Hætti að drekka og hætti á Instagram

Guðlaugur Victor Pálsson.
Guðlaugur Victor Pálsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður í fótbolta, er gestur í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Líf þessa unga manns hefur alls ekki alltaf verið dans á rósum. Uppeldi hans var skrýtið þar sem báðir foreldrar hans glímdu við mikla fíkn og afleiðingarnar af því áttu eftir að hafa mikil áhrif á Guðlaug. Eftir að hafa byrgt vandamálin inni um langt skeið fóru brestir að koma í ljós og fyrir sjö árum hrundi hann og endaði inni á geðdeild. Gulli, eins og hann er kallaður, segist skilja bresti sína mun betur eftir að hann varð sjálfur pabbi.

Sölvi Tryggvason er byrjaður með hlaðvarp, Podkast með Sölva Tryggva.
Sölvi Tryggvason er byrjaður með hlaðvarp, Podkast með Sölva Tryggva.

„Nú er ég orðinn pabbi og þá sé ég enn betur hvað það er „crazy“ hve uppeldi mótar mann mikið,“ segir Guðlaugur sem viðurkennir að samband hans við mömmu sína sé alltaf frekar erfitt, en hann hefur lært að gera greinarmun á mömmu sinni sem manneskju og svo fíkninni sem hún glímir við.

„Hún er bara á mjög slæmum stað og á erfitt með að díla við fíknina. En svo er það annað. Mamma er mamma, mamma er Ásta, en fíkillinn er fíkillinn, þetta er ekki mamma mín. Það er svo erfitt að sleppa þessum tökum af því að þetta er mamma mín.“

Eins og oft gerist með einstaklinga sem alast upp við aðstæður sem þessar hefur Gulli sjálfur verið í basli með fíknir og deyfði sig meðal annars með því að drekka áfengi og fara í spilavíti. Hann er ekki feiminn við að tala um að hafa meira að segja þurfa að hætta á samfélagsmiðlum í talsverðan tíma þar sem það var orðið að þráhyggju. 

„Ég hætti á Instagram af því að það var bara að fara með mig, þráhyggjan bara tók yfir. Ég er ekkert feiminn við að tala um það að ég var án Instagram í tvö og hálft ár. Ég var nýbúinn að eignast barn og það var partur af þessu líka, en síðan var það bara þráhyggjan sem fylgdi, hvort sem það voru „like“ eða „followerar“ eða eitthvað.“

Hann segir að síðasta fylleríið sitt hafi orðið vendipunktur í lífi sínu. 

„Það var eftir síðasta fylleríið mitt, þar sem ég fór í „blackout“ og gerði einhvern skandal. Fósturpabbi minn tók mig á tal, umboðsmaðurinn minn tók mig á tal, vinir mínir tóku mig á tal og ég var bara algjörlega búinn að brenna allar brýr.“

Eftir þetta hafi hann áttað sig á því að ferillinn í fótboltanum yrði ekki lengri ef hann gerði ekkert í málunum. Þarna ákvað Guðlaugur að hætta að drekka og leita sér enn frekari hjálpar og fór meðal annars í AA-samtökin. Síðan þá hefur hann ekki snert áfengi og það hefur haldist í hendur við hans bestu ár í fótboltanum, enda er hann orðinn  fastamaður í landsliðinu og hefur verið fyrirliði síðustu tveggja liða sem hann hefur spilað með. 

„Ég sé ekki eftir neinu af því að ef ég lít til baka yfir öll þessi ár, þá er ég sá sem ég er í dag út af mínu lífi. Ég get ekki séð eftir hlutum af því að ég er ánægður í eigin skinni í dag.“

Í viðtalinu fara þeir Sölvi um víðan völl og ræða um hæðirnar, lægðirnar, rasisma, drauminn um að fara á stórmót með Íslandi og margt margt fleira.





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál