Ingó veðurguð var blindfullur aleinn á virkum dögum

Ingó Veðurguð er gestur Sölva Tryggvasonar.
Ingó Veðurguð er gestur Sölva Tryggvasonar. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Ingólfur Þórarinsson, sem flestir þekkja sem Ingó veðurguð, er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Ingó, sem hefur líklega verið duglegasti „giggari“ Íslands síðasta áratuginn, þar sem hann hefur spilað í þúsundum teita, brúðkaupa og tónleika, er á ákveðnum tímamótum.

Í viðtalinu við Sölva segist Ingó vera kominn á þann stað að hann vilji gefa listamanninum í sér meira pláss, enda getur það tekið talsverða orku að spila endalaust í partíum. Hann tók tímabil þar sem hann þurfti að deyfa sjálfan sig þegar hann skildi ekki hvað var að gerast.

„Ég var kannski búinn að gigga og ég var einhleypur og mér fannst ég gjörsamlega aleinn og það var svo þung tilfinning að ég réð oft engan veginn við sjálfan mig og fór þá bara og hellti vodka í tvö eða þrjú glös og sturtaði í mig og fór í leigubíl og var kannski bara einn á þriðjudegi blindfullur að rölta á milli staða og panta skot. En ég var bara gjörsamlega einn,“ segir Ingó, sem segist hafa deyft sig mikið á tímabili.

„Svo komu alveg dagar þar sem ég vaknaði kannski bara og byrjaði daginn á því að fara á einhvern hótelbar og sturta í mig nokkrum bjórum og það var mikið minnisleysi sem fylgdi þessu tímabili.

Ég var þjakaður af meðvirkni og einmanaleika og þegar ég fór að taka á þessum hlutum, þá allt í einu hverfur það að ég þyrfti að fara í einhverja fíknihegðun og það er góður staður sem ég er að vinna með núna ... En þetta var svakalegt á tímabili og þegar ég sá Shallow-myndina (A Star is Born) með Bradley Cooper, þar sem hann var bara aleinn eitthvað að hella í sig, þetta var eiginlega bara nákvæmlega þannig.“

Ingó er í dag búinn að vinna mikið í fíknihegðun sinni og segist vera á mjög góðum stað og sé bæði þakklátur og sáttur. 

Í viðtalinu ræða Ingó og Sölvi um ferilinn í tónlistinni, skrítnustu uppákomurnar, sambandið við bróður Ingós og margt margt fleira

Viðtalið í heild má sjá hér að neðan:mbl.is