Hefur alltaf fundið leiðir til að lifa af

„Lögreglan sem tók af mér skýrsluna kannaðist eitthvað við mig. …
„Lögreglan sem tók af mér skýrsluna kannaðist eitthvað við mig. Hann talaði mjög fallega til mín og sagðist muna eftir mér frá því í gamla daga og sagði að hann tryði því ekki að ég væri komin á þennan stað.“ Morgunblaðið/Árni Sæberg

Tinna ber það ekki með sér að hafa fyrir einungis tæpum tveimur árum verið í harðri daglegri neyslu fíkniefna. Hún er ein af þeim sem lýsa neyslunni eins og helvíti á jörðu. Bataganga hennar hefur verið í formi djúprar sjálfsvinnu, virðingar og kærleiks. Þegar hún mætti í meðferð í Hlaðgerðarkot var hún eins og tískusýningardama frá París.

„Ég veiktist mikið fyrir nokkrum árum af alkóhólisma og hef á undanförnum árum verið að vinna mig út úr því. Af því þú spurðir mig í upphafi viðtalsins hver ég væri í dag, þá langaði mig að segja þér að ég er bara Tinna. Ösköp venjuleg stelpa sem ólst upp á fallegu heimili úti á landi. Ég ólst reyndar upp við alkóhólisma þar sem alkóhólistinn stjórnaði stundum með skapinu. Ég elska þennan einstakling og hef alltaf gert. Allt frá því ég var lítil hef ég samt verið hrædd. Ég var misnotuð fyrst þegar ég var þriggja ára að aldri af góðum vini fjölskyldunnar og þegar ég hugsa til baka um mig sem litla stelpu, þá sé ég að það hefur eitthvað brotnað inni í mér út af þessari misnotkun. Ég átti ekki sjálfsmynd og var alltaf kvíðin og óörugg. Ég sótti í viðurkenningu frá öðrum og vissi í raun ekki hver væri uppáhaldsliturinn minn þó ég hefði unnið sem stílisti í mörg ár.“

Reyndi að hengja sig með belti af Burberry-kápunni

Tinna kynntist sjálfri sér í gegnum andlegt ferðalag.

„Í lok neyslunnar reyndi ég að taka mitt eigið líf, en hætti við á síðustu stundu. Ég var komin út í garð á Sogaveginum þar sem ég bjó, var búin að vera í partíi í Burberry-kápunni minni og hafði tekið beltið af kápunni og var með snúru líka til að enda líf mitt.“

Hvað hugsar einstaklingur sem er kominn á þennan stað?

„Hann hugsar bara að hann langi ekki meir. Ég man ekki augnablikið nákvæmlega þegar ég missti lífsviljann, en ég held það hafi verið tveimur árum áður en ég ákvað að ljúka þessu. Á þessum tíma fannst mér lífið bara svo erfitt. Ég var knúin áfram af reiði. Ég hafði upplifað röð áfalla. Fyrst var það misnotkunin, síðan skildu mamma og pabbi þegar ég var þrettán ára. Skilnaðurinn var áberandi í íslensku þjóðfélagi. Hann var kallaður kvótaskilnaðurinn og var settur á svið, meðal annars í áramótaskaupinu. Skilnaðurinn tætti mömmu mína mikið og svo fór pabbi að vera með mömmu bestu vinkvenna minna sem var mikil höfnun fyrir mig. Að hann vildi þær frekar en okkur systkinin og mömmu. Mamma fékk taugaáfall í kjölfarið og ég flutti til systur minnar í borgina, sem var þá tvítug. Ég fór fljótlega að drekka, en þá fékk ég rödd. Mér var síðan nauðgað af karlmanni og þá bara brast eitthvað innra með mér.“

Var lengi vel án þess að drekka en með áráttu á mörgum sviðum

Tinna segir að hún hafi alltaf verið náin mömmu sinni, bróður og systrum en eftir skilnað foreldranna hafi hún átt erfitt með að treysta öðrum konum einlægt. Tinna var lengi vel með fullkomnunaráráttu. Drakk lítið sem ekkert áfengi, eignaðist barn með æskuástinni sinni, þreif eins og vindurinn. Var í vinnu sem hún skilaði af sér vel og vandlega. Í raun fyrirmyndarkona eins og maður les um þær í bókum.

„Ég var samt svo veik ung kona á þessum tíma, þó ég væri ekki að drekka. Því ég vissi ekki að hamingja mín gæti aldrei byggst á því að hugsa um aðra. Að vera besta mamman og besta eiginkonan og svo með allar þessar maníur og neikvæðu hugsanir var bara alls ekki að ganga. Ég vaknaði með kvíðhnút og sofnaði með sama hnút. Og þó það gengi rosalega vel hjá mér í vinnu, þá vissi ég aldrei hvort ég væri að gera nóg.“

Tinna vann lengi vel fyrir Eskimo módel-skrifstofu, var framkvæmdastjóri Ford-fyrirsætukeppninnar um tíma. Hún var formaður foreldrafélags Laugalækjarskóla þar til brestir komu upp í sambandi hennar og barnsföður hennar og þau ákváðu að fara sitt í hvora áttina. Í kjölfarið missti hún tökin á neyslunni.

„Ég tala um að ég hafi misst stjórn á neyslunni minni þegar ég byrjaði að fara niður í bæ, jafnvel á miðvikudagskvöldi. Þá fór ég kannski á Kaffibarinn og fékk mér kókaín um kvöldið. Endaði svo á því að bjóða nokkrum vinum heim þó ég vissi að ég þyrfti að fara í vinnuna daginn eftir. Þá laug ég kannski til um að ég væri lasin daginn eftir. Ég hef alltaf elskað vinnuna mína, en það varð ákveðinn vendipunktur í neyslunni minni í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Þá var ég byrjuð í neyslu og náði ekki að halda heimilinu mínu lengur sem var áfall. Þá kynntist ég manni sem fór mjög illa með mig. Ég náði að halda mér í vinnu og í neyslu í einhver tíu ár. En lífið var erfitt og þetta var mikil vinna.“

Tinna hefur alltaf fundið leið til að lifa af. Þegar hún var komin á botninn í neyslunni vann hún fyrir fíkniefnaneyslunni með skúringum ásamt því að vera á bótum auk þess að taka til sinna ráða sem oft voru á gráu svæði.

„Ég var orðin svo ofbeldisfull og geggjuð þarna í lokin að ég rændi og ruplaði. Ég til dæmis þóttist ætla að kaupa kókaín af ungum dópsölum, og vildi smakka efnið áður en ég borgaði. Þegar ég fékk efnið í hendurnar þá bara gekk ég í burtu og barði þann sem var eitthvað að abbast upp á mig. Ég átti engar tilfinningar til á þessum stað. Reiðin gaf mér styrk í neyslunni en síðan var ég farin að umgangast mjög hættulega glæpamenn. Þeir voru líka vinir mínir og gerðu mér sumir aldrei neitt.

Það voru kærastarnir mínir og fólk sem ég elskaði sem oft og tíðum meiddu mig mest. Sem dæmi tók ég ábyrgð á einum aðila sem ég var í sambandi með. Lánaði honum peninga sem hann stal af mér og síðan hélt hann stöðugt framhjá mér. Hann meiddi mig á stöðum þar sem ég finn ennþá til í dag og gerði við mig hluti sem enginn kærasti ætti að gera við kærustuna sína. Ofbeldismenn bera oft ekki ofbeldið utan á sér. Það er oft fólkið sem við elskum mest. Þetta eru hlutir sem ég er að reyna að gera upp núna.

Ég hef alltaf valið að vera með strákum sem meiða mig. Fyrir utan barnsföður minn sem er ljósið í lífinu mínu. Hann og unnusta hans eru fjölskyldan mín í dag og síðan spilaði tengdamamma stórt hlutverk í bataferlinu mínu.“

Lögreglan minnti hana á hvers virði hún var

Hvernig var aðkoma tengdamömmu þinnar að batanum?

„Hún var alltaf í sambandi við mig þegar ég var í neyslu og hjá henni fékk ég að gista þegar ég þurfti stað til að hvíla mig á. Það var á hennar heimili sem vinir mínir og barnsfaðir tóku samtal við mig í lokin. Þar sem þau sögðu mér að þau hefðu áhyggjur af því hvað ég væri orðin veik. Ég bara dýrka og dái þessa fjölskyldu mína. Þau eru stoð mín og stytta ásamt minni fjölskyldu, og fólkið sem elskar mig skilyrðislaust. Það var síðan konan hans pabba sem hringdi í Hlaðgerðarkot fyrir mig í meðferð.“

Tinna lenti í handtöku áður en hún fór í Hlaðgerðarkot sem hún segir hafa verið mikilvægt atvik í bataferlinu hennar.

„Ég fékk taugaáfall þarna nokkrum dögum áður, var handtekin og lögreglan sem tók af mér sýrsluna kannaðist eitthvað við mig. Hann talaði mjög fallega til mín og sagðist muna eftir mér frá því í gamla daga og sagði að hann tryði því ekki að ég væri komin á þennan stað. Það gerði mikið fyrir mig að láta stappa svona stálinu í mig og gaf mér von. Lögreglan minnti mig á að ég væri of flott kona til að lenda í svona. En málið er að þessi sjúkdómur spyr ekki um það. Hann getur komið inn í líf okkar allra.“

Tinna segir að hún gleymi aldrei deginum þegar hún labbaði inn í Hlaðgerðarkot fyrst.

„Ég vissi að ég ætti að vera í meðferð í þrjá mánuði, en ætlaði að vera duglega stelpan og klára meðferðina á meiri hraða. Um leið og ég byrjaði meðferðina, ákvað ég að segja frá öllum leyndarmálunum mínum. Sem var mjög erfitt í fyrstu því það er erfitt að horfast í augu við allan skandalinn og skítinn sem maður var búinn að koma sér í. Ég var búin að meiða svo rosalega marga, en þó mest mig sjálfa og son minn.“

Hvernig var viðmótið í Hlaðgerðarkoti?

„Viðmótið var alveg dásamlegt. Það sem er svo heillandi við staðinn er að þarna eru allir jafnir. Fangar, morðingjar, ég og allir hinir. Það er hreinn kærleikur í húsinu og þarna inni fær maður þá mestu tengingu við ástina sem hægt er að fá hér að mínu mati. Ég fæ gæsahúð að hugsa um þennan tíma í mínu lífi; því þessi staður bjargaði lífi mínu. Þarna inni fór ég fyrst að taka þátt í lífinu. Ég byrjaði að hlusta og þáði ráð frá fólki. Þarna var talað fallega til mín og allir báru virðingu fyrir mér. Ég hafði ekki upplifað svona virðingu í mörg ár.“

Virðing sterkari en fordómar

Heldurðu að þessi virðing sé lykillinn að bata fólks með þennan sjúkdóm?

„Já, því það eru rosalegir fordómar í samfélaginu, sérstaklega gagnvart konum sem lenda illa í því svona á seinni árum eins og ég gerði. Alkóhólismi spyr ekki um stað og stund, stétt eða stöðu. Hann getur blossað upp og tekið sig upp aftur á öllum stigum lífsins. Þarna fékk ég mína hjálp og þarna var mér bent á hluti sem enginn hafði bent mér á áður. Sem dæmi get ég deilt með ykkur að ég var kölluð inn á skrifstofu og beðin um að verða ekki sár, en ráðgjafinn vildi segja mér að þau hefðu tekið eftir því að ég var ekki góð við sjálfa mig. Þau báðu mig um að taka eftir þessu sjálf. Því mennskan væri svo mikilvæg og það sem sameinaði okkur mannfólkið. Ég var hins vegar að rakka mig niður allan sólarhringinn. Seinna um daginn var ég að fá mér egg með kaffinu mínu og á meðan ég tók skurnina af egginu þá var ég að brjóta mig niður. Hvað ég væri mikill hálfviti að gera þetta svona illa. Síðan rak ég tána mína í seinna um daginn og þá jós ég yfir mig svívirðingunum. Þetta var bara alls ekki í lagi í mínu fari. Ein af æfingunum sem ég þurfti að gera upp frá því var að horfa í augun mín í speglinum og segja sjálfri mér að ég væri góð. Ég gat það alls ekki í fyrstu og þurfti að taka sterka trú til að öðlast styrk til að horfa í spegilinn og segja mér að ég væri nóg.“

Telurðu þessa sjálfshörku vera í eðli þínu eða hafa komið í gegnum umhverfið?

„Ég held hvort tveggja. Ég gerði hlutina aldrei nógu vel. Starfið sem ég var í var ekki nógu gott, húðin mín var slæm og svo átti ég að klæða mig öðruvísi, fara með son minn í greiningu og fleira. Ég treysti heldur engum fyrir því hvernig mér raunverulega leið. Sagði aldrei frá því sem hafði gerst eða talaði um hvernig ég hugsaði.“

Eftir þrjá mánuði í Hlaðgerðarkoti segir Tinna það hafa orðið mjög skýrt í hennar huga hversu mikill fíkill hún var. Hún ákvað því að fara engar sérleiðir í batanum sínum. Hún hlustaði vel og vandlega á alla og ákvað að fara á Dyngjuna eftir meðferð og síðan á Brú og loks í Grettistak þar sem hún er núna.

„Með bæninni hefur mér einnig lærst að losna við gremjuna. Ég þurfti að læra að fyrirgefa mér og síðan öðru fólki. Þessi vinna hefur einnig gefið mér kraft til að aðstoða aðra. Ég er heiðarleg við mig daglega, sem snýst ekki einvörðungu um það að segja satt daglega, heldur að sofa vel, borða góðan morgunmat, búa um rúmið mitt og setja það sem er gott fyrir mig í fyrsta sæti.“

Tinna segir mikilvægt að konur sem hafa upplifað áföll á kynferðissviðinu fái frið til að ná sér í bata í burtu frá samböndum. Hjá Dyngjunni búi konur í allt að eitt og hálft ár, þar sem farið er eftir góðum heilbrigðum reglum og konur geta fundið taktinn á góðum stað í fallegu umhverfi. Grettistak taki svo við þar sem starfsendurhæfing, ráðgjöf og fyrirlestrar eru í boði.

Hvað ber framtíðin svo í skauti sér?

„Bróðir minn, sem staðið hefur einna mest við bakið á mér, keyrði mig í kirkjugarðinn í Hafnarfirði og sagði við mig: Sjáðu leiðin hér. Hér hvílir fullt af fólki sem lét drauma sína aldrei rætast og fór því ekki eftir því sem það vildi raunverulega gera í lífinu. Ef þú getur unnið við það sem þér finnst gaman að gera þá skaltu velja þér það. Frá þessum degi þá vissi ég að ég elskaði vinnuna mína sem prufuleikstjóri. Mig langar að stofna mitt eigið fyrirtæki innan kvikmyndaiðnaðarins. Að vinna fyrir fólk með fólki. Það verða mikil tækifæri í greininni á komandi árum og starfsfólkið hér er ákaflega hæfileikaríkt og skemmtilegt. Eins er íslensk náttúra einstök og umhverfið til þess fallið að trúa á inn í framtíðina.“

Verður með rauðan varalit með bros á vör eftir tíu ár

Tinna segir að hún viti innra með sér hvar hún verði eftir tíu ár.

„Þá verð ég með rauðan varalit, skælbrosandi alla daga að hjálpa öðru fólki. Ég lifi fallegu og einföldu lífi líkt og ég geri í dag. Vel að hafa daginn þægilegan þar sem ég vakna spennt eins og lítið barn og fer að sofa með bros á vör á kvöldin.“

Tinna lýsir lífinu sínu í dag eins og himnaríki á jörðu. En tímanum í neyslu eins og helvíti. Hún vonar að sem flestir sem eru að fást við fíkn í dag komist í bata.

Er eitthvað sem þú vilt segja þessu tengt?

„Leitið ykkur aðstoðar með það sem er raunverulega að. Segið frá hvað er að angra ykkur og verið ófeimin að gera það. Grunnurinn að þessum sjúkdómi er alltaf eitthvað sem við höfum upplifað og treystum okkur ekki til að deila með öðru fólki. Eins langar mig að hvetja alla til að bjóða fólki, sem horfir niður með augun tóm, góðan daginn. Því við vitum aldrei hvaðan annað fólk er að koma.

Við eigum að passa upp á hvert annað og ekki dæma það sem aðrir hafa farið í gegnum. Ekki bæta í sögur fólks og ekki áætla að allir sem hætta að drekka hafi endað í vændi eða með sprautunál í hendi við gáma.

Þeir sem eru jaðarsettir í samfélaginu eru fólk eins og við hin. Við vitum ekkert hvað er í gangi inni í húsunum okkar í borginni. Það eina sem við vitum er að við deilum því öll að vera mennsk og við megum gleðjast yfir því að vera það saman.

Hamingjan býr innra með okkur en ekki í öðru fólki. Við vitum aldrei hver lendir í sjúkdómnum næst. Ég vona að ef þið eigið veikan vin þá komist hann í bata. Það er í boði fyrir alla ef rétt er farið að og hjálp er veitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál