Gummi Ben gat ekki notað símann vegna áreitis fjölmiðla

Gummi Ben ræðir um áreitið frá fjölmiðlum eftir EM.
Gummi Ben ræðir um áreitið frá fjölmiðlum eftir EM. skjáskot/YouTube

Guðmundur Benediktsson er gestur í nýju hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Gummi Ben, sem er löngu orðinn landsþekktur fyrir lýsingar sínar á íþróttaleikjum og náði inn í hjörtu landsmanna á EM 2016 með ógleymanlegum lýsingum, segir í viðtalinu meðal annars frá áreitinu eftir að lýsingar hans þutu um internetið.

Eftir að boltinn byrjaði að rúlla var áreitið svo mikið að Gummi gat ekkert notað símann, hvorki til að senda skilaboð né tölvupósta eða hringja, þar sem innhringingar beinlínís stoppuðu ekki.

„Hann hringdi bara stanslaust og ég bara gafst upp og slökkti á honum. Fyrsta símtalið var frá Noregi, þar sem var beðið um viðtal í norska sjónvarpinu, en svo byrjaði þetta og það hringdu bara allir fjölmiðlar í heiminum,“ segir Gummi.

Í kjölfarið endaði hann svo meðal annars í einum stærsta sjónvarpsþætti Þýskalands sem viðmælandi með Robbie Williams, en segir að undarlegasta ,,giggið” hafi líklega verið þegar þýskt tæknifyrirtæki fékk hann til að halda eins konar uppistand með líkamsæfingum fyrir starfsfólkið sitt.

„Þeir voru með 200 starfsmenn á þessari sýningu og ég var með upphitun fyrir starfsfólkið, nánast að gera einhverjar líkamsæfingar og gera þau klár inn í helgina og eitthvað.“

Í viðtalinu ræða Sölvi og Gummi meðal annars um störfin í fjölmiðlum, Covid-tímabilið, nýja hlutverkið sem bíður Gumma að verða afi og margt margt fleira. 

Viðtalið er hægt að hlusta á hér fyrir neðan og einnig í streymisveitu Spotify.mbl.is