Deyfði mig í spilavítum og með áfengi

Guðlaugur Victor Pálsson er gestur Sölva Tryggvasonar.
Guðlaugur Victor Pálsson er gestur Sölva Tryggvasonar. mbl.is/Arnþór

Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður í fótbolta, er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Guðlaugur átti erfiðari æsku en flestir, þar sem báðir foreldrar hans glímdu við mikla fíknisjúkdóma.

Sjálfur hrundi hann fyrir sjö árum og endaði inni á geðdeild. Í dag er hann orðinn fastamadur í landsliðinu og hefur verið fyrirliði síðustu tveggja liða sem hann hefur spilað með. Guðlaugur var kominn á verulega slæman stað fyrir rúmum sex árum, þegar hann endaði í meðferð á geðdeild Landspítalans með sjálfsvígshugsanir:

„Ég var búinn að vera að díla við mikla djöfla sjálfur og ég leitaði mér hjálpar um áramótin 2013/2014 á geðdeildinni á Landspítalanum og tók mér frí frá boltanum í sex vikur þegar ég var í meðferð þar inni.“

Guðlaugur er þakklátur fyrir að hafa leitað sér hjálpar, en líður þegar hann horfir til baka eins og hann hafi enn verið í ákveðinni afneitun:

„Mér finnst aðeins eins og þetta hafi ekki verið alveg 100% heiðarlegt hjá mér. Aðeins eins og ég hafi verið að flýja eitthvað með því að fara þarna inn, en ekki misskilja mig, ég er mjög þakklátur fyrir að hafa farið inn á geðdeildina og það gaf mér hjálp, en ég var ennþá í smá afneitun ... Í dag sit ég hérna með þér og er á allt öðrum stað. Það kom þarna hálft ár eftir meðferðina á geðdeildinni og ég var enn að sukka og „gambla“ ... Ég var búinn að brenna allar brýr að baki mér gjörsamlega ... og það vildi enginn snerta mig í fótboltaheiminum.

Ég var kannski ekki jafntilbúinn og ég hélt og ég var enn að deyfa mig, hvort sem það var í spílavítum eða í drykkjunni og ég var enn að lifa í þessum óheiðarleika,“ segir Guðlaugur Victor.

Hann hefur sem fyrr segir gengið í gegnum meira en flestir jafnaldrar hans, þar sem hann ólst upp við mjög erfiðar aðstæður. Báðir foreldrar hans glímdu við mikla fíkn og Guðlaugur var í raun allt í senn eiginmaður, sonur og pabbi systur sinnar sem unglingur, þegar hann var að reyna að einbeita sér að knattspyrnunni.

Í dag segist hann ekki sjá eftir neinu og þykir mjög vænt um móður sína, þó að hún glími enn við mikla erfiðleika.

„Mamma er mamma, mamma er Ásta, en fíkillinn er fíkillinn, þetta er ekki mamma mín,“ segir Guðlaugur og bætir við:

„Ég sé ekki eftir neinu, af því að ef ég lít til baka yfir öll þessi ár, þá er ég sá sem ég er í dag út af mínu lífi. Ég get ekki séð eftir hlutum af því að ég er ánægður í eigin skinni í dag.“

Í viðtalinu fara þeir Sölvi um víðan völl og ræða um hæðirnar, lægðirnar, rasisma, drauminn um að fara á stórmót með Íslandi og margt margt fleira.

Viðtalið í heild má sjá hér að neðan:mbl.is