Man þegar hann sendi Elizu SMS

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líf Guðna Th. Jóhannessonar forseta hefur breyst frá því hann tók við embætti forseta 2016, en fyrst og fremst til góða, segir hann. Hann segist geta átt einkalíf í friði en vissulega séu viðbrigði að allir þekki hann á förnum vegi.

Í viðtali hjá Skoðanabræðrum á dögunum lýsti hann þessu svona:

„Ég get farið út í búð og er alveg látinn í friði. Vissulega koma krakkar og spyrja hvort þau megi fá sjálfu eða eitthvað þess háttar eða einhver gaukar að manni góðum orðum og segir: „Þú stendur þig vel.“ En maður veit alltaf, að það eru allir að horfa á mann en þetta er eins og að ganga nakinn niður Laugaveginn, það eru allra augu á manni.

En smám saman áttar maður sig bara á því að þetta er það líf sem maður sóttist eftir og ekki ætla ég að fara að væla yfir því og smám saman hættir maður, eða ég segi ekki hættir alveg að taka eftir því, en hættir að hugsa um það frá degi til dags að maður sé í þessari stöðu. Það er engum til góðs í þessari stöðu að vera í sífellu að hugsa um það hvað aðrir kynnu að vera að hugsa um mann.“ 

Guðni segist blessunarlega ekki geta sagt að fólk komi öðruvísi fram við hann eftir að hann varð forseti, en óhjákvæmilega hafi annirnar áhrif á þau samskipti sem hann getur haft við sína nánustu. „Það er svo mikið að gera að ég næ því miður ekki að hitta vini og ættingja eins oft og maður kynni að óska sér og því miður kemur líka fyrir að maður missir af viðburðum hjá börnunum en aftur á móti verð ég að segja að sú var kannski líka raunin á fyrri vettvangi og hjá vinnandi fólki hvar sem er í samfélaginu, þannig að ekki kveinka ég mér út af því. Maður reynir að láta þetta ganga upp,“ sagði Guðni.

Guðni rekur þessa dagana kosningaherferð fyrir endurkjör í embættið en í þættinum rifjaði hann upp augnablikið sem hann ákvað að bjóða sig fram vorið 2016, en vikurnar á undan hafði verið ákaft skorað á hann:

„Ég man þegar ég sendi Elizu SMS þar sem ég sagði: Ég held að við ættum bara að láta slag standa,“ sagði Guðni.

Bræðurnir Bergþór og Snorri Mássynir halda úti hlaðvarpinu og fjalla þar um samfélagsmál og menningu í hverri viku. Þeir fá til sín gesti af ýmsum toga og inna þá eftir skoðunum þeirra á hinu og þessu. Í þættinum með Guðna ræddu þeir í löngu viðtali allt frá áhrifavöldum á Instagram og kannabisefnum til umfjöllunar grínista um forsetann og persónulegu rútínunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál