aldeilis ekki margt annað) að tala meira um kjarna málsins. Páfarnir töluðu um guð og við gætum talað meira um listina – ekki listamanninn, ekki listfræðina, heldur verkin sjálf, listina sjálfa. Ég er sammála þessu, kannski getur litla fréttabréfið okkar orðið kveikja að slíku samtali í einhverjum hópum,“ segir hún.

-Eitt að lokum, þið látið áskrift að fréttabréfinu kosta smá, af hverju?

„Okkur langar að veita áskrifendum vandað efni og auðvitað leggjum við mikla vinnu í þetta. Við vöndum okkur. Svona á því ekki að vera ókeypis,“ segir hann.

„Ég held að það felist líka ákveðin tenging í því, þá er móttaka bréfsins meðvitað valin af viðkomandi. Svona eins og að fá sér kött í Kattholti. Það gefur víst betri raun ef fólk er látið borga fyrir kettina, þá hugsar það betur um þá. Mjög skrýtið,“ segir hann.

„Og ég nenni heldur ekki að skrifa og skrifa fyrir ruslkörfur pósthólfa út um allan bæ. Það geta bara aðrir verið í því,“ segir hann.

„Ég er annars að reyna að venja mig á að hætta að tala um peninga, það er skemmtilegra að tala um listina, sérstaklega ef maður er blankur. Þetta er í sannleika sagt eiginlega til að minna á að þekking í menningu er dýrmæt, alveg eins og þekking í öðrum greinum. Svo kostar þetta nú ekki mikið. Fréttabréfið kemur út annan hvern sunnudag og kostar eins og sæmilegt súkkulaðistykki í hvert sinn,“ segir hún.

„Mig langar í súkkulaði,“ segir Greipur.

„Jæja, við þurfum að þjóta. Er þetta ekki bara komið? Og takk fyrir hlý orð, Greipur. Þú ert líka ágætur,“ segir hún.

HÉR er hægt að skrá sig á póstlista Eddu og Greips. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál