Skæruliðar í El Salvador reyndu að ræna Lindu P.

Linda Pétursdóttir ræðir mannráns tilraunina.
Linda Pétursdóttir ræðir mannráns tilraunina. Skjáskot/Instagram

Fegurðardrottningin Linda Pétursdóttir er gestur Sölva Tryggvasonar í nýjasta hlaðvarpsþætti hans. Í viðtalinu segir Linda meðal annars sögu af því þegar reynt var að ræna henni af skæruliðum þegar hún var 19 ára gömul.

„Það voru vopnaðir öryggisverðir úti um allt og þú heyrðir bara sprengjur og læti á kvöldin,“ segir Linda þegar hún lýsir því hvernig ástandið var í landinu þegar hún kom þangað. Hún heimsótti munaðarleysingjaheimili í landinu, sem hún segir að hafi verið algjörlega ógleymanleg reynsla, enda hafi börnin þar snert hjarta hennar varanlega.

Í kjölfarið var henni boðið til hádegisverðarfundar með þáverandi forseta landins, Alfredo Cristiani, á sama tíma og það var borgarastyrjöld í gangi. Vopnaðir lífverðir fylgdu Lindu hvert fótmál og stóðu vaktina fyrir utan hótelherbergið. En eina nóttina ætluðu skæruliðarnir að láta til skarar skríða.

„Svo vakna ég bara við að það er ruðst inn í herbergið mitt um miðja nótt og rosalega skær ljós fyrir utan sem lýsa inn og ég var sótt, því að skæruliðarnir voru fyrir utan í þyrlu og ætluðu að stela Miss World og ég bara þakka fyrir að ég var með vopnaða öryggisverði sem náðu mér áður,“  segir Linda og bætir við að málinu hafi verið haldið utan við fjölmiðla af ásettu ráði.

Í viðtalinu ræða Sölvi og Linda meðal annars um viðskiptaferil Lindu, ferðalögin, ævisöguna, skrýtnustu staðina og margt margt fleira

Hlaðvarpsþáttinn má hlusta á hér fyrir neðan.

Hann er einnig aðgengilegur á streymisveitunni Spotify.

mbl.is