Óþolandi fólk á samfélagsmiðlum

Ásdís Ósk Valsdóttir, miðaldra kona og fasteignasali.
Ásdís Ósk Valsdóttir, miðaldra kona og fasteignasali.

„Margir virðast lenda í því að vera með óþolandi fólk á samfélagsmiðlunum sínum og það virðist engin leið til að losna við það. Ég heyri reglulega, Jesús minn Ásdís, þessi facebook live sem þú ert að gera eru svo leiðinleg. Þú ert nú eitthvað alvarlega athyglissjúk. Mikið svakalega eru þessi eignamyndbönd sem þú ert að gera ömurleg,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona í sínum nýjasta pistli: 

Þetta fólk virðist lenda í því að allskonar óumbeðið efni birtist á samfélagsmiðlunum þeirra og það er engin leið til að stoppa þetta áreiti. Löng og leiðinleg video fara sjálfkrafa í gang og fólk er tilneytt til að horfa á þau til enda. Það er engin leið til að stöðva þetta. 

Það getur auðvitað tekið á taugarnar fyrir marga að lenda í þessu. Ég skil það fullkomlega. Hver vill hafa uppáþrengjandi, athyglissjúkar og óþolandi manneskjur á tímalínunni sinni? Manneskjur sem eru eins tölvuvírus sem engin leið er að losna við. 

Ég ákvað því að taka saman nokkur góð ráð til að koma í veg fyrir svona vandamál. Leið 1 er skotheld en ef þetta gerist óvart og þú veist ekkert hvernig á að leysa þetta þá eru nokkrar leiðir til að lágmarka skaðann. 

  1. Ekki senda fólki sem þú þolir ekki vinabeiðni.
  2. Velja unfollow: Þá eruð þið ennþá vinir og viðkomandi fattar ekki að það sé verið að hunsa hann. Með því að gera unfollow sérðu enga pósta frá viðkomandi nema þú veljir að sjá þá aftur.
  3. Velja Snooze for 30 days: Þá færðu pásu frá viðkomandi í 30 daga. Ef þú færð bakþanka þá getur þú alltaf valið Unsnooze.
  4. Blokka (block): Það er frekar afgerandi aðgerð en þá lendir þú ekki í þessu áreiti. Þessi aðgerð er samt ekki alveg skotheld því stundum bognar þú og bugast og hleypir viðkomandi aftur á samfélagsmiðlana þína.
  5. Biðja viðkomandi að blokka þig. Þá lendir þú ekki í þessari stöðu að verða fyrir þessu stöðuga áreiti. Þessi aðgerð er langáhrifaríkust þannig að ef þú klikkar á leið 1 þá er 5 alveg skotheld. 

Ég útskrifaðist sem kerfisfræðingur um síðustu öld og síðan þá hefur ansi margt breyst. Ég þekki einfaldlega ekki þessa nútímatækni nógu vel. Ég skil til dæmis ekki hvernig fólk getur lent í því að þurfa að spila ömurleg video ítrekað. Mínir samfélagsmiðlar virka þannig að ég horfi eingöngu á það sem ég vel að horfa á. Kannski er þetta eitthvað sniðugt stillingaratriði sem ég slysaðist til að velja.

Þess vegna hef ég alltaf lúmskt gaman að því þegar fólk er að hafa fyrir því að láta aðra vita hvað þeir séu ömurlegir og uppáþrengjandi á samfélagsmiðlum. Þetta sé alveg hrikalega leiðinlegt og truflandi fyrir þau. Er þetta tegund af masókisma? Þú horfir á eitthvað sem þú hatar og lætur það fara í taugarnar á þér en þú stoppar það ekki. Þarna verð ég að viðurkenna að sérfræðiþekking mín nær ekki nógu langt. Kannski þarf að leita til þartilbærra sérfræðinga til að greina vandann.

Getur þú ekki verið aðeins öðruvísi en þú ert?

Ég passa ekkert alltaf inn í kassann og ansi oft hef ég fengið að heyra að ég sé OF eitthvað. Ég er of hávær. Ég hef of miklar skoðanir. Það væri betra ef ég væri eitthvað öðruvísi. Það er yfirleitt ekki búið að skilgreina hvernig ég ætti frekar að vera en það væri pottþétt betra ef ég væri öðruvísi en ég er.

Hér að neðan má sjá sýnishorn af athugasemdum í gegnum tíðina

Þegar ég átti ekki börn:

Eruð þið virkilega að fara að gifta ykkur, þið eigið engin börn!

Þegar ég varð ólétt:

Hvað ertu eiginlega komin langt á leið? þú ert svakalega stór!

Frænka mín sem er komin miklu lengra en þú ert miklu nettari en þú!

Ætlarðu í alvöru að borða þessa karamellu, ertu ekki með nógu stóra bumbu?

Þegar ég átti börn:

Þegar fyrsta barnið var fætt, á ekki að fara að koma með annað!

Hvað ætlið þið eiginlega að hafa langt á milli?

Það er miklu betra að hafa 2 ár á milli.

Það er miklu betra að hafa 4 ár á milli.

Hvenær á eiginlega að koma með næsta?

Þegar ég var orðin of gömul:

Ertu virkilega ólétt?

Var þetta slysabarn?

Veistu ekki örugglega hver á það? (jú eiginmaður minn sem ég á 2 önnur börn með)

Ertu ekki full gömul til að vera að koma með eitt núna?

Til hvers ertu að eiga fleiri börn?

  1. þú hefur nú engan tíma til að sinna þessum sem þú átt nú þegar.
  2. þú ert aldrei heima hjá þér.
  3. þú ert alltaf í vinnunni.

þegar ég var 40 ára, gift sama manni og ég átti strákana með.

Þegar ég var gift:

Mikið svakalega vorkenni ég manninum þínum, það hlýtur að vera svakalega erfitt að vera giftur þér.

Þú ert rosaleg gribba.

Þú ert svo ákveðin.

Þú ert svo stjórnsöm.

Mikið ertu vel gift.

Þegar ég skildi:

Það er svo gott að vera einhleyp í smá tíma og finna sig.

Hvað ætlar þú eiginlega að vera einhleyp lengi?

Hvers vegna getur þú ekki fundið þér kærasta?

Hvers vegna gengur þú ekki út?

Er eitthvað að þér?

Þú verður að lækka standardinn annars gengur þú aldrei út!

Þú ert alltof kröfuhörð.

Þú getur ekki ...

Þegar ég var of feit:

Ég skil ekki hvers vegna þú getur ekki grennt þig, þú ert svo klár og dugleg.

Hvað ertu komin langt á leið?

Hvenær áttu að eiga?

Þú getur ekki mátað þessi stígvél, þau eru ekki til í nógu stórri stærð.

Nei þú mátt ekki máta þessi föt.

Við eigum ekkert í þinni stærð.

Það er ekki sjens að þessi kjóll hafi verið gallaður, þú ert svakalega stór, þú hefur sprengt alla saumana.

Hvers vegna ferðu ekki í jóga, í zumba, í einkaþjálfun, út að hlaupa.

HVERS VEGNA GERIR ÞÚ EKKI EITTHVAÐ?

Þegar ég grenntist:

Fáðu þér nú eina kökusneið, það drepur þig ekki.

Þú verður að fá þér smá súkkulaði, það er svo gott fyrir sálina.

Það drepur þig ekki að leyfa þér smá.

Mikið svakalega lifir þú leiðinlegu lífi.

Þegar ég byrjaði að æfa:

Er þetta ekki komið nóg?

Ætlaðu að hverfa?

Hvenær ætlar þú að slaka á?

Þú verður að passa að ofæfa ekki!

Þú verður að passa að ofgera þér ekki!

Ég þekkti mann sem æfði svakalega mikið, svo fór hann út að hjóla og dó (3 sem sögðu mér þessa sögu í sömu vikunni)

Þú vaknar of snemma!

Þú ferð of seint að sofa!

Þú sefur of lítið!

Þú ert of manísk, of geðveik, þú ert of mikið!

Þegar ég æfi rangar íþróttir:

Afhverju ertu á gönguskíðum? Alpaskíði eru miklu skemmtilegri.

Hvers vegna ferðu ekki í zumba? Frábær hreyfing.

Afhverju ferðu ekki í salsa?

Afhverju getur þú ekki gert eitthvað annað en þú ert að gera?

Þegar ég vel að drekka ekki:

Fáðu þér nú eitt glas.

Þú veist ekki af hverju þú ert að missa

Þú verður að prófa.

Þú hefur ekki lifað nema fá þér rauðvín með nautasteikinni.

Sitja á sólarströnd og sötra hvítvín.

Þig skortir alla upplifun.

Hvers vegna drekkur þú ekki, áttu við eitthvað vandamál að stríða?

Ertu alkóhólisti?

Er áfengi vandamál í þínu lífi?

Æi, kommon, ekki vera svona leiðinleg.

Hvert á að troða óumbeðnum athugasemdum?

Á mínum grunnskólaárum á Dalvík fór ég oft á skíði og fannst mjög gaman. Einn daginn var ég að spjalla við vin minn og hann segir.  „Það er alveg ótrúlegt að sjá þig á skíðum“. Ég hélt í fávisku minni að ég væri svona góð. Svo bætti hann við, „þú ert eins og belja á svelli, það er ekkert smá fyndið að sjá þig skíða“ og svo flissaði hann ógurlega að eigin fyndni. Ég gerði það sem flestar 14 ára stelpur með ekkert sjálfstraust gera. Ég hætti að fara á skíði. Ég var komin á þrítugsaldur þegar ég steig næst á skíði og lengi vel glumdi þetta í hausnum á mér.  Þú ert eins og belja á svelli. Við erum flest með svona fólk í kringum okkur. Fólkið sem vill svo vel. Fólkið sem bendir óumbeðið á gallana okkar og vekur jafnvel athygli á göllum sem við vissum ekki að við hefðum. Góða fólkið. Samt er góða fólkið ekki verst. Yfirleitt erum það við sjálf sem erum verst við okkur. Við erum okkar verstu gagnrýnendur og segjum hluti við okkur sem við myndum aldrei segja við vini okkar og myndum aldrei umbera að vinir okkar segðu við okkur.

Veistu, þú ert svakalega feit í þessum galla. Ég myndi ekki fara í ræktina í þessum fötum. Það eiga allir eftir að horfa á rassinn á þér í þessum galla, hann er útum allt.  Það er best að ná af sér nokkrum kílóum og mæta svo. Hvað um það þó að einhver hugsi þetta eða jafnvel segi það? Þetta er ekki þeirra líf, þetta er þitt líf.  Með því að selja sjálfri sér að gera ekki eitthvað þá eru að snuða framtíðarþig um betri lífsgæði. 

Að burðast með skoðanir annarra er íþyngjandi fyrir sálartetrið. Það er ólýsanlegt frelsi að losa sig undan þessu. Þetta er ekkert ósvipað og ætla að ganga upp Esjuna og vera búin að fylla bakpokann af steinum. Um leið og þú ferð að losa þig við steina fortíðarinnar verður allt svo miklu léttara. Ekki gera skoðanir annarra að þínum. Þú átt bara eitt líf og þú átt að lifa því á þinn hátt, ekki eins og eitthvað annað fólk vill.

Það tók mig tæp 50 ár að átta mig á því að ég væri ekki vandamálið. Ef einhverjum líkar ekki við þig þá skiptir það engu máli. Þú heldur bara þínu striki og hinn aðilinn getur valið að láta þig fara í taugarnar á sér.

Dagurinn sem ég áttaði mig á því að skoðanir annarra skilgreina ekki hver ég er, var dagurinn sem ég öðlaðist fullkomið frelsi. Skoðanir annarra hafa ekki áhrif á mig lengur, enda hafa þær alltaf verið óumbeðnar. Fólk má hafa allar þær skoðanir sem það vill á mér og öðrum. Ég vel bara að láta þær ekki hafa áhrif á mig. Þetta er mitt líf og ég kýs að lifa því á minn hátt. Því meira sem ég breyttist því fleiri athugasemdir fékk ég. Gallinn við að gera breytingar er að þá sýnir þú öðrum að þetta sé hægt og það eru ekkert allir tilbúnir að viðurkenna að vandamálið liggur hjá þeim. Lausnin er því oft fólgin í því að gagnrýna og rífa niður árangur annarra í staðinn fyrir að horfast í augu við að þú getur líka náð árangri ef þú vilt.

Góða fólkið má hunsa, það er röddin í hausnum þínum sem er vandamálið. Þú býrð með henni og það er erfiðara að hunsa hana. Hún getur verið mjög sannfærandi. Aðrir geta verið fífl. Það er erfiðara að segja, hættu þessi rugli, ég er fífl.

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á Instagram: 

 

 

mbl.is