„Ég er líka hætt að bera mig saman við aðrar stelpur“

Íris Svava Pálmadóttir prýðir forsíðu Vikunnar.
Íris Svava Pálmadóttir prýðir forsíðu Vikunnar. Ljósmynd/Hallur Karlsson

Sú sem prýðir forsíðu Vikunnar að þessu sinni heitir Íris Svava Pálmadóttir. Hún er talskona jákvæðrar líkamsímyndar og er dugleg að tala um það við fylgjendur sína á Instagram. Í viðtalinu segir  hún meðal annars frá því þegar hún missti föður sinn skyndilega þegar hún var átta ára gömul og hversu mikið áfall það var fyrir hana að horfa upp á móður sína og eldri bróður reyna að bjarga lífi hans.

Þótt hún segist að mestu búin að vinna úr áfallinu verði hún samt enn þá reið yfir því að hafa ekki fengið fleiri ár með pabba sínum. Þá talar hún um jákvæða líkamsímynd og hvernig hún skilgreinir sjálfa sig sem feita konu. Hún segist vera farin að nota orðið feit sem valdeflandi orð og ekki vera hrædd við það lengur. Áður hafi hún ekkert þráð heitar en að verða grönn og öðlast sjálfsöryggi og það hafi tekið sig langan tíma að sættast við líkama sinn og læra að elska sjálfa sig.

Fyrir um það bil þremur árum segir Íris Svava að hún hafi farið að leita á samfélagsmiðlum að konum sem sér hafi fundist hún geta samsamað sig við.

„Ég þurfti alveg að hafa fyrir því að finna þær en það tókst eftir nokkra leit og ég fór upp frá því að fylgja konum á Instagram sem áttu það sameiginlegt að vera örugggar með sjálfar sig þrátt fyrir að uppfylla ekki þessar stöðluðu kröfur um fegurð. Allt í einu sá ég konur sem ég gat speglað mig í, konur sem voru sterkar og búnar að ná langt, og ég efldist við það. Ég gætti þess líka að umkringja mig jákvæðum konum sem tala ekki niður til annarra kvenna og ég fylgi ekki neinum á Instagram sem fá mig til að efast um mitt eigið ágæti.“

Hún segir ferlið í átt að sjálfsást þó ekki hafa verið auðvelt.

„Ég get ekki sagt að ég hafi vaknað einn daginn og bara hugsað með mér að ég væri geggjuð og þetta væri komið. „Ferlið að læra að elska mig og lifa í sátt með sjálfa mig hefur tekið á“ en að uppskera allt erfiðið er mjög gott. Það að geta elskað mig nákvæmlega eins og ég er, klætt mig nákvæmlega eins og ég vil, segja og gera það sem ég vil, svo lengi sem það særir ekki neinn auðvitað, er mjög frelsandi. En svo er líka svo dásamlegt að vera sama hvort aðrir dæmi mig eður ei. Ég er líka hætt að bera mig saman við aðrar stelpur og um leið og ég hætti því fann ég svo mikinn frið. Ég áttaði mig loksins á því að ég er einstök og verð aldrei eins og einhver önnur og það er engin önnur að fara að verða eins og ég. Og það sem er einmitt svo skemmtilegt við þetta allt saman er að uppgötva að maður er einstakur, það er ofurkrafturinn okkar allra,“ segir Íris og brosir breitt. „Jákvæð líkamsímynd bjargaði lífi mínu.“

Íris Svava Pálmadóttir prýðir forsíðu Vikunnar.
Íris Svava Pálmadóttir prýðir forsíðu Vikunnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál