Í einkaþjálfun hjá syninum tvisvar í viku

Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar.
Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar, er að undirbúa haustið í vinnunni. Hún er á lokametrunum að klára stækkun á tækjasal en svo datt henni einnig í hug að endurskipuleggja skápa og geymslur heimilisins. 

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir?

„Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að endurbæta og skipuleggja, hvort heldur sem er á vinnustaðnum, heima eða annars staðar.“

Hvað er góð heilsa í þínum huga?

„Góð heilsa er þegar okkur líður vel á líkama og sál. Þegar við erum í góðu andlegu jafnvægi og getum hlaupið og leikið okkur og séð það jákvæða í lífinu. Þrátt fyrir lífsins ólgusjó.“

Hvað borðar þú í morgunmat?

„Ég byrja alla morgna á Asta-lýsinu. Þar sem ég reyni almennt að minnka sykur og hveiti í fæðunni þá borða ég gjarnan hafra- eða chiagraut ýmiskonar í morgunverð. Undanfarnar vikur hef ég reyndar átt í frystinum sykur og hveitilausar gulrótarmúffur sem mér finnst mjög ljúft að taka með mér í vinnuna og maula með kaffibollanum. Sparimorgunmatur myndi vera ristað súrdeigsbrauð með möndlusmjöri og kaffibollinn góði.“

Rafn Franklín.
Rafn Franklín.

Hvað gerir þú daglega tengt hreyfingu?

„Rafn Franklín sonur minn sér um að mamman sé í þokkalegu formi. Ég hef verið í einkaþjálfun hjá honum þrisvar í viku í nokkur ár. Ég lyfti lóðum og puða í ýmiskonar æfingum sem hann setur mér fyrir. Hann sér um að það sé gott jafnvægi í styrktarþjálfuninni og að ég styrki vel veikari vöðvana í skrokknum. Okkur hættir oft til að vilja sleppa að þjálfa veikari vöðvana því það er erfiðara. Það skiptir líka svo miklu máli að gera ekki alltaf sömu æfingarnar. Svo geng ég nokkurnveginn daglega úti með Mána, fjölskyldu-hundinn.“

Hvað er nýtt að gerast í heilsugeiranum?

„Það nýjasta er aukin vitund í heimsfaraldri um það hversu mikilvægt er að huga að forvörnum í formi heilsuræktar til að styrkja mótstöðu líkamans gegn ýmsum sjúkdómum. Þar með talið veirusýkingum. Heilsuræktin snýst í stórum dráttum um reglulega þjálfun, hollar neysluvenjur og góðan svefn. Þetta þarf allt að vera til staðar til að byggja upp góða heilsu. Einnig virðist mér vera aukin vitund um hvað þarmaflóran skiptir miklu máli að því er varðar heilbrigði og þar er mataræðið enn og aftur lykilatriði. Við þurfum öll að vanda okkur og hugsa vel um þennan eina líkama sem við eigum og þarf að endast okkur út ævina. Aukin vitund um heildræna heilsu finnst mér vera nýjasta stefnan í heilsugeiranum.“

Hver er uppáhaldsíþróttafatnaðurinn þinn?

„Nike-æfingafatnaðurinn er í uppáhaldi.“

Hvernig skóm æfir þú í?

„Ég er í Nike Metcon við lyftingar og var að fá mér geggjaða Nike Pegasus Trail 2 fyrir léttari göngur úti í náttúrunni.“

Hvert er uppáhaldsilmvatnið?

„Núna er það Prada Candy.“

Hvað er í snyrtibuddunni?

„Nokkur Trinny London-smellubox (stacks) sem eru mikil snilld. Þar er einnig augnblýantur, varalitablýantur og maskari.“

Áttu gott ráð fyrir þá sem eiga erfitt með að koma sér af stað í hreyfingu?

„Eina vitræna ráðið að mínu mati er einfaldlega að taka til í kollinum á sér og taka ákvörðunina. Síðan að skipuleggja sig og ganga í málið og líta aldrei við!“

Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu?

„Fjölskyldan mín og heilsan eru og verða alltaf númer eitt hjá mér.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »