„Slakaðu á, þetta verður allt í lagi!“

Björgvin Franz hefur m.a. prófaði Zumba á YouTube á dögunum.
Björgvin Franz hefur m.a. prófaði Zumba á YouTube á dögunum. Ljósmynd/Saga Sig

Björgvin Franz Gíslason, leikari og söngvari, er einstaklega skemmtilegur maður en hann er einnig fagurkeri fram í fingurgóma og hefur ráð undir hverju rifi þessa dagana.

Aðspurður hvernig lífið sé um þessar mundir segist hann mestmegnis upptekinn við að aðstoða yngri dótturina með heimanámið, þar sem hún er takmarkað í skólanum eins og gengur og gerist þessa dagana.

„Þess á milli reyni ég að vera skapandi!“

Hvernig líður þér?

„Bara furðuvel miðað við allt og allt!“

Hvernig gengur að kaupa í matinn – ertu týpan sem fer í búð daglega eða ertu löngu búinn að fylla í alla skápa?

„Við höfum verið dugleg að kaupa þurrvörur og í frystinn samkvæmt tillögum en mig langar að prófa að versla á netinu, hef bara ekki ennþá komið mér í það.“

Hvernig gengur að sjá björtu hliðarnar í lífinu?

„Það er mismunandi en yfirleitt reyni ég að sjá þessa fordæmalausu tíma sem tækifæri. En þetta hefur verið tækifæri til að verja meiri tíma með fjölskyldunni, spila saman, læra saman og nýta sér tæknina til að hitta fólk utan heimilisins. Þetta minnir mig hreinlega á árin sem við lifðum sem námsmenn í Minnesota; alltaf blönk en alltaf saman, það var æði.“

Áttu heilræði til þjóðarinnar?

„Það sem hefur reynst mér best er að halda daglegri rútínu þó að ég sé fastur heima; þ.e. fara í jóga með YouTube fyrir framan sjónvarpið, fara í zumba á YouTube fyrir framan sjónvarpið. Þið hefðuð átt að sjá svipinn á dætrum mínum þegar ég byrjaði að dansa eins og óður maður fyrir framan sjónvarpið um daginn. Þær hafa ekki litið mig sömu augum síðan. Svo finnst mér líka mikilvægt að halda svefninum góðum. Að vera ekki að glápa á sjónvarpið fram eftir öllu. Ég reyni frekar að fara eins snemma í rúmið og mér er unnt, lesa góða bók og vakna snemma á morgnana. Og síðast en ekki síst; vera í reglulegu sambandi við vini og ættingja. Við erum með alla tæknina og við erum með allan tímann í heiminum. Með öllu þessu hefur geðheilsa mín haldist nokkuð góð.“

Hvað ætlarðu að gera þegar kemur að klippingu og litun á næstu vikum og mánuðum?

„Just let it all hang loose! verður slagorðið mitt.“

Ertu með skrifstofuna heima eða úti í bæ?

„Heima.“

Hvernig er skrifstofufatnaðurinn í dag – náttföt eða jakkaföt með bindi?

„Ég reyni að klæða mig í hversdagsföt en ég nenni ekki að greiða mér lengur. Það er ótrúlega þægilegt.“

Áttu gott ráð þegar kemur að hjónabandinu eða sambandinu í dag?

„Nánd, nánd og aftur nánd! Innifalið þar í er mikill kærleikur og umburðarlyndi.“

Fara foreldrar þínir eftir fyrirmælum, að haga sér vel, eða hefurðu dottið í stjórnsemi og bent þeim á fyrirmæli Víðis eins og margir eru að lenda í?

„Nei, ég þarf ekkert að stjórnast í foreldrum mínum; mamma er til að mynda farin í sjálfskipaða sóttkví út á land og ætlar að vera þar út aprílmánuð. Hún er hetja eins og ég hef alltaf sagt!“

Hvað er gott að kaupa í dag að þínu mati, þegar búðirnar eru meira lokaðar?

„Við förum yfirleitt í Bónus eða Krónuna.“

Hver er uppáhaldsnetsíðan þín?

„Netflix!“

Áttu þér uppáhaldssnjallforrit?

„Zoom, WhatsApp og Facebook (búinn að eiga margar gæðastundir með fólki á Zoom og WhatsApp).“

Hvað er besta ráð sem þú hefur fengið í lífinu?

„Þau eru æði mörg en það sem ég hef fengið hvað oftast er: Slakaðu á, þetta verður allt í lagi!“

Margir eru að missa öryggistilfinninguna í dag og finna sig í ótrúlegustu verkefnum. Hvað um þig?

„Já, ég fór að taka til í tölvunni minni, færa myndir yfir á flakkara og þess háttar. Það er nokkuð sem ég hef aldrei tíma í.“

Hvað merkir hlátur í þínum huga?

„Hlátur skiptir mig miklu máli. Ef ég hlæ ekki allavega einu sinni á dag er eitthvað að. Ég á sem betur fer svo skemmtilega fjölskyldu að ég hlæ mikið með þeim. Svo á ég líka einstaklega skemmtilega vini sem eru með geggjaðan húmor. Það er eins og þeir segja; hláturinn lengir lífið. Það er búið að sanna það.“

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

„Ég á erfitt með að svara þessu, en mér finnst gaman að elda allt mögulegt og geri mikið af því þessa dagana. Mér finnst sérstaklega gaman að setja góða plötu á fóninn (yfirleitt eitthvað með Elly eða Ragga Bjarna) og elda góðan mat. Það eru sko gæðastundir!“

Er eitthvað sem þú ert vanur að gera sem þú getur ekki gert lengur?

„Ég get náttúrlega ekki komið fram lengur vegna samkomubannsins, en ég er svo heppinn að vera partur af sönghópnum Lóunum sem skartar fremstu skemmtikröftum landsins og kemur hópurinn helst fram fyrir utan öldrunarheimilin og tekur öll þessi gömlu góðu til að færa smá gleði í mannskapinn. Þetta er að sjálfsögðu gert í sjálfboðavinnu.“

Björgvin Franz er á því að við getum tekið æðruleysið …
Björgvin Franz er á því að við getum tekið æðruleysið á aðstæðurnar. Ljósmynd/Saga Sig
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál