Frægir í hár saman

Kanye West hrifsar hljóðnemann af Swift á verðlaunahátíð.
Kanye West hrifsar hljóðnemann af Swift á verðlaunahátíð. GARY HERSHORN

Það eru ekki allir vinir í skóginum og það er hverju orði sannara í heimi þeirra ríku og frægu. Vandamál þeirra geta veitt okkur hinum kærkomna hvíld frá amstri hversdagsins og minna okkur um leið á að öll erum við mannleg. Af því tilefni tók Smartlandið saman eftirminnilegustu deilur síðustu ára.  

Martha Stewart og Gwyneth Paltrow

Martha Stewart hefur verið að skjóta fast á Gwyneth Paltrow allt frá árinu 2013. Stewart er sögð hafa verið afar pirruð út í Paltrow fyrir að hasla sér völl innan lífsstílsgeirans en Stewart hafði hingað til alltaf ráðið þar ríkjum. Í viðtali við Porter Magazine 2014 sagði Stewart „Hún þarf að þegja. Hún er kvikmyndastjarna. Ef hún væri örugg með sig sem leikkona væri hún ekki að reyna að verða Martha Stewart.“ Þá hefur Stewart einnig skrifað greinar um bökur undir titlinum Conscious Coupling og vísar þar með í frægan skilnað Paltrow og Chris Martin.

Martha Stewart og Gwyneth Paltrow fóru í hart.
Martha Stewart og Gwyneth Paltrow fóru í hart. Samsett mynd

 

Taylor Swift og svo margir!

Taylor Swift lætur aldrei vaða yfir sig og hefur eldað grátt silfur með mörgum. Frægast er þegar Kanye West ruddist upp á svið þegar hún tók á móti verðlaunum fyrir besta tónlistarmyndbandið með konu. West var á því að Beyonce hefði átt að vinna. Þetta var bara upphafið því síðar átti West eftir að nota nafn hennar í laginu Famous og vísa í hana þar sem tík. Kim Kardashian lak upptöku af símtali Swift til West þar sem hann bað um leyfi um að nota nafn hennar og hún samþykkti. Hann minntist þó ekki á að nota nafn hennar í þessu neikvæða samhengi.

Taylor Swift hefur líka átt í útistöðum við stjörnur á borð við Scooter Braun, Nicki Minaj og Katy Perry. Vinátta Perry og Swift beið skipbrot þegar dansarar Swift yfirgáfu hana og gengu til liðs við Perry. Þær ákváðu að taka á málunum með mjög óbeinum hætti og skutu á hvor aðra í lögunum Bad Blood (Swift) og Swish Swish (Perry). 

Katy Perry og Taylor Swift voru miklar óvinkonur um skeið.
Katy Perry og Taylor Swift voru miklar óvinkonur um skeið. Samsett mynd

 

Stella McCartney og Beckham-hjónin

Victoria Beckham og Stella McCartney eiga í harðri samkeppni í tískuheiminum. Steininn tók úr þegar Beckham stal barnfóstru McCartney. Báðar eru þær fjögurra barna mæður í mjög krefjandi störfum. Missirinn að góðri barnfóstru er því skiljanlega mikill og kemur höggi á McCartney. McCartney er sögð hafa tekið því afar illa og afturkallað boð þeirra í veislu sem hún var að halda auk þess sem þær hættu um tíma að fylgja hvor annarri á samfélagsmiðlum.

Stella McCartney varð ósátt út í David og Victoriu Beckham.
Stella McCartney varð ósátt út í David og Victoriu Beckham. Ljósmynd/samsett

Madonna og Elton John

Madonna og Elton John hafa lengi átt í erjum sem eiga rætur að rekja til þess þegar hann kallaði James Bond-lag hennar Die Another Day versta Bond-lag allra tíma. Þá hefur hann líka sakað hana reglulega um að „mæma“, til að mynda á Super Bowl 2012. Á síðasta ári kallaði hann Madonnu ógeðfellda og illkvittna fyrir að tala illa um Lady Gaga. Pirringurinn er að einhverju leyti talinn stafa af því að Madonna fékk Golden Globe fyrir lagið Masterpiece úr myndinni W.E. og hafði betur en Elton John sem einnig var tilnefndur í sama flokki fyrir lagið Hello, Hello úr teiknimyndinni Gnomeo og Juliet. 

Madonna og Elton eru sögð vera
Madonna og Elton eru sögð vera "frenemies". Samsett mynd

Hertogaynjurnar Katrín og Meghan

Meghan Markle og Katrín hertogynja af Cambridge virðast aldrei hafa náð vel saman. Þrálátur orðrómur er um að þær hafi átt í erjum yfir því hvort Karlotta prinsessa ætti að klæðast sokkabuxum í brúðkaupi Meghan og Harry eða ekki. Á Katrín að hafa brostið í grát. Þá á Meghan að vera ósátt við að komið sé öðruvísi fram við hana innan hallarinnar og á hún að hafa rifist mjög við starfsfólk Katrínar þegar það varð ekki við óskum hennar um þjónustu. Steininn tók úr þegar hjónin Harry og Meghan ákváðu að segja sig úr konungsfjölskyldunni rétt fyrir 38 ára afmæli Katrínar. Fréttirnar vörpuðu óneitanlega skugga á afmælisdag hertogaynjunnar.

Meghan Markle er sögð hafa stuðað Katrínu hertogaynju og rifist …
Meghan Markle er sögð hafa stuðað Katrínu hertogaynju og rifist við starfsfólk hennar. AFP

Coleen Rooney og Rebekah Vardy

Fótboltaeiginkonurnar Coleen Rooney og Rebekah Vardy talast ekki við eftir að Rooney sakaði Vardy um að leka sögum um hana í fjölmiðla. Vardy hefur neitað öllum ásökunum og höfðar meiðyrðamál gegn Rooney. Vardy segist hafa upplifað hræðilega tíma eftir ásakanirnar og hefur þurft að leggjast inn á spítala vegna kvíðakasta.

Fótboltaeiginkonurnar Coleen Rooney og Rebekah Vardy.
Fótboltaeiginkonurnar Coleen Rooney og Rebekah Vardy. Samsett mynd

Justin Bieber og Orlando Bloom

Orlando Bloom kýldi Justin Bieber á veitingastað á spænsku eyjunni Ibiza. Bieber er sagður hafa átt í ástarsambandi við Miröndu Kerr sem var á þeim tíma gift Orlando Bloom. Stuttu síðar hættu Bloom og Kerr saman.

Bloom og Bieber vildu sömu konuna.
Bloom og Bieber vildu sömu konuna. Samsett mynd
mbl.is