Kom út úr skápnum með kynhneigðina og geðsjúkdóminn í sama viðtalinu

Sigursteinn Másson var gestur Sölva Tryggvasonar.
Sigursteinn Másson var gestur Sölva Tryggvasonar. mbl.is/Hari

Sigursteinn Másson segir í viðtali við Sölva Tryggvason frá því þegar hann kom út úr skápnum með samkynhneigðina og geðhvarfasýki í sama viðtalinu.

Sigursteinn, sem er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva fékk ungur mikla athygli fyrir öfluga frammistöðu í fréttum Stöðvar 2. Hann varð síðar fréttastjóri á Skjá Einum og röddin í „Sönnum íslenskum sakamálum“. Í viðtalinu ræða Sölvi og Sigursteinn um tímabilið þegar Sigursteinn var í felum með kynhneigð sína á tíma þar sem tíðarandinn var allt annar en í dag.

„Ég fékk talsverða athygli og ég átti pínu erfitt með að höndla það og ég var í felum með sjálfan mig og var ekki alveg búinn að átta mig á minni kynhneigð þarna í kringum tvítugt. Ég var að reyna að vera í sambandi með stelpum til að vera venjulegur [...] en svo kemur Heimir Már [Pétursson] inn á Stöð 2 og það breytti miklu. Þá hafði ég allt í einu einhvern við hliðina á mér sem var ekki að skammast sín fyrir það hvernig hann var. Það var heilmikil hvatning fyrir mig. Þegar ég kom aftur heim frá París eftir stutta dvöl þar hafði ég kjarkinn að fara til fréttastjórans, sem þá var Ingvi Hrafn Jónsson, og segja við hann að ég væri samkynhneigður. Hann brást við með því að segja „Og hvað ætlaðir þú að segja mér?“

Ég kunni honum miklar þakkir fyrir þau viðbrögð, af því að ég hafði lent í einelti á Stöð 2 út af samkynhneigðinni og þótti þess vegna mjög vænt um þetta.“

Talsvert löngu síðar fór Sigursteinn í viðtal, þar sem hann kom út úr skápnum með bæði kynhneigð sína og geðsjúkdóm í sama viðtalinu, án þess að hafa ætlað sér það.

„Ég hitti Mikael [Torfason] á Hótel Holti. Það var sniðugt hjá honum, af því að Holtið er góður vettvangur til að fá fólk til að opna sig og hann vissi það af því að hann er klár. Ég vissi ekki alveg hvað var að fara að gerast, en þarna opna ég mig bara og kem út sem maður með geðsjúkdóm og samkynhneigður, bæði í einu í sama viðtalinu sem kom á forsíðu á DV. Þetta var ótrúlega frelsandi eftir á að hyggja. Ég hafði ekki rætt það við neinn, en þetta var mjög frelsandi og ég fékk ótrúlega fín viðbrögð. Þetta var heilandi og ég held að ég hafi fyrir vikið náð betri tökum á mínum geðsjúkdómi og ég fann ekki fyrir neinum einkennum af honum næstu 11 árin. Þannig að ég held að ég geti þakkað Mikael Torfasyni fyrir að hafa sett mig í þessa óvæntu þerapíu og köldu sturtu.“

Í viðtalinu ræða Sölvi og Sigursteinn um fréttamennskuna á íslandi í gegnum tíðina, erfiðustu tímabilin og þau bestu og einnig þá áhugaverðu tíma sem nú eru í gangi á Íslandi og í heiminum öllum.

Viðtalið í heild má sjá hér að neðan:

mbl.is