Solla Eiríks lét Ben Stiller ekki spila með sig

Solla Eiríks lét Ben Stiller ekki hlaupa með sig í …
Solla Eiríks lét Ben Stiller ekki hlaupa með sig í gönur. mbl.is/Árni Sæberg

Sólveig Eiríksdóttir eða Solla er löngu orðin þjóðargersemi. Hún er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Ferill þessarar mögnuðu konu spannar áratugi og ótrúlega fjölbreytt svið. Í viðtalinu ræða þau Sölvi um feril Sollu og fara yfir alls kyns skemmtileg tímabil, eins og þegar Solla eldaði fyrir Ben Stiller í tvo mánuði.

„Hann var að frá fimm á morgnana langt fram á kvöld, þannig að hann var á rosalega strangri fæðu til að hafa orku í þetta allt. Á morgnana vildi hann hálfan lítra af grænum djús sem var svo basískur að meira að segja mér fannst hann ansi hressandi!“

Solla segir að aðstoðarfólkið hans hafi verið á nálum yfir því að allt væri eins og það ætti að vera.

„Ég átti að gera fjórtán rétti á hverjum degi með næringarinnihaldi og svo átti hann að velja úr og það voru einhverjir aðrir búnir að vera að elda fyrir hann og hann þótti eitthvað erfiður af því að hann vildi allar máltíðir næringarútreiknaðar. Ef það á að næringarútreikna fjórtán máltíðir á dag, þá tekur það fimm sinnum lengri tíma en að elda matinn. En af því að ég er orðin miðaldra og meira sama, þá gafst ég upp á að næringarútreikna eftir fyrsta daginn. Ég hugsaði að annaðhvort vildi hann útreikninga eða mat og ákvað að skrifa bara á umbúðirnar utan um matinn: „Stútfullt af hamingju og ást“ og það fóru allir á taugum yfir því að hann myndi ekki kunna að meta þetta. Ég sagði þeim að láta manninn bara fá þetta og annars yrði hann bara að fá einhvern annan. Honum fannst þetta svo gaman að hann hlakkaði alltaf til að sjá hvað ég skrifaði á matinn á hverjum degi.“

Í viðtalinu ræða Sölvi og Solla um feril Sollu í viðskiptum, bókaútgáfuna hjá stærstu forlögum heims, ástríðuna fyrir matnum, matreiðsluna fyrir heimsfrægt fólk, dansinn sem hjálpaði henni út úr „burnouti“ og margt margt fleira.

Viðtalið má hlusta á í heild sinni hér fyrir neðan:mbl.is