Shields 55 ára í frábæru formi

Brooke Shields.
Brooke Shields. AFP

Brooke Shields leikkona er 55 ára og heldur sér vel. Hún segist þurfa að hafa mikið fyrir því að viðhalda góðu líkamsformi. 

„Ég var aldrei grönn og var aldrei álitin sú granna. Ég er með karlmannshendur og það er jákvætt. Ég hef mjög sterka beinabyggingu og ég er sterkur persónuleiki,“ segir Shields í Zoom viðtali við themoms.com. 

Leikkonan sem hlaut heimsfrægð fyrir leik sinn í The Blue Lagoon árið 1980 hefur alltaf verið opinská varðandi þær áhyggjur af líkamsmynd sinni þegar hún var yngri. Hún hafi aldrei verið tággrönn heldur einbeitti hún sér þess í stað að vera sterk og byggja upp vöðvamassa.

„Ég þarf að leggja hart að mér til þess að vera í góðu formi. Ég er sterkari og heilbrigðari nú og mér finnst ég ekki hafa neitt að fela.“

Shields á tvær dætur sem eru 16 og 13 ára og hún gætir þess mjög að tala af virðingu um líkamann. „Ég á tvær mjög ólíkar stelpur með ólíka líkamsbyggingu og maður þarf að fara mjög varlega þegar maður talar við þær. Allt er túlkað á mismunandi hátt og nær inn að beini.“

mbl.is