Stundar skemmtiskokk á eftir sauðkindinni

Jóhanna Hlöðversdóttir lífstílsbóndi á sviði sauðfjár og fiskeldis hleypur á eftir sauðkindum sér til heilsubótar og er þakklát fyrir að fá meiri tíma með sínu fólki þessa dagana. Hún segir að það skipti máli að njóta litlu hlutanna, hlusta á tónlist og horfa meira inn á við. 

Hvernig ertu að bregðast við vegna samkomubannsins?

„Með því að njóta þess að vera heima hjá mér. Samkomubannið hefur gefið manni tækifæri til að slaka á og horfa sér nær. Maður er ekki á þessu endalausa flandri út um hvippinn og hvappinn með tilheyrandi búðarrápi og kolefnisspori.“

Ertu í fjarvinnu heima eða mætir þú í vinnuna?

„Ég mæti í vinnu.“

Hvernig er það að virka?                                                                                                 

„Mjög vel. Við erum þrjú á vinnustaðnum og eyðum dögunum í að sinna hrognum og smáseiðum. Þegar kemur að umhirðu dýra snúast allir dagar ársins um það að þeim líði vel.“

Hvað gerir þú til að brjóta upp daginn?

„Þessa dagana gerist maður pínu flippaður og sest niður með kaffi og appelsínu súkkulaði með karamellukurli.“

Hvað ertu til dæmis að borða í hádegismat?

„Í flestum tilfellum eru það afgangar kvöldsins áður sem verða fyrir valinu. Þó kemur fyrir að dregið sé fram dýrindis ristað brauð með því sem til er í ísskápnum og svo mögulega mjólkurkex í desert.“

Hvað gerir þú til að halda geðheilsunni í lagi?

„Skipulegg heimsyfirráð?

Það er eiginlega merkilegt að eftir tæplega 11 mánuði af árinu 2020, sé höfuðið ennþá nokkuð fast skrúfað skrúfað á.

Annars er nauðsynlegt að muna eftir baklandinu sínu, passa upp á fjölskylduna og vini með því að heyra í þeim reglulega, það virkar nefnilega fyrir mann sjálfan líka. Sjá gleðina í litlu hlutunum, hlusta á tónlist, syngja og leyfa sér að njóta stundarinnar.“  

Ertu að hreyfa þig eitthvað?

„Það er engin skipulögð hreyfing í gangi eins og staðan er. Nema jú, verandi sauðfjárbóndi stunda ég skemmtiskokk á eftir sauðkindinni. Lífsstíll sauðfjárbænda hefur gert manni það kleift að njóta náttúru Íslands, löngu áður en það komst í tísku.“

Hver er galdurinn við að missa ekki vitið á veirutímum?

„Að þekkja sjálfan sig, vera skipulagður og missa ekki móðinn. Setja sér raunhæf markmið og vera sanngjarn í mati á eigin getu ásamt því að muna eftir að njóta þess sem hver dagur ber í skauti sér.

Þetta hljómar allt mjög fínt, en er rosalega erfitt, ef þú veist ekki hver þú ert.

Við erum alltaf að koma og fara, gera og redda, þjóna og þóknast. Þegar þetta er eiginlega ekki hægt lengur vegna samfélagslegra takmarkana, verðum við að kynnast okkur og vita hverjir kostir og gallar eru. Þá er ég ekki frá því en að maður geti haldið að einhverju leyti í vitið.“  

Hvernig hefur veiran haft áhrif á þig og fjölskyldu þína?

„Ég er meira heima. Sem þýðir að börnin mín hafa meiri aðgang að mér. Við kynnumst aftur og okkur líður betur saman. Lífið varð hálft í hvoru auðveldara og sem betur fer höfum við sloppið við smit. Fyrir mitt leyti er ég þakklát fyrir þann lærdóm sem veiran er færa okkur. Ég hafði að minnsta kosti gott af því að taka tvö skref aftur á bak og líta mér nær.“

Á hvern skorar þú til að svara þessum spurningum?

„Mörtu Rut Pálsdóttur, ljónið á Kaffitár, móður og göngugarp með meiru.“

mbl.is