Vann sem ung stelpa á bar fyrir hermenn á Falklandseyjum

Kristín Sif Björgvinsdóttir er viðmælandi Sölva.
Kristín Sif Björgvinsdóttir er viðmælandi Sölva.

Kristín Sif Björgvinsdóttir, útvarpskona og íþróttakona er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Þessi magnaða kona hefur upplifað ótrúlega hluti á sinni skömmu ævi. Eftir að hafa misst manninn sinn á hræðilegan hátt hefur Kristín komist á verðlaunapall á Norðurlandamóti í boxi og verið valinn iðkandi ársins í Crossfit Reykjavík. Sem ung kona var hún alltaf ólík stelpunum í kringum sig og prófaði að æfa bæði box og ólympískar lyftingar, sem á þeim tíma þótti ekki eðlilegt fyrir unga stelpu.

„Ég var kölluð Caterpillar jarðýtan, en ég eiginlega hætti af því að það var gert svo mikið grín að mér. Ég var mjög sterk, en með rosalega mikla minnimáttarkennd…..Ég fór í boxtíma og það var engin stelpa og ég var bara látin sippa úti í horni og var frekar fúl og mætti ekki aftur,“ segir Kristín, sem fann ástríðuna fyrir boxinu síðar og hefur nú sem fyrr segir komist á verðlaunapall á Norðurlandamóti í íþróttinni.

Kristín ferðaðist um heiminn áður en hún varð tvítug og vann meðal annars sem verktaki í sláturhúsi. Hún segir að örlögin hafi einhvern vegin valdið því að henni hafi verið hent beint út í djúpu laugina í lífinu strax þegar hún var ung.

„Ég var svona farandsverkamaður og ég hef farið á alls konar skrýtna staði. Ég fór til dæmis til Falklandseyja þrisvar sinnum og Suður-Ameríku og vann meðal annars í Chile. Á Falklandseyjum var ekki alveg nóg fyrir mig að vinna við að þjálfa fólk í sláturhúsi, svo ég fékk mér líka vinnu á herbar.“ 

Kristín segir að sér hafi strax sem ungri konu verið hent út í djúpu Laugina í lífinu og hún segist þakklát fyrir allt sem hún hefur upplifað.

Kristín Sif hafði búið með unnusta sínum og barnsföður Brynjari Berg Guðmundssyni í nærri tólf ár þegar hún kom að honum látnum á heimili þeirra. Hann hafði þá fallið fyrir eigin hendi.

Kristín Sif ákvað strax að halda lífi sínu áfram fyrir sig og börnin sín og hefur hvern einasta dag eftir þetta gert sitt allra besta til að velja að sjá það góða í lífinu. Hún komst nýverið á verðlaunapall á Norðurlandamóti í boxi og var valinn iðkandi ársins í Crossfit Reykjavík.

Í viðtalinu ræða Sölvi og Kristín um ævintýrin á Falklandseyjum, ástríðuna fyrir boxinu, mikilvægi þess að velja rétt viðhorf í lífinu og margt margt fleira.

Viðtal Sölva við Kristínu í heild má sjá hér að neðan:

 

mbl.is