Stunduðu kynlíf í verki Ragnars Kjartanssonar

Anna Marsibil Clausen er höfundur þáttanna Ástarsögur.
Anna Marsibil Clausen er höfundur þáttanna Ástarsögur.

Sambandsslit, ást á skátamóti og kynlífsmyndband eru meðal þess sem viðmælendur segja frá í nýrri þáttaröð Rásar 1, Ástarsögur. Þættirnir innihalda sögur af ástinni í ýmsum myndum, bæði rómantískar og platónskar og allt þar á milli. Umsjónarmaður þáttanna, Anna Marsibil Clausen, jafnan kölluð Anna Marsý, segir þættina afar persónulega í eðli sínu.

„Sumar sögurnar eru svo fyndnar og fallegar að mig verkjaði í kinnarnar í viðtölunum. Önnur viðtöl gátu síðan verið nokkuð erfið,” segir Anna Marsý. 

„Oftast gat ég brynjað mig tilfinningalega en í eitt skipti var ég alveg óundirbúin. Þá hafði ég boðið ungum manni að segja frá því hvernig hann bjargaði lífi föður síns en í því sem við ræddum saman þróaðist sagan í allt aðra átt. Að endingu sátum við inni í Stúdíó Núll uppi í útvarpshúsi og grétum saman.”

Hún segir augnablikið þó hafa verið fallegt. Hún er afar þakklát þeim sem sögðu sögurnar sínar og hleyptu hlustendum þannig inn á gafl.

„Meira að segja rúmgafl í sumum tilvikum! Eins og parið sem segir söguna af því þegar það stundaði kynlíf í verki Ragnars Kjartanssonar,” segir Anna Marsý. 

„Við erum auðvitað flest áhugasöm eða forvitin um náungann en ég vona að þessi þáttaröð skilji líka eitthvað meira eftir. Eitthvað örlítið væmið til að orna sér við eða jafnvel eitthvað sem fær okkur til að skoða samband okkar við ástina í daglegu lífi.”

Sumarefni í hlaðvarpi

Anna Marsý útfærði þættina sérstaklega fyrir hlaðvarpsveitur, svo unnendur ástarinnar geti notið þeirra í ólínulegri dagskrá.

„Í útvarpinu eru tvær sögur í hverjum þætti en í hlaðvarpinu eru þær settar fram ein í einu. Sögurnar eru flestar aðeins um 15 mínútur, svo það er hægt að hlusta á eina í senn yfir uppvaskinu eða í strætó eða þá háma í sig nokkrar sögur á göngutúr í góðu veðri. Dagskrárvaldið er þannig alfarið í höndum hlustandans. Ástin er ofarlega í hugum margra á sumrin, þegar dagarnir eru langir og kvöldin rósrauð, svo þetta er í raun hið fullkomna sumarefni.” 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál