Foreldrar kölluðu: „Stoppið þennan negra“

Guðlaugur Victor Pálsson.
Guðlaugur Victor Pálsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður í fótbolta er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Guðlaugur fékk samning hjá Liverpool aðeins 16 ára gamall og var einn efnilegasti leikmaður sem sést hafði lengi á Íslandi. 

En æska hans var erfiðari en hjá flestum. Mikil fíkn beggja foreldra olli því að þegar Guðlaugur átti að vera að setja alla athyglina á fótboltann var hann í raun í fullri vinnu við að passa að móðir hans myndi ekki fyrirfara sér og að yngri systir hans væri í lagi. Sjálfur hrundi hann fyrir 7 árum og endaði inni á geðdeild. Í dag er hann orðinn fastamaður í landsliðinu og hefur verið fyrirliði síðustu tveggja liða sem hann hefur spilað með. Guðlaugur segist oft hafa lent í furðulegum hlutum sem hörundsdökkt barn og unglingur á Íslandi:

„Mikið í fótboltanum þegar ég var yngri, foreldrar á hliðarlínunni að segja alls konar hluti [...] Það kom oft fyrir að það var öskrað inn á völlinn: „Stoppið þennan negra“ og svoleiðis [...] foreldrar leikmanna í hinum liðunum,“ segir Guðlaugur í viðtalinu við Sölva.

„Ég var bara annar af tveimur dökkum einstaklingum í skólanum lengi vel og jú jú […] það kom alveg mörgum sinnum fyrir að það voru sagðir hlutir við mann,“ segir hann og bætir við að þetta sé auðvitað bara fáfræði og hann hafi lært með tímanum að taka svona hluti ekki persónulega.

Guðlaugur er í mjög litlum samskiptum við pabba sinn, en fyrir ekki svo löngu hafði hann samband við hann og spurði hann hvernig það hefði verið að búa á Íslandi sem hörundsdökkur maður fyrir 25 árum.

„Það var „brutal“ á þessum tíma sagði hann, sérstaklega til að byrja með.“

Guðlaugur Victor hefur á undanförnum árum blómstrað á vellinum og er núna orðinn fastamaður í landsliðinu og hefur verið í byrjunarliðinu í undanförnum leikjum. Hann er sáttur í eigin skinni í dag og lítur ekki til baka þrátt fyrir að oft hafi mikið gengið á.

„Ég sé ekki eftir neinu, af því að ef ég lít til baka yfir öll þessi ár, þá er ég sá sem ég er í dag út af mínu lífi. Ég get ekki séð eftir hlutum af því að ég er ánægður í eigin skinni í dag,“ segir Guðlaugur Victor.

Í viðtalinu fara hann og Sölvi um víðan völl og ræða um hæðirnar, lægðirnar, rasisma, drauminn um að fara á stórmót með Íslandi og margt margt fleira.

Viðtalið í heild má sjá hér að neðan:mbl.is