Ástin og verkefni bíða í annarri heimsálfu

Unnur Eggertsdóttir leikkona sér fram á að vera á Íslandi …
Unnur Eggertsdóttir leikkona sér fram á að vera á Íslandi næstu mánuði. Ljósmynd/Aðsend

Unnur Eggertsdóttir leikkona býr og starfar í Los Angeles. Hún ætlaði að koma heim til Íslands í langt sumarfrí. Hún sér ekki fram á að fara aftur til Bandaríkjanna næstu mánuðina vegna ferðabanns Bandaríkjaforseta. Unnur er þó bjartsýn og er jákvæð þrátt fyrir að atvinnuvettvangur hennar og ástin bíða í annarri heimsálfu.

„Ég er búin að búa í Los Angeles síðustu fjögur ár og búin að vera vinna þar og fengið fullt að gera. Ég var bókuð í slatta af verkefnum sem fóru svo í pásu út af COVID,“ segir Unnur sem kom til landsins í byrjun júní. „Áður en ég kom hingað var ég búin að tala við lögfræðinginn minn og hann var bara mjög bjartsýnn á að ég gæti farið aftur út í júlí,“ segir Unnur en þá leit út fyrir að kúrfan myndi fletjast út í Kaliforníu. Ástandið hefur ekki skánað mikið og segir Unnur vonast til þess að nýr forseti verði kosin eftir nokkra mánuði sem muni breyta reglunum og ná betri tökum á veirunni. 

Unnur er með atvinnuleyfi sem leikkona og setti það enn meiri pressu á hana að næla sér í hlutverk en hún má aðeins starfa í skemmtanaiðnaðinum. Hún segir það hafa verið mikið hark fyrst eftir útskrift en eitt verkefni leiðir af sér annað og hefur Unnur verið dugleg að mynda sér tengsl og hefur haft nóg að gera á síðustu árum.

„Auðvitað eru verkefnin misjöfn. Þar sem þetta er Hollywood er mjög mikið af peningum í umferð og þá eru verkefnin betur borguð. Lítil verkefni í nokkra klukkutíma getur bjargað leigunni þann mánuðinn,“ segir Unnur sem hefur meðal annars verið í sjónvarps- og kvikmyndaverkefnum auk þess sem hún hefur verið að talsetja. Þegar tökur féllu niður vegna kórónuveirunnar gat hún haldið áfram að talsetja þar sem notast var við einstaklingsstúdíó í stað þess að hafa marga inni í sama stúdíóinu.

Hún er þakklát hvernig henni hefur vegnað og vonar að hún geti haldið áfram þar sem frá var horfið eftir nokkra mánuði. Hún ekki stressuð yfir því að komast ekki strax til Bandaríkjanna þar sem lítið er um kvikmyndatökur núna. Unnur er dugleg að minna á sig í Hollywood þrátt fyrir að vera stödd í annarri heimsálfu og segist vera með fullt Excel-skjal yfir tengiliði sem hún heldur samskiptum við. 

Er eitthvað jákvætt við það að vera á Íslandi?

„Það er bara fullt jákvætt. Ég fæ loksins að eyða tíma með vinum og fjölskyldu. Þegar ég kem heim í kannski tvær vikur er alltaf brjálað prógramm en núna gefst meiri tími að til að hanga. Svo fékk ég lítið hlutverk í Systraböndum sem Silja Hauksdóttir leikstýrir. Það er mjög gaman að komast inn í framleiðslu á Íslandi.“

Kærasti Unnar er hálfur Ameríkani og hálfur Ítali og býr í Bandaríkjunum. Þau láta ekki fjarlægðina þessa mánuðina á sig fá en hann tekur það á sig að fljúga fram og til baka á meðan Unnur er í ferðabanni.

„Hann er að fljúga fram og til baka til Íslands. Hann kom í þrjár vikur í júlí. Hann er svo að koma aftur bráðum. Við vorum saman í útgöngubanni í Los Angeles. Fyrst að við lifðum það af að vera ofan í hvort öðru allan sólahringinn í þrjá mánuði þá lifum við þetta af. Við höfum engar áhyggjur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál