Tapaði risaupphæðum í fjárhættuspilum

Ingólfur Þórarinsson.
Ingólfur Þórarinsson. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ingólfur Þórarinsson, sem flestir þekkja sem Ingó Veðurguð er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Ingó, sem hefur líklega verið duglegasti „giggari“ Íslands síðasta áratuginn, þar sem hann hefur spilað í þúsundum teita, brúðkaupa og tónleika er á ákveðnum tímamótum. Í viðtalinu við Sölva segir Ingó frá skrýtnustu „giggunum.“

„Ég var einu sinni bókaður í fimmtugsafmæli á veitingastað og á efri hæðinni var salur, en það var enginn í salnum. Þannig að ég fer í afgreiðsluna á veitingastaðnum og þar kannast enginn við að salurinn hafi verið bókaður, þannig að ég ætla bara að fara, þegar það er kallað í mig innan úr miðjum veitingastaðnum. „Ingó..við erum hér“. Þá sitja hjón inni á miðjum veitingastaðnum og þá hafði maðurinn bara viljað koma konunni á óvart, en þau voru bara tvö úti að borða á venjulegum veitingastað innan um annað fólk. Í dag hefði ég bara sagt: „Heyrðu gamli, þetta kostar 10 milljónir eða ég er farinn heim.“ En það var búið að semja um þetta, þannig að ég söng þarna bara fyrir þau tvö á meðan þau voru að borða humarsúpu innan um hina gestina. Og það er ekki eins og ég hafi verið að syngja einhver meistaraverk, ég var bara beðinn um taka einhverja íslenska blöðrusöngva eins og í útilegu inni á fínum veitingastað á meðan fólk var að borða humarsúpu. Þetta var eiginlega það skrýtið að þetta varð listrænn gjörningur.”

Í viðtalinu segir Ingó einnig frá því hvernig hann vann sig úr því ástandi að vera stanslaust að deyfa sig. 

„Sagan mín þegar kemur að þessu er eiginlega bara alveg grilluð, af því að svo las ég mig eiginlega bara til á þann stað að ég tók pásu frá áfenginu. Ég las bara og las og hlustaði á podcöst og pældi í fíknihegðun af því að ég hef oft farið í hana. Eins og þegar ég hætti að drekka, þá tapaði ég risastórum upphæðum í fjárhættuspilum. Ég hef leitað í fíknihegðun í gegnum tíðina, en mig langaði að vita hvaðan þetta kæmi. Ég fann að ég var ekki vellíðan og ég las og pældi og það er ekki fyrr en ég fer í kjarnann á sjálfum mér frekar nýlega að ég finn hvar vellíðanin mín raunverulega er, sem gerir það auðveldara að hætta. Ég var þjakaður af meðvirkni og einmannaleika og þegar ég fór að taka á þessum hlutum, þá allt í einu hverfur það að ég þyrfti að fara í einhverja fíknihegðun og það er góður staður sem ég er að vinna með núna.“

Í viðtalinu ræða Ingó og Sölvi um ferilinn í tónlistinni, skrýtnustu uppákomurnar, sambandið við bróður Ingó og margt margt fleira.

Hér er hægt að hlusta á þáttinn á Spotify: 

mbl.is