Ásdís Rán seldi allt og er flutt úr landi

Ásdís Rán Gunnarsdóttir er flutt frá Íslandi til Sofíu í Búlgaríu. Hún segir að það séu breyttar aðstæður sem leiddu hana aftur á þær slóðir. Á dögunum greindi Smartland frá því að Ásdís Rán væri að losa sig við eigur sínar. 

„Ég var að selja íbúðina mína og ætlaði nú að kaupa aðra í Reykjavík sem gekk svo ekki upp þannig að ég fer út og verð í íbúðinni minni þar. Stundum draga örlögin þig óvæntar leiðir þannig að ætli það sé ekki bara kominn tími á að ég fari aftur á mína heimahaga, ég ætlaði aldrei að stoppa lengi hér á Íslandi heldur var það tímabundið ástand,“ segir Ásdís Rán í samtali við Smartland. 

Hvers vegna ertu að flytja út?

„Ég er búin að vera 3 ár á Íslandi sem er nóg. Ég kom hingað út af krökkunum mínum sem eru nú öll orðin svo gömul að áherslurnar hafa breyst. Garðar og fjölskylda eru að flytja til Ítalíu og samgöngurnar á milli okkar eru auðveldari milli Búlgaríu og Ítalíu heldur en Íslands, fyrir utan það þá er alltaf betra að vera úti þó að mér þyki voða vænt um Ísland. Þá er ég að tala um sólina, verðlagið og frelsið til að geta ferðast á góðu verði. Keyra á ströndina og keyra á skíði, eða jafnvel á milli landa á fljótlegan og auðveldan hátt,“ segir hún. 

Ásdís Rán er að flytja til Sofíu í Búlgaríu. 

„Ég er þar alltaf á nokkurra vikna fresti allt árið og eyði yfirleitt sumrinu þar líka þannig að ég hef alveg verið þar með annan fótinn þótt ég hafi búið á Íslandi í þennan tíma.“ 

Hvað ætlar þú að gera í Sofíu?

„Það er bara alveg óákveðið eins og er en vonandi tekur eitthvað skemmtilegt við þegar ég er búin að koma mér fyrir. Það er töluvert meira að gera þar hjá mér heldur en hér á Íslandi þannig að ég hef svo sem ekki miklar áhyggjur.

Ég er að æfa núna fyrir íslandsmótið í fitness og stefni á að keppa í apríl ef allt gengur að óskum, ætli ég verði ekki að þjálfa þar til að byrja með, líkamsræktarstöðvarnar þarna eru af öðrum heimi og ótrúlega flottar með allri nýjustu tækni.“

Hvernig leggst 2020 í þig? 

„Ég er bara þokkalega jákvæð með 2020, finn á mér að einhverjir stórkostlegir hlutir eigi eftir að gerast í mínu lífi. Þannig að ég tek 2020 með opnum örmum og bíð eftir nýjum ævintýrum.“

mbl.is