Einar Ágúst opnar sig um fíkniefnaneyslu og glæpi

Tónlistarmaðurinn Einar Ágúst er gestur Sölva Tryggvasonar.
Tónlistarmaðurinn Einar Ágúst er gestur Sölva Tryggvasonar. Skjáskot/YouTube

Einar Ágúst Víðisson er nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í hlaðvarpi Sölva. Einar Ágúst, sem varð þjóðþekktur sem söngvari hljómsveitarinnar Skítamórals, fer í viðtalinu yfir tímabilin þegar hann var kominn á kaf í neyslu og glæpi. Einar var á beinu brautinni sem tónlistarmaður, sjónvarps- og útvarpsmaður þegar fór að halla verulega undan fæti.

Hann missti öll tök á tilverunni, endaði í mjög slæmum félagsskap og fór á kaf í neyslu. Einar hefur gengið í gegnum hluti sem fæstir geta gert sér í hugarlund. Hann segist skilja vel að venjulegt fólk botni ekkert í svona löguðu og tekur sem dæmi eitt skiptið þegar hann féll eftir að hafa verið edrú.

„Ég var bara á leiðinni á ball eftir fjögurra ára edrúmennsku þegar ég þurfti að pikka upp mann í Bryggjuhverfinu og ég féll bara á methraða. Ég man að á leiðinni til hans var ég að hugsa: „Vá hvað ég á geggjað líf, ég er giftur draumakonunni, ég er vinsælasti söngvarinn í vinsælustu hljómsveitinni og lífið er frábært.“ Það lék allt í höndunum á mér, en fimm mínútum seinna er ég dottinn í kókaínpoka hjá félaga sem mér var ekki einu sinni neitt sérstaklega vel við. Ég skil það rosalega vel að fólk botni bara ekkert í þessu. Þetta meikar engan sens. Á meðan ég er að uppskera rosalega fallega hluti er ég byrjaður að leika mér að óheiðarleika og leika mér að eldinum.“

Einar segist muna eftir mikilli vanlíðan allt frá barnæsku og telur að hann hafi á löngum köflum verið að reyna að flýja þá vanlíðan með neyslu og rugli.

„Frá því ég man eftir mér hefur mér liðið illa. Frá því að ég man eftir mér hef ég verið í kvíða og þunglyndi og samt er ég besti skemmtikrafturinn. Mín fyrsta minning er kvíða- og áhyggjutilfinning og mín ævi hefur mjög mikið farið í að reyna að spila fram hjá þessum tilfinningum. Bæði með félagsskap, öðru fólki, íhugun, lestri og fleiru. En maður leitar kannski of mikið í það sem heldur manni frá vanlíðaninni tímabundið og ég held að þess vegna hafi ég byrjað að drekka 13 ára.“

Einar Ágúst var á tímabili kominn á gífurlega dimman stað þar sem hann var bæði laminn hræðilega illa sjálfur og beitti aðra ofbeldi. Hann segist stundum eiga erfitt með að sjá sig sem góðan gæja eftir hlutina sem hann hefur gert í gegnum tíðina.

„Þegar maður hefur gert svona hræðilega hluti á maður stundum erfitt með að selja sér að maður sé góð manneskja. Ég hef farið svo rosalega langt Sölvi. Ef þú horfir á Svartur á leik eða aðrar bíómyndir í þeim dúr, þá verður þú að átta þig á því að ég hef tekið þátt í að gera þessa hluti sem eru sýndir í þessum myndum. Ég hef verið á dimmustu stöðunum og þá á maður stundum erfitt með að telja sér trú um að maður sé góður gaur, en jú, ég vil trúa því að ég sé góður gaur.“

Í viðtalinu ræða Einar og Sölvi um stærstu sigrana, myrkustu tímabilin, tengslin við glæpastarfsemi, endurkomu Skítamórals og þakklæti Einars fyrir að vera enn á lífi.

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan og einnig á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is