„Allt í einu hringdi enginn í mig lengur“

Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar.
Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Margrét Pála Ólafsdóttir er nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í podcasti Sölva. Margrét, sem hefur um árabil rutt veginn fyrir nýjar leiðir í menntun barna var ein fyrsta opinbera lesbían á Íslandi og segir í þættinum frá þeim hremmingum sem hún lenti í vegna þess.

„Ég stefndi á pólitík í gamla daga þegar ég var í Alþýðubandalaginu, en svo kom ég úr felum og allt í einu hringdi bara enginn í mig lengur. Þetta er upplifun sem er erfitt að lýsa, af því að hún er svo ótrúleg. Þú talar við fólk og finnur að allt í einu eru allir hættir að hlusta á þig. Ég hafði verið afar vinsæl og taldi að pólítík væri leiðin til að breyta heiminum, en þetta var bara mjög einfald. Ég átti sæti í fjölda nefnda og var í framkvæmdastjórn flokksins, en skyndilega var bara hætt að hringja og mér var ekki boðið að taka þátt í neinu lengur. Það var einn maður sem þorði að segja þetta beint við mig, að vísu var hann fullur: „Það er eins gott að þú ert hinssegin, af því að þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af stöðunni minni.” Fyrir þá sem hafa ekki prófað þetta er erfitt að útskýra hvernig það er að verða „Persona non grada.“

Magrét segir fólk fljótt að gleyma því hve mikið hefur breyst og í raun sé erfitt að skilja hvernig tíðarandinn var á þessum tíma miðað við stöðuna í dag:

„Það var Breiðavík víðar en fyrir vestan. Hommarnir voru lamdir niðri í miðbæ án þess að nokkuð væri gert í því, „gay” fólk var missandi atvinnu og húsnæði og hent út af veitingastöðum og það var hvergi nein verndarlöggjöf eða réttindi fram til 1996. Ekkert sem viðurkenndi tilvist okkar, nema að lágmarksaldur til kynlífs var hærri hjá samkynhneigðum en öðrum. En að við værum viðurkennd eins og aðrir þegnar gerist í raun ekki fyrr en ’96. Mér þætti ágætt að ríkisstjórn Íslands myndi biðjast afsökunar á því varnarleysi og skorti á vernd og virðingu sem við bjuggum við á þessum tíma. Þjóðkirkjan er svo önnur opinber stofnun sem særði okkur djúpt. Það voru ofsatrúarhópar sem réðust á okkur og lömdu okkur með biblíunni og svo voru hópar sem stunduðu það að lemja hommana niðri í bæ og karfjandar sem réðust að mér og vildu kenna mér hvernig raunverulegir karlmenn gætu læknað eina lesbíu. En allt þetta má svo sem skilja, en þegar heil stofnun sem á ekki að þjóna neinu nema kærleikanum fór sömu leið, það var erfiðara að kyngja því og kirkjan á í raun enn eftir að gera þessi mál upp heiðarlega."

Þó að Margrét sé ekki vön að dvelja við orðinn hlut og festast í neikvæðni, viðurkennir hún að þessu tímabili hafi fylgt talsverð reiði í langan tíma á eftir:

„Sölvi ég var svo reið. Ég fór í viðtal til Loga Bergmanns fyrir nokkrum árum og ákvað það eitt að vera heiðarleg í viðtalinu af því að mér fannst hann eiga það skilið af því að hann var einn af þeim fjölmiðlamönnum sem studdi okkar baráttu. Hann spurði mig um reiðina og hvernig mér hafði liðið og þá, minn kæri Sölvi, endaði ég grátandi og ég er nú ekki kona sem er vön að gráta á almannafæri. En þrátt fyrir reiðina og allt þetta jökulfljót sem við svömluðum í hef ég aldrei séð eftir því í augnablik að koma úr felum, því að sannleikurinn gerði mig frjálsa. Ég veit hreinlega ekki hvort ég hefði lifað það af að koma ekki úr felum. Fyrir mig var þetta ekki val. Þunglyndið sem ég hafði glímt við og þessi skilningsskortur á sjálfri mér varð allt í einu skiljanlegt þegar ég áttaði mig á því að ég væri Lesbía.”

Margrét hefur sem fyrr segir rutt veginn fyrir nýjar leiðir í menntun í áraraðir og  þúsundir ánægðra foreldra hafa nú sent börn sín í skóla Hjallastefnunnar sem Margrét stofnaði. Í þættinum ræða Sölvi og Margrét um það hvernig öll hennar tækifæri voru tekin af henni á einum degi vegna fordóma á tímum sem voru allt aðrir en í dag. Þau fara jafnframt yfir mikilvægi þess að hrista upp í menntakerfinu, hlusta á börn og þora að fara gegn straumnum.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál