Náðu að selja húsið fyrir afplánunina

Giannulli og Loughlin náðu að selja en fengu mun lægra …
Giannulli og Loughlin náðu að selja en fengu mun lægra fyrir húsið en þau vildu. AFP

Leikkonan Lori Loughlin og eiginmaður hennar Mossimo Giannulli hafa náð að selja rándýrt hús sitt í Bel Air hverfinu í Los Angeles. Húsið fór á sölu í janúar en í millitíðinni hefur fallið dómur í háskólasvindlsmálinu og Loghlin og Giannulli bæði á leið í fangelsi.

Ásett verð á eigninni var 28,7 milljónir bandaríkjadala (um 4 milljarðar íslenskra króna) í janúar en samkvæmt heimildum Variety keypti Justin Mateen, einn af stofnendum Tinder, húsið á 18 milljónir bandaríkjadala nú fyrir skömmu eða um 2,5 milljarða íslenskra króna.

Hjónin keyptu húsið árið 2015 á 14 milljónir bandaríkjadala og réðust í miklar framkvæmdir í kjölfarið. Húsið er 1114 fermetrar að stærð og í því eru sex svefnherbergi, níu baðherbergi og sundlaug má finna í garðinum.

Loughlin og Gianulli hlutu dóm í háskólasvindlsmálinu svokallaða. Þau játuðu fyrir dómara í lok maí að hafa greitt háar fjárhæðir til að koma dætrum sínum tveimur inn í háskóla. Loug­hlin þarf að sitja í fang­elsi í tvo mánuði og greiða 150 þúsund Banda­ríkja­dali í sekt. Auk þess þarf hún að inna af hendi eitt hundrað klukku­stund­ir í sam­fé­lagsþjón­ustu. Gi­annulli þarf að sitja í fang­elsi í fimm mánuði, greiða 250 þúsund Banda­ríkja­dali í sekt og inna af hendi 250 tíma af sam­fé­lagsþjón­ustu.

Giannulli og Loughlin eru á leið í fangelsi.
Giannulli og Loughlin eru á leið í fangelsi. AFP
mbl.is