Ákvörðun sem leysti allan vanda

Beatrice prinsessa og Eduardo Mapelli Mozzi á brúðkaupsdaginn.
Beatrice prinsessa og Eduardo Mapelli Mozzi á brúðkaupsdaginn. AFP

„Síðastliðinn fimmtudag var það tilkynnt af Buckinghamhöll að Beatrice, prinsessa í Bretlandi og eldri dóttir Andrésar prins, hefði gifst Edo Mapelli Mozzi fyrr um morguninn í leyni. Átti brúðkaupið sér stað í Windsor og voru um 20 gestir viðstaddir,“ skrif­ar Guðný Ósk Lax­dal í sín­um nýj­asta pistli á Smartlandi.

Upprunalega átti brúðkaupið að vera 29. maí en vegna kórónuveirufaraldursins varð það aldrei að veruleika. Myndir frá brúðkaupinu voru ekki gefnar út af höllinni fyrr en daginn eftir, til að skyggja ekki á önnur tilefni sem voru sama dag og brúðkaupið. Alls hefur höllin gefið út fjórar myndir frá brúðkaupinu, aðallega af brúðhjónunum sjálfum og einni af þeim ásamt Elísabetu drottningu og Filippusi. Myndin með Elísabetu og Filippusi sýnir að haldið var í sóttvarnarbilið. Það sem er þó áhugaverðast að enginn mynd hefur verið birt af brúðhjónunum ásamt foreldrum þeirra, eins og hefð er fyrir. 

Beatrice prinsessa ákvað að heiðra ömmu sína á brúðkaupsdaginn en kjóllinn sem hún klæddist er gamall kjóll frá Elísabetu drottningu. Kjólinn var hannaður af Norman Hartnell, sem hannaði meðal annars brúðkaupskjól Elísabetar árið 1947. Brúðkaupskjóll Beatrice sást fyrst árið 1962 þegar Elísabet klæddist honum við frumsýningu á myndinni Lawrence of Arabia. Kjólnum hefur verið örlítið breytt fyrir Beatrice og er helsti munurinn að búið er að bæta við ermum. Er þetta mjög nútímaleg ákvörðun hjá Beatrice að vera í notuðum kjól og sýnir að konungsfjölskyldan er að reyna að verða umhverfisvænni í sínum ákvörðunum. Kjóllinn var ekki eina tengingin við Elísabetu, en kórónan sem Beatrice fékk að láni er sama kóróna og Elísabet var með á sinn brúðkaupsdag. Kórónan var gerð árið 1919 og var gjöf til Maríu drottningar, ömmu Elísabetar. Hún er þekkt sem Queen Mary kórónan og var Anna prinsessa einnig með kórónuna þegar hún giftist Mark Phillips árið 1973. Elísabet hefur einnig oft sést með kórónuna á formlegu tilefnum í gegnum árin.

Einkamál föður Beatrice hafa skyggt mikið á brúðkaupið. Andrés prins hefur lent í miklum vandræðum vegna vináttu sinnar við Jeffrey Epstein, þó hann neiti að hafa þekkt manninn vel. Ýmsar ásakanir eru á hendur Andrési og er lögreglurannsókn enn í gangi. Tilkynnt var um trúlofun Beatrice og Edo í september í fyrra og í nóvember dró Andrés sig í varanlegt hlé frá konunglegum skyldum eftir vægast sagt vandræðalegt viðtal við BBC. Eftir þetta neituðu helstu sjónvarpsstöðvar í Bretlandi að sýna frá brúðkaupi Beatrice. Var því brúðkaupið minnkað og vangaveltur gengu um hvort að Andrés fengi yfirhöfuð að fylgja dóttur sinni niður altarið. Seinna meir varð covid faraldurinn til þess að brúðkaupinu var aflýst. Á þeim tíma var ekkert sagt um hvenær brúðkaupið yrði, en Edo kemur frá Ítalíu og er héraðið sem hann er frá það hérað á Ítalíu sem kom hvað verst út úr kórónuveirufaraldrinum. Var því ekki tilefni til mikils fögnuðar.

Það var þó gaman að heyra að brúðhjónin ákváðu að láta gefa sig saman í leyni með stuttum fyrirvara. Þessi ákvörðun leysti í raun allan vanda. Þannig var hægt að virða helstu sóttvarnir og láta lítið bera á viðburðinum. Elísabet og Filippus voru einu aðrir meðlimir konungsfjölskyldunnar sem voru viðstödd brúðkaupið. Nánasta fjölskylda Beatrice, foreldrar hennar og systir hafa þó væntanlega einnig verið viðstödd. Leynd brúðakaupsins gaf Beatrice þannig tækifæri að hafa föður sinn með í brúðkaupinu, en hefði brúðkaupið verið opinbert hefði það verið umdeilt. Ekki hefur verið leynilegt konunglegt brúðkaup í Bretlandi í 235 ár, en seinast var það Georg 4. sem giftist Maríu Fitzherbert í leyni árið 1785. Georg var þá prinsinn af Wales og giftist Maríu, en ástæða leyndarinnar var sú að María var kaþólsk og þáverandi konungur hafði ekki gefið leyfi fyrir hjónabandinu. Breska konungsfjölskyldan er mótmælendur og hefur það lengi verið regla að ef meðlimur giftist kaþólikka gefur sá hinn sami upp sína konunglegu tign, en þessum lögum var breytt árið 2013. Hjónaband Georgs og Maríu var seinna gert ógilt og Georg giftist Karólínu prinsessu árið 1795.

Áhugavert er að segja frá því að hér eftir er Beatrice ekki með titillinn prinsessan af York, heldur er hún núna einungis Beatrice prinsessa. Missir hún titilviðbótina sem tengir hana við föður sinn, þar sem hún “tilheyrir” honum ekki lengur. En prinsessu titillinn missir hún ekki þar sem hún er fædd prinsessa.

mbl.is