„Hundeltur af Vísindakirkjunni“

Jónas Sig var gestur Sölva Tryggvasonar.
Jónas Sig var gestur Sölva Tryggvasonar. mbl.is/Golli

Jónas Sigurðsson er nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í podcasti Sölva. Jónas varð vinsæll sem söngvari í „Sólstrandargæjunum“, sem slógu í gegn með lagið „Rangur Maður“ og sló síðan aftur í gegn mörgum árum síðar með lagið „Hafið er Svart“.

Það sem færri vita líklega um Jónas er að hann er afburðamaður í tölvuforritun og vann um árabil fyrir tölvurisann Microsoft. Þar var hann valinn í hóp efnilegasta fólks fyrirtækisins sem áttu að verða framtíðarstjórnendur. Hann segir að það hafi verið frábær tími, en hann byrjaði að efast um allt saman þegar hann sá að markmið fyrirtækisins var í raun eingöngu að skila hagnaði með öllum leiðum.

„Allir sem ég vann með þarna voru framúrskarandi. Ég var að vinna með algjörlega framúrskarandi fólki frá öllum heimshornum, sem hafði átt þann draum heitastan að vinna fyrir svona risafyrirtæki og gera gagn. En svo vorum við bara á einhverjum fundi og það var kannski tilkynnt að það ætti að henda öllu sem við vorum búin að gera í heilt ár og sagt að það væri frábært. Ég man eftir einum svona fundi þar sem rússneskur gagnagrunnssérfræðingur sem var að vinna með mér stóð upp og sagði: „This is Bullshit“.

Jónas segist hafa lent í ákveðinni tilvistarkreppu þegar hann fór að sjá stóru myndina í þessu öllu. 

„Maður sá þessa tilhneigingu að liggja rosalega á að klára dílana sem hraðast til að geta náð þeim inn í næsta ársfjórðung svo það væri á endanum hægt að taka úr arð. Það er rosalega mikið af ótrúlega hæfileikaríku fólki sem er að vinna fyrir þessi fyrirtæki sem áttar sig síðan kannski ekki á því fyrr en eftir langan tíma að þú varst ekki alveg að ganga þeirra erinda sem þú vildir.“

Jónas segist telja að hægt og rólega sé búið að venja fólk við algjörlega óeðlilegt magn og framsetningu á auglýsingum.

„Við erum búin að hleypa auglýsingunum allt of langt. Ef við setjum frosk í pott og hækkum hitann bara hægt og rólega, þá soðnar hann smám saman án þess að hoppa upp úr. Þegar ég bjó á Spáni tók ég eftir því hvað það var miklu meira af auglýsingum á youtube til dæmis en hér, sem nú er að breytast, vegna þess að þessi fyrirtæki kanna alla markaði og venja fólk hægt og rólega við breytingarnar. Það er ekkert eðlilegt að ég borgi mig inn í bíó og þurfi að horfa á auglýsingar í 20 mínútur. Það er ekkert eðlilegt að það séu auglýsingar inni í öllu. 9 af hverjum 10 sprotafyrirtækjum ætla að fjármagna sig með auglýsingum og auglýsingarnar verða eðli málsins samkvæmt alltaf aggressívari með bjartari litum og meira og meira áreiti….taktu eftir því þegar þú ferð í verslanir að það eru alltaf flúorljós og dót til að áreita þig sem mest, þannig að heilinn í þér sé líklegri til að taka hvatvísar ákvarðanir.“

Í viðtalinu ræða Sölvi og Jónas um stöðu upplýsingaflæðis í nútímanum, hvert gervigreind er komin, Vísindakirkjuna, hversu öflugir algóritmarnir eru orðnir og svo auðvitað um tónlistina og ástríðurnar í lífinu. 

Þáttinn má hlusta á á hlaðvarpsvef mbl.is og hér fyrir neðan.

mbl.is