Kraftaverkalæknir á Húsavík lagaði meiðslin

Arnór Guðjohnsen er gestur Sölva Tryggva.
Arnór Guðjohnsen er gestur Sölva Tryggva. Skjáskot/Youtube

Arnór Guðjohnsen er nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í hlaðvarpi Sölva. Arnór, sem er einn besti knattspyrnumaður Íslandssögunnar, segir í þættinum frá því þegar kraftaverkalæknir á Norðurlandi lagaði meiðsl sem hann hafði glímt við í nærri tvö ár.

„Ég var búinn að vera meira og minna meiddur í tvö ár eftir að hafa rifið vinstri lærvöðva. Vöðvinn togaði meira að segja beinið með þegar hann rifnaði af því að hann var svo sterkur og rassbeinið togaðist frá. Svo er það þannig að ég er heima í sumarfríi og fer norður á Húsavík til ömmu og það fyrsta sem hún segir: „Nú ert þú að fara að hitta Einar lækni frænda þinn á Einarsstöðum. Hann er læknamiðill.“

Mér leist mátulega vel á það, en lét slag standa. Þegar við bönkuðum á dyrnar kemur til dyra pínulítill maður sem var eins og álfur í útliti, en þegar hann tók í höndina á mér tók ég eftir því að hann var með risalúkur. Eftir smá spjall biður hann mig um að koma með sér inn í herbergi. Nóttina áður hafði mig dreymt draum þar sem ég ligg á skurðborði og yfir mér stumrar læknir með yfirvaraskegg. Ég sé síðan að á borðinu hjá Einari er mynd af þessum sama manni. Mér krossbrá og segi honum frá þessu og þá svarar hann: „Já, hann gerir svolítið í því að láta dreyma sig áður en fólk kemur til mín.“

Þetta átti víst að vera einhver danskur læknir sem var látinn. Svo byrjar Einar þessi að leggja á mig hendur og er með hendurnar yfir mér í svona klukkutíma. Segir svo við mig að ég eigi að hugsa til hans í fimm mínútur næstu tvö kvöld og þá eigi þetta að vera komið. Ég man að ég hugsaði að ég yrði að skamma ömmu fyrir þessa vitleysu, en ég lét tilleiðast og settist á stól næstu tvö kvöld og hugsaði til hans. Ég get svo svarið það að svona tveimur dögum seinna voru allir verkir farnir eftir tveggja ára basl. Þetta vakti rosalegar spurningar hjá mér og breytti mér að vissu leyti.“

Í Þættinum ræða Sölvi og Arnór um ótrúlegan feril Arnórs, hæðir og lægðir, þar sem inn komu sigurleikir gegn stórveldum Evrópu, erfið meiðsli, samningsleysi á tímum þar sem réttur leikmanna var nánast enginn og margt fleira. Í þættinum fara þeir einnig yfir mikilvægi andlega þáttarins í knattspyrnu og íþróttum, en Arnór vinnur nú hörðum höndum að verkefni sem því tengist.

Viðtalið má nálgast í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is og í spilaranum hér fyrir neðan.

mbl.is