„Ég er alveg forfallinn ástarsögufíkill“

Rithöfundurinn Josie Silver er höfundur bókarinnar Tvö líf Lydiu Bird.
Rithöfundurinn Josie Silver er höfundur bókarinnar Tvö líf Lydiu Bird.

Rithöfundurinn Josie Silver er forfallinn ástarsögufíkill sem kemur bersýnilega í ljós í bókum hennar. Hennar nýjasta bók, Tvö líf Lydiu Bird, kom nýlega út hjá Forlaginu. Bókin fjallar um Lydia Bird og Freddie Hunter sem hafa verið óaðskiljanleg frá unglingsárum, alltaf saman, alltaf ástfangin. Þar til á 28 ára afmælisdegi Lydiu – þegar Freddie lætur lífið í slysi. Í viðtali við Smartland segir Silver nánar frá bókinni. 

Hvað var það sem fékk þig til að skrifa bókina Tvö líf Lydiu Bird?

„Hugmyndin kviknaði fyrst þegar ég var að spjalla við ritstjórann minn um það hvernig lífið getur skyndilega tekið beygju í allt aðra átt vegna einnar lítilfjörlegrar og ómerkilegrar ákvörðunar – í þessu tilfelli þegar Freddie ákvað að taka á sig krók til að sækja Jonah, en það hafði svo skelfilegar afleiðingar fyrir hann og fólkið sem elskaði hann og sat eftir með sorgina. Áður en ég byrjaði las ég margar bækur um hliðarveruleika og hugmyndina um aðra heima og ég heillaðist af tilhugsuninni um óendanlega margar útgáfur af tilverunni sem vindur fram, til hliðar við þá tilveru sem við upplifum. Það er lokkandi tilhugsun, ekki satt? Það var svolítið snúið að koma svo flóknum vísindalegum kenningum inn í hversdagslega ástarsögu; ég fór í gegnum nokkrar fullar stílabækur af tilraunum með ýmsar útgáfur áður en ég ákvað að nota hugmyndina um svefnlyfið. Og það er auðvitað á endanum undir lesandanum komið að ákveða hvort Lydia fann í rauninni bakdyr inn í annan heim eða hvort þetta var undirmeðvitund hennar að reyna að sætta sig við áfallið að missa stóru ástina í lífi sínu. Ég veit hvoru megin ég stend,“ segir hún.

Það eru margar heillandi sögupersónur í bókinni. Hverri þeirra tengdist þú mest í sögunni?

„Fjölskylda er eitt af mikilvægustu þemum bókarinnar; ég nýtti mér vissulega mína eigin reynslu til að lýsa tengslunum milli mæðgnanna og systranna. Mér fannst sérstaklega notalegt að skrifa um samband Lydiu og Ellu; ég á tvö systkini, er lukkulegt miðjubarn milli eldri systur og yngri bróður! Ég er heimakær eins og Lydia, mér líður best og slaka best á í félagsskap minna allra nánustu. Ég er líka svolítið veik fyrir Ryan, vinnufélaga Lydiu. Hann er ungur og alltaf til í glens og grín en hann hefur líka dásamlega samkennd með Lydiu og sýnir henni hollustu sem ber vott um meiri þroska en búast mætti við af svo ungum manni,“ segir hún. 

Var erfitt að skrifa endinn – þegar Lydia kvaddi Freddie endanlega?

„Guð, já, alveg ótrúlega erfitt. Ég vissi frá upphafi að það yrði einstaklega erfitt að skrifa þann hluta, af því að svo stór hluti sögunnar fjallar um að halda í Freddie. Í byrjun gat Lydia ekki ímyndað sér að sá dagur ætti eftir að koma að hún þyrfti að taka ákvörðun um að sleppa af honum takinu – hver gæti nokkurn tímann hugsað sér að gefa svo dýrmæta gjöf frá sér? Ég prófaði ýmsar útgáfur af þessu atriði áður en ég ákvað að hafa  það eins og það birtist í bókinni; ólíkar aðstæður og umhverfi en samtalið sjálft var að mestu alltaf eins. Að láta Lydiu slíta tengslin gegnum skjáinn hafði í för með sér að hún þurfti meðvitað að ákveða hvenær hún ætti bókstaflega að ýta á takkann og finna innri styrk til að slíta sambandinu endanlega. Ég held að það sé nauðsynlegur hluti af sorgarferli hennar.“

Sönn, varanleg, ómótstæðileg ást er svo oft meginþema í bókunum þínum – ertu svona rosalega rómantísk?

„Það er ekki til neins að reyna að þræta fyrir það, er það nokkuð? Ég er alveg forfallinn ástarsögufíkill. Ég hef yndi af að lesa þær og horfa á þær en fyrst og fremst að skrifa þær. Er ég rómantísk í einkalífinu? Ég býst við því og maðurinn minn er það líka. Við höfum verið saman í meira en tuttugu ár og hann leggur alltaf mikla alúð í gjafakaup, oftast með frábærum árangri. Þótt reyndar hafi þriggja metra trampólín þegar ég var kasólétt að fyrsta barninu okkar ekki alveg hitt í mark … Hann kaupir líka mikið af blómum; við erum næstum alltaf með nýafskorin blóm heima hjá okkur. Ég er sérstaklega mikið fyrir ástarsögur á skjánum. Ef ég þyrfti að velja myndi ég nefna myndina eftir Dagbók Bridget Jones sem eina af mínum eftirlætismyndum og Crazy, Stupid Love verður alltaf í einhverju af efstu fimm sætunum.“

Hefurðu fastan vinnutíma þegar þú skrifar?

„Já, nokkurn veginn. Ég vinn heima svo ég hef sveigjanlegan tíma en yfirleitt vil ég helst setjast við skrifborðið strax og krakkarnir eru farnir í skólann. Mér gengur best að vinna ef ég get skrifað áður en ég geri nokkuð annað, svo ég reyni að forðast að opna samfélagsmiðlana á morgnana ef ég mögulega get komist hjá því. Það gengur ekki alltaf, það verður til dæmis alltaf brjálað að gera kringum útgáfudag nýrrar bókar. Þá þarf ég að skrifa greinar og fara í viðtöl, vera á netinu og svara lesendum, fylgjast með Instragram, halda viðburði og ýmislegt þess háttar. Mér finnst frábært hvað starfið er fjölbreytt en ég er alltaf ánægðust þegar ég er ein með tölvunni, tebolla og ímynduðu vinum mínum. Við fluttum nýlega og ég átti erfitt með að finna fullkominn stað til að vinna á nýja heimilinu, svo ég er nýbúin að láta innrétta sérútbúna skrifstofu í garðinum og það er spennandi. Ég hlakka virkilega til að geta verið skipulagðari og þurfa að fara út að vinna – þótt það sé bara hérna rétt út í garð! Mér verður alltaf meira úr verki þegar skilafresturinn er að renna út. Ég myndi gjarnan vilja dreifa álaginu jafnar en ég hef áttað mig á því að það hentar mér betur að skrifa frekar hratt í stuttan tíma en að skrifa rólega í langan tíma. Það er meira stressandi að gera það þannig en það hentar mér. Það er ekki óalgengt að ég sé að vinna langt fram á nótt síðustu vikurnar áður en fresturinn rennur út og mér finnst reyndar æðislega spennandi að sjá þetta allt ganga upp. Það er eins og töfrar.“  

Hvað finnst þér skemmtilegast við að vera rithöfundur?

„Sveigjanleikinn er frábær. Mér finnst dásamlegt að geta unnið heima, á bókasafninu eða í sólstól á sundlaugarbakka í sumarfríi! En dásamlegast af öllu er að skapa persónur. Það er undarlegt og stórkostlegt að töfra manneskjur fram úr hugskoti sínu og skapa síðan heim í kringum þær þangað til manni finnst þær vera af holdi og blóði. Maður byrjar með ekki neitt og nokkrum mánuðum seinna er ég með mörg hundruð blaðsíður í höndunum og persónur í huganum sem eru manni jafn kærar og væru þær hluti af fjölskyldunni. Og svo kemur auðvitað að því að ég á þær ekki lengur ein; ég verð að senda þær út í heiminn og ég get ekkert annað en vonað að aðrir muni elska þær líka.“

mbl.is