„Björgólfur Thor gaf mér sérsaumað leðurvesti“

Björgvin Páll Gústavsson og Sölvi Tryggvason.
Björgvin Páll Gústavsson og Sölvi Tryggvason. mbl.is/Elsa Katrín Ólafsdóttir

Hand­bolta­landsliðsmaður­inn Björg­vin Páll Gúst­avs­son er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Sölvi skrifaði fyrir ári uppgjörsbók Björgvins, þar sem Björgvin lýsti andlegu og líkamlegu hruni sínu, þar sem hann meðal annars fékk ofsakvíðakast á miðju stórmóti í handbolta. Í viðtalinu ræða þeir Sölvi allt milli himins og jarðar og fara meðal annars yfir þá þjóðhátíð sem átti sér stað eftir silfurverðlaunin á Ólympíuleikunum 2008. 

„Það sameinast allir á svona augnablikum. Sem íslenskur íþróttamaður elst maður upp við það að vakna á næturnar til að horfa á leiki í Kumamoto, þannig að maður veit hvað þetta ristir djúpt í þjóðarsálina. Svo þegar við náum árangri eru allir með. Þetta var aðeins erfiðara í Peking, af því það var svo langt að fara,“ segir Björgvin Páll og bætir við að þó hafi talsvert margir Íslendingar komið út til að sjá undanúrslitin og úrslitin og eftir að silfrið var komið í hús var haldið mikið teiti, þar sem Björgvin Páll hitti meðal annars Björgólf Thor Björgólfsson, sem hafði komið beint til Peking úr mótorhjólaferð í Bandaríkjunum.

„Eftir mótið voru allir að fagna saman og það var gott teiti og þá var hann í leðurvesti sem mér fannst mjög töff, sem var með skjaldarmerkinu aftan á. Hann er í þessu vesti og ég segi við hann að mér finnist það flott og hann sagði mér að máta það og gaf mér það svo og ég á þetta vesti ennþá. Hann hafði komið beint frá Bandaríkjunum eftir eitthvert mótorhjólaflakk og þetta er vesti frá Boston sem hann lét sérsauma áður en hann kom til Peking.“ 

Sölvi og Björgvin skrifuðu sem fyrr segir uppgjörsbók Björgvins Páls, sem kom út síðustu jól, þar sem Björgvin ræddi mikið um erfiða barnæsku sína og hve litlu munaði að hann hefði endað á verulega slæmum stað. Björgvin Páll hefur síðastliðið ár unnið að því að hanna leiðir til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar og fara fara inn í grunnskóla landsins og hefur fengið Kára Stefánsson í lið með sér.

„Hann er svona minn stuðningsaðili í þessu öllu saman. Velferðarsjóður barna kemur að þessu og konan hans er með yfirumsjón yfir því. Þegar Valgerður og Kári hafa trú á þér gefur það þér ansi mikinn kraft, þar sem þau eru miklar fyrirmyndir fyrir mér. Þannig að það er ekkert sem stoppar mig í þessu núna. Það er bara spurning um hversu stórt þetta verkefni verður í kerfinu. Ég er búinn að funda með menntamálaráðherra og þetta er miklu meira en bara ég að blaðra um mína forsögu. Þetta er verkefni sem ég held að sé mjög mikilvægt fyrir krakkana. Við vorum að fá niðurstöður úr Pisa-könnunum fyrir Covid sem voru ekki góðar og svo skellur Covid á og þá gleymdust börnin svolítið og það eiga eftir að eiga sér stað afleiðingar af því.“

Björgvin segir að Kári sé með risastórt hjarta og það gefi sér byr undir báða vængi að fá aðstoð frá honum. 

Í viðtalinu fara Sölvi og Björgvin yfir sögur í kringum landsliðið, barnæskuna, leiðina út úr andlega hruninu og margt fleira. 

Hér er hægt að hlusta á þáttinn á Spotify: 

mbl.is