„Það á ekkert barn að upplifa það sem ég gerði“

Snæfríður segir að flestar konur sem hún hitti á botni …
Snæfríður segir að flestar konur sem hún hitti á botni neyslu sinnar hafi deilt sömu reynslu og hún gerði. mbl.is/Colourbox

Snæfríður segir konur í mikilli neyslu þurfa aðstoð við að vinna í áföllum sínum. Sjálf var hún beitt kynferðisofbeldi af föður sínum, sem hafði djúpstæð áhrif á líf hennar. Hún fór djúpt í neyslu og leiddist út í vændi. Í dag lifir hún góðu lífi og vill deila sögu sinni til að opna augu samfélagsins. 

Kona sem vill ekki koma fram undir nafni, og nefnd er Snæfríður í viðtalinu, vildi deila af reynslusögu sinni til að vekja máls á málefni sem lítið er rætt opinskátt ís samfélaginu í dag. Hún varð fyrir kynferðisofbeldi af hendi föður síns og hefur verið í mikilli sjálfsvinnu tengdri því að undanförnu. Hún lifir frekar hefðbundnu lífi í dag. Er í listnámi, í sambúð og með tvo ung börn.

Hún segir sögu sína ekki einstaka, því á ákveðnum stað þar sem hún var að kljást við afleiðingar ofbeldisins hitti hún margar illa farnar ungar stúlkur með sömu reynslu. Þetta var þegar hún starfaði sem vændiskona í undirheimunum á Íslandi.

Hún segir að þegar fjölskyldan, kerfið og dómstólar bregðast börnum eins og henni verði stundum staðir eins og Hlemmur áhugaverður valkostur. Hún upplifði sig eina á móti heiminum þangað til hún fór í kjarna vandans og vann í áföllum æskunnar.

Lítil stúlka sem engum treysti

Í vændinu seldi hún m.a. mönnum á áttræðisaldri líkama sinn. Hún fór á milli meðferðarstofnana í leit að lausn en engin af þeim hafði sérfræðinga á sínum snærum að vinna úr kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir sem barn, sem er að hennar mati ástæðan fyrir því að hún varð að deyfa sig. Hún getur ekki hugsað sér að annað barn þurfi að upplifa það sem hún gerði.

„Mamma og pabbi skildu þegar ég var einungis tveggja ára að aldri. Þá hafði mamma orðið uppvís að því að pabbi sótti í vændiskonu í bænum. Hún uppgötvaði atvikið með mig og systur mína í bílnum. Sagan um það hvernig ég tók á móti nýjum fósturföður inn í lífið, þegar ég var fjögurra ára, situr ennþá í mér. Mamma sagði að ég hefði kysst hann í bak og fyrir þegar ég sá hann fyrst. Svo mikið vildi ég sýna honum að hann væri velkominn. Hvaða barn gerir slíkt? Jú, því miður barn sem hefur átt föður sem kennir því að kyssa eins og fullorðið fólk gerir, frá því að barnið lærir að ganga.“

Það á ekkert barn að þurfa að upplifa það sem …
Það á ekkert barn að þurfa að upplifa það sem Snæfríður gerði. mbl.is/Colourbox

Var mikil pabbastelpa

Snæfríður var mikil pabbastelpa að eigin sögn. Í kringum pabba hennar var mikið líf og fjör. Hestar og alls konar dýr en einnig margar konur og fósturbörn.

„Pabbi flakkaði mikið á milli staða í sveitinni. Ég var ljósið í lífinu hans og hann sótti mikið í að hafa mig. En ég var aldrei örugg í kringum hann og man eftir því hvernig ég notaði það að eignast strákavini til að halda honum frá mér.“

Snæfríður segir að hún muni eftir því að pabbi hennar hafi farið í sleik við hana sem barn en þetta sé mikið af minningabrotum úr æsku sem hún hafi verið að vinna með á undanförnum árum.

„Ég man eftir sem dæmi einu skipti sem ég vakna nakin upp við hliðina á pabba í sveitinni. Hann var þá líka nakinn og systir mín rífur af mér sængina og spyr mig af hverju ég er ekki í náttfötunum mínum. Ég skildi það ekki sjálf, því ég mundi að ég fór í þau kvöldið áður.“

Snæfríður lýsir tveimur öðrum atvikum þar sem hún er kornung og faðir hennar fer yfir mörk hennar á kynferðissvæðinu. Annað atvikið átti sér stað uppi í sveit, inni í tjaldi þá komst hún með herkjum út eftir að hann hafði farið yfir mörk hennar. Hitt atvikið var heima hjá ömmu hennar. Þá fékk hann hana upp í rúm til sín. Lét hana snerta sig að neðan, snerti hana og húðskammaði hana síðan fyrir að káfa á sér. Þriðja atvikið átti sér síðan stað þegar hún var ellefu ára að aldri. Það var atvikið sem fyllti mælinn.

Kornið sem fyllti mælinn

„Ég hafði dvalið hjá pabba í viku úti á landi. Andrúmsloftið var mjög skrítið, enda var hann í neyslu og alltaf í einhverju kvennarugli. Hann hafði þá verið að hætta með kærustunni sinni. Mig langaði að gista hjá vinkonu minni kvöldið áður en ég átti að fara heim. Hann tók það ekki í mál. Um miðja nóttina vaknaði ég með buxurnar niður um mig, hann var þá að nudda kynfærum sínum upp við mín og þegar hann sér að ég vakna spyr hann mig hvort ég vilji þetta ekki örugglega. Ég öskraði á hann að stoppa inni í mér en var algjörlega frosin. Ég reyndi að snúa mér á hliðina frá honum. En síðan kinkaði ég kolli um að hann ætti að hætta og hann fór ofan af mér.

Það var í síðasta skiptið sem ég fór til hans. Þegar hann fylgdi mér að bílnum heim ítrekaði hann eins og svo oft áður að ég mætti ekki segja neinum frá leyndarmáli okkar. Þá fengi ég ekki að fara til hans aftur.“

Snæfríður sagði engum úr fjölskyldunni frá þessu atviki, en trúði vinkonum sínum fyrir reynslu sinni ári seinna. Ástæðan fyrir því að hún leitaði ekki til móður sinnar var sú að hún var í neyslu sjálf á þessum tíma sem gerði Snæfríði óörugga gagnvart henni. Ástandið á heimili hennar var þannig að fósturfaðir hennar var fíkniefnasali og því var mikið um stuttar heimsóknir frá almenningi inn á heimilinu.

Faðirinn lést úr alnæmi

Faðirinn lést úr alnæmi fyrir nokkrum árum.

„Ég hafði treyst nánustu vinkonum mínum fyrir því sem pabbi gerði og síðan einni vinkonu minni sem var árinu eldri en ég. Það hefði ég betur ekki gert, því einn daginn í skólanum var hún búin að deila með öllum árganginum að ég hefði riðið pabba mínum. Ég fékk sting í hjartað og upplifði ótrúlega skömm. En skólayfirvöld tóku okkur vinkonurnar tali og sögðu mér að þau yrðu að deila reynslu minni með móður minni. Þetta var einu ári eftir að ég hætti að heimsækja pabba.

Mömmu brá að sjálfsögðu mikið og vildi kæra hann strax fyrir hegðun hans. En það var ekki rétt brugðist við áfallinu að mínu áliti. Ég var í stöðugum viðtölum í Barnahúsi í eitt ár á eftir, pabbi var kærður og sýknaður af verknaðinum þar sem of langur tími var liðinn frá því að þetta gerðist. Enginn ræddi við mig um áfallið eða hjálpaði mér að komast í gegnum lífsreynsluna. Fókusinn var aðallega á hvernig ég stóð mig í skólanum. Sem fyllti mig af enn meiri skömm og kvíða. Ég hafði af þessum sökum enga ástæðu til að treysta kerfinu fyrir mér.“

Í dag segir Snæfríður geta talið fjórar ungar stúlkur sem faðir hennar beitti kynferðisofbeldi á sínum tíma. Ein þeirra var 13 ára barnfóstra Snæfríðar.

„Hún taldi sig hafa fundið ástina í lífi sínu. Hún var barn á þessum tíma og því um nauðgun að ræða.“

Faðir hennar fékk aldrei dóm fyrir athæfi sín. En sat inni fyrir minniháttar brot, svo sem þjófnað.

Þó að móðir hennar hafi trúað henni segir Snæfríður að aðalfókusinn á heimilinu hafi verið að meyjarhaft hennar hafi ekki verið rifið. Atvikin og áfallið voru í bakgrunni.

Fjölskylda föður hennar hefur aldrei tekið hana í sátt eftir að upp komst um atvikin og trúir engu vondu upp á föður hennar. Snæfríður hefur því ekki einvörðungu verið beitt kynferðislegu ofbeldi innan fjölskyldunnar, heldur hefur hún einnig þurft að upplifa útskúfun og tortryggni frá fólkinu hans. Það finnst henni sárt og erfitt að vinna sig út úr.

Beint úr Barnahúsi á Hlemm

„Það var ekki fyrr en pabbi dó sem ég upplifði mig örugga í lífinu. Ég vissi aldrei nema að hann myndi reyna að halda áfram að níðast á mér. Ég var tólf ára barn sem upplifði öryggi á Hlemmi með rónunum þar. Það segir mikið um sjálfsvirðingu barnsins.“

Snæfríður segir að hún hafi upplifað sig skítuga í æsku og að hún hafi ekki lengur getað tengt við vinkonur sínar, því vandamálin hennar hafi verið svo mikið alvarlegri en þeirra. Hún segir að áfengi og kannabis hafi hjálpað henni við að deyfa tilfinningarnar á þessum tíma.

Seinna meir kynntist Snæfríður barnsföður sínum og áttu þau nokkur góð ár saman, þar sem þau reyndu að koma undir sig fótunum og lifa sem eðlilegustu lífi fyrir börnin sín. Þau eru einstakir vinir í dag og þakkar hún honum fyrir að hafa verið til staðar fyrir börnin þegar hún hvarf úr lífi þeirra í nokkur ár.

„Ég og barnsfaðir minn höfðum farið í sundur og ég bjó ein í íbúðinni okkar suður með sjó. Í kjölfar þess að ég upplifði hrottalega nauðgun af hendi vinar míns fór eitthvað af stað innra með mér og ég fór á kaf í neyslu sem tók mig frá börnum mínum í nokkur ár. Ég missti algjörlega taktinn í lífinu. Ég man eftir því að ég fór með börnin mín í pössun til vinkonu minnar og síðan ekki fyrr en ég ranka við mér hjá manni sem ég hafði ekki hugmynd um hver væri.“

Sá fyrir sér sem vændiskona um tíma

Þegar Snæfríður var týnd í undirheimunum segir hún að án undantekningar hafi fólk sem hún var í samskiptum við deilt sömu reynslu og hún gerði. Hún segir að hjá fólki í neyslu sé ákveðin stéttskipting. Heildsalar á fíkniefnum séu ofarlega í neðanjarðarhagkerfinu, þá séu fíkniefnasalar þar fyrir neðan og svo séu það sem kallast pokamellur og það hafi hún ekki viljað vera.

„Ég vildi fá meiri pening fyrir kynlífið fyrst ég þurfti að lifa af á þennan hátt. Ég komst að því að maður gæti fengið allt að 50 þúsund krónur á tímann fyrir kynlíf. Það snerist allt um útlitið hjá mér á þessum tíma. Ég var 50 kg léttari, með hvítt aflitað hárið. Útlit sem er kannski ekki eitthvað sem maður myndi sækjast eftir í dag en er í tísku hjá þessum þjóðfélagshópi. Ég fór í viðskipti með manni sem var með góð sambönd í undirheimunum. Ég bjó til m.a. Facebook-síðu um vændið og hafði nóg að gera og var send í verkefni víða. Viðskiptavinir mínir voru alls konar. Það sem mér þótti einfaldast var að vera með mjög gömlum mönnum, eða mönnum yfir sjötugt, því þeir fengu það vanalega á fimm mínútum en borguðu fyrir alla klukkustundina.“

Hvað hefði þessi stúlka sagt í viðtali um vændið?

„Hún hefði sagt að hún væri með völdin. Að það væri fáránlegt að selja sig fyrir neysluskammtinn. Þú hefðir fundið fyrir mikilli reiði sem bjó innra með henni. Þú hefðir séð að hún var sterk á sinn hátt. En hún var brotin og langt frá börnum sínum, sem var í raun og veru það eina sem hún vildi ekki.“

Hver voru fyrstu skref þín í bata?

„Ég fór til útlanda, þar sem mig langaði að svipta mig lífi. En endaði á spítala þar sem íslenskur læknir tók á móti mér og spurði mig um tilgang lífsins. Það eina sem ég raunverulega vildi var að búa börnum mínum gott líf. Að vera til staðar fyrir þau og vera góð fyrirmynd.“

Snæfríður segir að hún hafi farið í allar mögulegar meðferðir á Íslandi en engin af þeim hafi virkað fyrir hana. Eftir að hafa strokið úr einni slíkri endaði hún á botninum í neyslu sinni.

„Ég endaði heima hjá hættulegum ofbeldismanni sem nauðgaði mér illa og barði mig sundur og saman. Hann reyndi að henda mér fram af svölum en ég náði að sleppa frá honum. Ég endaði nakin úti á götu og var tekin af lögreglunni. Ég var í geðrofi en var lokuð inni í fangaklefa og var alveg að missa vitið. Ég var út úr þessum heimi og tönnlaðist á því að mér hefði verið nauðgað af satan. Það lak blóð úr kynfærum mínum og á einum tímapunktinum hafði ég makað mig í blóði og saur í framan inni í fangaklefanum.“

Orðin mamman sem hana dreymdi alltaf um

Hún segir að það hafi ekki verið fyrr en hún hafi komist í hendurnar á góðum kvenkyns sálfræðingi sem hún náði tök á lífinu aftur.

Hún þakkar hluta af bata sínum stuðningi frá #MeToo hópnum á Facebook, þar hafi hún fyrst heyrt um m.a. EMDR-áfallameðferð og fengið stuðning til að sækja sér tíma reglulega til að vinna úr áföllum sem hún upplifði í æsku.

Snæfríður útskýrir að ungar konur sem hafi orðið fyrir svipuðum áföllum og hún eigi stundum erfitt með að fara í hefðbundin tólf spora samtök eins og AA-samtökin. Ástæðan sé sú að þar hitti þær oft menn sem hafi meitt þær í neyslu.

Snæfríður lýsir alvarlegu kynferðisofbeldi sem hún lenti í frá barnsaldri. …
Snæfríður lýsir alvarlegu kynferðisofbeldi sem hún lenti í frá barnsaldri. Hún er ennþá að vinna sig út úr áföllunum. mbl.is/Colourbox

„Gyða Eyjólfsdóttir, sálfræðingur hjá EMDR stofunni, hefur verið að vinna með mér í að takast á við það sem ég upplifði. Það gerum við með því að fara aftur í tímann. Ég leyfi því að koma upp sem kemur en er núna stór og sterk þegar atburðurinn verður og næ að henda pabba af mér og láta þannig reiðina taka yfir áfallið í stað þess að áfallið taki yfir líf mitt.“

Snæfríður segir að úrvinnsla áfalla á þessu sviði sé mun meiri vinna en hún hafi nokkru sinni ímyndað sér en það sé vel þess virði að leggja allt á sig sem hægt er til að losna úr viðjum ofbeldis sem hún vildi að hún hefði aldrei lent í.

„Í dag er ég í æðislegu listnámi. Ég er mamman sem mig dreymdi alltaf um að vera fyrir börnin mín. Ég er hægt og rólega að ná tökum á hugsuninni minni, en í sannleika sagt hjálpar það mér alltaf mest að fá stuðning við staðinn sem ég er á hverju sinni. Ég tel það vera samfélagslega skyldu okkar í landinu að vera til staðar fyrir alla þá sem lenda í áföllum á þessu sviði og ef einstaklingar lenda á staðnum sem ég lenti á þurfum við bara að ná til þeirra og fara síðan beint inn í rót vandans. Það er ekki möguleiki að þessir einstaklingar geti verið edrú með allan þennan sársauka. En það er til leið út úr sársaukanum og er ég án efa besta dæmið um það.“

Að lokum bendir Snæfríður á að Thelma Ásdísardóttir hjá Drekaslóð hafi einnig verið einstök að tala við á sínum tíma. Eins vil hún þakka Hringsjá og Virk fyrir veittan stuðning.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál