Jónína Ben opnar sig um samband sitt við Jón Pál

Jónína Benediktsdóttir er gestur Sölva Tryggvasonar.
Jónína Benediktsdóttir er gestur Sölva Tryggvasonar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Jónína Benediktsdóttir er nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í hlaðvarpi Sölva. Jónína, sem hefur oft verið verulega umdeild á Íslandi, var ung orðin viðskiptakona í Svíþjóð, þar sem hún fékk alls kyns verðlaun fyrir frumkvöðulsstarfsemi sína í líkamsrækt og rekstri líkamsræktarstöðva.

Í viðtalinu fer Jónína meðal annars yfir tímabilin þegar hún og Ágústa Johnson unnu saman og kenndu eróbikk daginn út og inn.

„Ég er fyrst og fremst kennari og það er það sem hefur alltaf verið ástríða hjá mér. Ég kenndi stundum eróbikk sjö tíma á dag og finnst stundum að ég sé enn að blæða fyrir það og mæli nú ekki með svo mikilli hreyfingu ... og svo borðuðum við Ágústa (Johnson) lakkrískonfekt á kvöldin, af því að okkur fannst það svo gott og fólk var ekkert byrjað að pæla í næringu af neinu viti á þessum tíma.“

Á þessum tíma var líkamsræktariðnaðurinn á Íslandi á mikilli siglingu og einn af þeim sem voru hve mest áberandi var auðvitað Jón Páll Sigmarsson, sterkasti maður heims. Á milli Jóns Páls og Jónínu var sterkur strengur í mörg ár.

„Jón Páll var einstakur maður. Hann var svo lítillátur og skemmtilegur og fór aldrei fram á neitt. Hann var eins ósérhlífinn og einn maður getur verið. Hann vann hjá mér í þrjú ár og við ferðuðumst mikið saman og elskuðum hvort annað. En það gekk ekki upp og við það lifir maður. Það var alltaf gaman með Jóni Páli og ég gæti sagt þér skemmtisögur af honum endalaust og það var Jóhannes heitinn (Jónsson) líka. Hrikalega skemmtilegur maður og kannski er það það sem að ég er að leita í þegar kemur að karlmönnum. Svona hressir galgopagæjar af því að ég nenni ekki að vera alvarleg þegar ég er heima hjá mér ... en svo kom sorgin. Ég fór með honum til Ameríku rétt áður en hann deyr og þá fór hann til læknis og fékk í raun dauðadóminn. Honum var sagt að æðakerfið í honum væri eins og í níræðum manni og við vissum eftir það bæði að hann myndi deyja fljótt eftir þetta.“

Sölvi skrifaði ævisögu Jónínu og það vantar því ekki umræðuefnin. Í viðtalinu fara Sölvi og Jónína yfir tímabilin í líkamsræktinni, tengslin við Jón Pál, íslenskt viðskiptalíf, baráttuna við bakkus og margt margt fleira.

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan og á hlaðvarpsvef mbl.is

mbl.is