Kolbrún segir sögu sína í hlaðvarpinu Ákærð

Kolbrún Anna Jónsdóttir flugfreyja segir sína hlið í hlaðvarpinu Ákærð. Kolbrún var ákærð saklaus fyrir líkamsárás á barnsmóður eiginmanns síns og sambýlismanns hennar, sem ruddi sér leið inn á heimili hjónanna. Kolbrún lýsir á einlægan hátt þeirri atburðarás sem tók við. Kolbrúnu fannst hún slegin í gólfið ítrekað á næstu árum. Hún var komin að þrotum, vildi ekki lifa, því óréttlætið var svo yfirgengilegt.
Hér fyrir neðan má lesa einn kafla úr hlaðvarpinu Ákærð. Neðst í greininni er tengill á hlaðvarpið í heild.

„Það er mitt sumar. Uppáhaldsárstíminn minn. Ég er nýkomin til landsins frá Hollandi þar sem við hjónin höfum verið búsett síðustu mánuði. Sumarveðrið á Íslandi er ekki eins og ég hefði kosið en það er gott að vera komin heim, hitta stelpurnar mínar og sinna ýmsu sem setið hefur á hakanum. Ég er stödd á biðstofu læknis þegar síminn hringir. Ókunnugt númer birtist á skjánum. Ég svara og á línunni er karlmaður sem kynnir sig, segist vera lögreglumaður og biður mig að koma niður á lögreglustöð. Mér verður hverft við. Ég hef lítil samskipti átt við lögregluna fram að þessu. Hann segir að honum hafi verið falið að birta mér ákæru. Ég þykist svo sem vita um hvað málið snýst en aldrei datt mér í hug að ég yrði ákærð fyrir upplognar sakir. 

Ég rýk út í bíl og keyri niður á lögreglustöð. Ég hitti manninn sem hafði hringt og hann vísar mér inn í pínulítið herbergi inn af afgreiðslunni. Þetta er smá skonsa, varla nema þrír, fjórir fermetrar, klofin í tvennt með borði. Lögreglumaðurinn, sem er í eldri kantinum og reglulega indæll, býður mér sæti og biður mig að skrifa undir ákæru sem liggur á borðinu. Ég renni augunum yfir blaðið. Ég sé nafnið mitt og nafn mannsins míns. Ég sé orð eins og „ákærðu”, „ofbeldisbrot”, „líkamsárás”. Augun fyllast af tárum og það þyrmir yfir mig. Ég get ekki lesið meira. Ég reyni að segja góðlega lögreglumanninum að þetta sé misskilningur. Það sé verið að hafa mig og okkur hjónin bæði fyrir rangri sök. Við kærðum húsbrot og árás á okkur inni á okkar eigin heimili tveimur árum áður og þetta er niðurstaðan.

Hvernig getur þetta gerst? Eru einhver öfl innan lögreglunnar að vernda hið raunverulega ofbeldisfólk með því að setja sökina á okkur? Lögreglumaðurinn segist nú ekki vita neitt um þetta mál, hann sé löngu hættur rannsóknarvinnu og sé nú bara orðinn hálfgerður sendill. Hann reynir að hughreysta mig, en tekst ekki vel upp þegar hann segir mér að svona sé þetta nú bara, mál fari ekki í ákæruferli nema yfirgnæfandi líkur séu á sakfellingu. Hann segir líka að ég hafi nú alveg tvo mánuði fram að þingfestingu svo ég hafi nú alveg tíma til að fá mér lögfræðing og vinna í þessu. „Einmitt” hugsa ég, „sumarið farið til fjandans”. Hann bendir einnig á að ég geti varið mig sjálf, ef ég hafi ekki efni á lögfræðingi. Ekkert af þessu róar mig. Þvert á móti. Allt hringsnýst í hausnum á mér. Ég græt með ekka, hristist og skelf og næ varla andanum. Elsku maðurinn veit ekkert hvernig hann á að haga sér. Hann fer fram og nær í vatnsglas handa mér, spyr svo hvort ég geti ekki hringt í einhvern. Hvern á ég svo sem að hringja í? Maðurinn minn er erlendis og ég get ekki hugsað mér að hringja í dætur mínar. Þær eiga ekki að þurfa að sjá mömmu sína í þessu ástandi.

Já, og hvernig ætla ég að segja þeim að móðir þeirra sé ákærð fyrir líkamsárás? Enn biður lögreglumaðurinn mig að skrifa undir ákæruna. Ég get ekki fengið mig til þess. Mér finnst eins og með undirskrift sé ég að samþykkja að ég sé ofbeldismanneskja. Eftir einhverja stund tek ég mig saman í andlitinu og hringi í bróður minn sem segist koma strax. Ég krota stafina mína undir blaðið og fer út. Ég ranka við mér standandi úti á Hverfisgötu. Geng svo í leiðslu út að bílnum og keyri heim. Lögreglan hefði kannski ekki átt að sleppa konu í taugaáfalli út úr húsi og horfa á eftir henni aka á brott,“ segir í hlaðvarpinu Ákærð. 

HÉR er hægt að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál