Kamilla skráði sig á Tinder til að toppa vikuna

Kamilla Einarsdóttir datt á andlitið á rafskutlu þegar hún var …
Kamilla Einarsdóttir datt á andlitið á rafskutlu þegar hún var á heimleið eftir að hafa heimsótt Erp nokkurn Eyvindarson á heimili hans í Kópavogi.

Rithöfundurinn Kamilla Einarsdóttir er höfundur Kópavogskrónikunnar sem verður að leikriti á fjölum Þjóðleikhússins í vikunni þegar verkið verður frumsýnt. Upphaflega átti að frumsýna verkið í mars en vegna veirunnar er búið að fresta frumsýningu tvisvar. Hún er þó vongóð um að þetta takist í þetta sinn. Undirbúningur var í miklum blóma þegar hún datt á andlitið á rafskutlu eftir að hafa verið í heimsókn hjá Erpi Eyvindarsyni sem býr í Kópavogi. 

Hvernig leggst frumsýningarvikan í þig?

„Ég er að bilast úr spenningi og gleði yfir því að fá loksins að upplifa þetta með leikrit með fullt af öðru fólki í salnum. Ég hef komist að því að svona frumsýningarvikum fylgir svo góð orka. Allir í leikhúsinu leggjast á eitt við að þetta verði frábær upplifun fyrir alla gesti sem koma að sjá. Það eru smiðir á fullu við að gera salinn fyrir framan sviðið fínan og þau öll í miðasölunni redda öllum bestu sætunum og svara milljónasta tölvupóstinum frá mér þar sem ég segist þurfa einn aukamiða, eða svo næsta dag sé það sé reyndar allt breytt en ég vilji samt vara þau við, ég sé búin að skrá mig á Tinder svo það sé aldrei að vita hvað gerist. Þau taka því af ójarðneskri þolinmæði og svara mér alltaf jafn ljúflega, kannski því þau vita að þetta er yfirleitt allt saman eintóm óskhyggja í mér. Ég er ekkert að fara að landa neinum deitum úr þessu. En hva...til hvers eru frumsýningarpartýin ef ekki til að taka einhvern á löpp?,“ segir Kamilla og hlær. 

Þetta er ekki alveg í fyrsta skipti sem þú undirbýrð frumsýningarviku?

„Já í mars var allt tilbúið og svo bara skall á samkomubann, daginn sem generalprufan átti að vera. Þá var ég búin að fá að upplifa mína fyrstu frumsýningarviku og það rosalega skemmtilegt og skrítið að þurfa svo að setja þetta allt á ís. Þó að ástæðan hafi verið fullkomlega skiljanleg.

Síðan hefur aðeins tekið smá stund að finna bestu dagsetninguna og nokkrum sinnum stefnt að einhverjum degi sem hefur ekki alveg gengið upp. Ég hef bara einsett mér að fá að njóta þess að upplifa þetta svona oft. Fyrirfram hefði ég búist við að þetta myndi bara gerast einu sinni á ævi minni, að leikrit yrði sett upp sem væri byggt á bók eftir mig, svo ég er að mörg leiti bara heppin að fá nokkrar frumsýningarvikur.
Ég finn samt skelfilega til með nýju vinum mínum í miðasölunni. Örugglega martröð að þurfa að flytja alla svona fram og til baka og þurfa að þola mig í ofan á lag. Ég þarf að fara með konfekt og kaffi til þeirra,“ segir hún. 

Í hverju ætlar þú að vera á frumsýningunni?

„Það er eiginlega það eina sem ég þarf að hafa áhyggjur af. Ég er löngu búin að skrifa þessa bók og þarf þess vegna ekkert að gera neitt mikið meira nema dressa mig upp og mæta. Það er algjört lúxusvandamál að velja á milli einhverra glitrandi kjóla sem ég hlýt að finna. Ég geri aldrei neitt „fancy“, svo ég fæ ekki oft tækifæri til að leyfa glysgirninni í mér að blómstra  en þetta er svo sannarlega rétta tilefnið til að draga fram allar pallíetturnar og gullið og ég hlakka til að þurfa ekkert að halda aftur af mér í þeim efnum. Mér skilst að það verði líka tvær frumsýningar, svo ég get prófað fleiri en einn kjól.“ 

Og til að kóróna allt dastu á andlitið. Hvað gerðist nákvæmlega?

„Ég skrapp bara upp í Kópavog með Önnu Hafþórs bestu vinkonu minni og við fórum að hitta hann Blaz Roca (Erp Eyvindarson) til að kjafta aðeins um Andrés Önd. Ég ætlaði svo að drífa mig heim, en missti af strætó og ætlaði þá bara að þjóta heim niður í Hlíðar á rafmagnshlaupahjóli. Mér finnst þau svo ógeðslega skemmtileg og sniðug. Meira að segja eftir þessa byltu. En það fór ekki betur en svo að ég flaug af einu slíku alveg beint á hausinn, bókstaflega og hef verið öll blá og marin síðan.

Ég segi auðvitað öllum að þetta hafi bara verið slys. En það sjá flestir í gegnum það. Undirmeðvitund mín hefur sennilega bara ákveðið að leggja allt í sölurnar til að stela aðeins þrumunni af leikurunum í verkinu: Ilmi, Arnmundi og Þóreyju. Þau eru nefnilega öll svo klár og hæfileikarík og gullfalleg ofan á allt saman svo ég þurfti að grípa til að einhverra örþrifaráða ef til að einhvern séns á að fá einhverja athygli í kringum þau. Að mæta öll svona krambúleruð gæti alveg verið áhrifarík leið til þess.“

Hvernig er staðan á marinu akkúrat núna?

„Þetta er nú samt að gróa hratt og vel þó að þetta verði sennilega ekki alveg komið á frumsýningunni. Nema hún frestist aftur út af covid.
Silja Hauksdóttir leikstjóri var svo yndisleg að bjóðast til að hjálpa mér að finna sminkur sem gætu gefið okkur ráð um meik og trix sem fela jafnvel fjólubláasta mar og svaðalegustu bólgur. En ég held svei mér þá að fátt reddi þessu alveg nema kannski ef leikmunadeildin í Þjóðleikhúsinu eigi til einhvern gifshaus af ljóninu í Kardimommubænum. Að mæta með þannig á frumsýninguna held ég reyndar að gæti líka bara verið svolítið gaman.
Það kemur sér alla vega bara vel fyrir mig það er almennt mikið um það að fólk sé með grímu þessa daga. Grímulaus er ég svolítið í því að græta fólk með útliti mínu.

Ég væri kannski með meiri böggum hildar yfir þessum óförum ef að ég hefði einhvern tímann haft metnað til að vera sæt fyrirsæta. En áður en þetta gerðist voru mínir helstu möguleikar á því sviði hvort sem er helst að landa einhverjum myndadálki í slysatryggingabæklingi eða Læknablaðinu og ég held að þetta hljóti bara að auðvelda mér að landa einhverjum giggum frekar en hitt svo ég sé í rauninni ekkert nema tækifæri í þessu.

Ég ofan á allt saman svo lánsöm að eiga bestu vini og fjölskyldu í heimi. Ég hef fengið svo mikið af góðum óskum og pizzum og boðum í bíó að ég hálfpartinn get næstum við bara mælt með þessu. Mér er alla vega engin vorkunn. Þetta eru smá leiðindi en alls enginn harmleikur.“

Hvernig heldur þú að viðtökur verði við verkinu?

„Ég vona auðvitað að þau verð alveg frábær. Ég held að fólki eigi alls ekki eftir að leiðast. Ég myndi borga mig inn á þetta bara til að hlusta á tónlistina sem hann Auður er búinn að gera fyrir verkið. Í alvöru. Hún er svo flott. Ég var mikill aðdáandi hans fyrir en nú er ég alveg þannig að mig langar í alla stuttermabolina hans og plakötin.“

Óttastu að virkir í athugasemdum verði brjálaðir? 

„Ég hef nú satt að segja ekkert spáð í því. Ég skrifaði bara bókina eins og mér fannst skemmtilegast að hafa hana. Ilmur og Silja sáu eitthvað í henni sem þeim fannst nógu sniðugt til að búa til sitt eigið listaverk úr því og mér líst mjög vel á það. Þær eru svo fyndnar og klárar og kúl að ég vissi alltaf að ég myndi hafa gaman af þessu. Ef einhver er verður alveg brjálaður yfir þessu þá tökum við því bara eins og hverju öðru hundsbiti.
Ég held alla vega að úr því að ég get þolað það að stökkva með andlitið beint á gangstétt á miklum hraða þá hljóti ég að þola smá svívirðingar í athugasemdakerfum án þess að missa mikinn svefn.“

Kallar þetta verk ekki á það að þú gefir út fleiri bækur eða farir að skrifa leikrit? 

„Ég á alveg örugglega eftir að skrifa fleiri bækur. Og ég nýti reyndar eiginlega allar lausar stundir í það, mér til mikillar gleði og ánægju. Ég væri líka alveg til í að prófa að skrifa leikrit. Eftir að hafa kynnst þessu sé ég alveg hvað það er margt heillandi við þennan leikhúsheim. Það er svo gaman að vera í umkringd frjóu og sniðugu fólki. Ég á örugglega eftir að koma mér í eitthvað svoleiðis. Hvort sem það verður að skrifa þungarokkssöngleik eða semja útvarpsleikrit fyrir börn um átök í flugvélamatsheiminum verður bara koma í ljós.“

Aðspurð að því hvað sé framundan segir Kamilla að hún muni halda áfram með hefðbundnum hætti eftir þessa frumsýningarviku. 

„Allra næstu dagar fara bara í frumsýningarstúss. Strauja sparikjóla og finna sokkabuxur sem eru ekki gauðrifnar.  Svo þegar það klárast væri æði að fá bara ró og næði til að skrifa og hanga með vinum mínum á Catalinu og lenda í einhverjum óvæntum ævintýrum. Það er alltaf eitthvað skemmtilegt handan við hornið.“

mbl.is