Hleypur á hlaupabrettinu og „sukkar heilsusamlega“

Valgerður Matthíasdóttir.
Valgerður Matthíasdóttir.

Valgerður Matthíasdóttir, eða Vala Matt. eins og hún er kölluð, er ein af jákvæðustu manneskjum þessa lands. Hún keypti sér hlaupabretti til að stytta sér stundir og hleypur heima til þess að andast ekki úr leiðindum. Á meðan horfir hún á skemmtilega sjónvarpsþætti. Á þessum veirutímum eldar hún einstakan mat og hugar sérlega vel um heilsuna.

„Kórónuveiran hefur haft áhrif á allt okkar líf um allan heim sem er alveg magnað. Ég er svo mikill sælkeri að það sem ég geri meðal annars til að hressa mig við á þessum tímum er að elda og borða dásamlega góðan mat eða sækja spennandi rétti á veitingastaðina sem eru flestir með „take away“ eða senda heim. Svo til þess að halda í andlega og líkamlega heilsu fjárfesti ég í vetur í hlaupabretti sem ég setti upp hér heima og það er geggjað. Ég stilli á góðan þátt í sjónvarpinu og áður en ég veit af er ég búin að ganga eða hlaupa í góðan tíma. Ég gleymi mér alveg sem er algjör snilld,“ segir Vala.

Vala starfar nú við þáttinn Ísland í dag á Stöð 2 og á dögunum tók hún viðtal við Evu Dögg Sigurgeirsdóttur sem oft er kennd við vefinn tíska.is.

„Ein af leiðunum til að díla við þetta á jákvæðan hátt er að finna flottar og skemmtilegar grímur. Ég er búin að prufa margar týpur því ég fjallaði um grímuúrvalið í Íslandi í dag með Evu Dögg hjá tíska.is og ég er því búin að finna uppáhaldsgrímurnar mínar sem eru frá Gyllta kettinum. Held mest upp á svartar og svo andlitslitaðar. Svo finnst mér gott að eiga nógu margar svo ég geti alltaf átt ferska grímu á hverjum morgni og svo bara þvegið þær allar saman eftir vikuna. Og ég set þær í flotta poka annars vegar fyrir hreinar og svo annan fyrir þær sem ég er búin að nota svo allt í kringum þær sé fallegt og konfekt fyrir augun. Þá verður þetta bara hluti af útliti og klæðaburði þótt ekki sé þetta skemmtilegt og það verður auðvitað dásamlegt þegar þessu lýkur,“ segir Vala.

Talandi um grímur og farða. Þegar Vala er spurð hvort hún farði sig öðruvísi þegar hún er með grímu á sér segir hún svo vera.

„Ég er að vísu ein af þeim sem alltaf eru málaðar þegar þær fara út úr húsi því þegar maður vinnur í sjónvarpi og í fjölmiðlum er maður svo oft kominn í aðstæður þar sem maður er í útsendingu eða upptökum eða verið er að ljósmynda þannig að ég hef vanið mig á að mála mig á einfaldan hátt flesta daga með smá maskara, varalit og smá farða. Núna þegar ég er með grímu úti á meðal fólks nota ég ekki varaglossinn minn því hann klínist í grímurnar. En það kemur ekki að sök því ég nota alltaf snilldarvaralitina Lipfinity frá Max Factor sem endast allan daginn og eru mattir og klínast ekkert. Svo ef maður ætlar að vera extra jákvæður þá er stundum þægilegt að geta falið sig á bak við grímuna þá daga sem maður er kannski ekki alveg upp á sitt besta,“ segir Vala og hlær.

Vala hefur alltaf hugsað vel um sig og nú gætir hún þess að næra húðina vel. En hvaða vörur skyldu vera í uppáhaldi hjá henni?

„Ég nota helst andlits- og augnkremin frá Estee Lauder því þau eru öll svo góð. Þau eru svo geggjuð Revitalizing Supreme+ kremin. Ég finn alveg mun á húðinni í andlitinu og í kringum augun þegar ég á þau ekki til og núna finnst mér á þessum kórónuveirutímum ennþá mikilvægara að vera með gott krem sem verndar húðina og gefur henni raka.“

Gerir þú eitthvað sérstakt á þessum tímum til að hressa þig við?

„Það sem ég geri á hverjum degi til að hressa mig við andlega í þessu ástandi er að finna stöðugt ný spennandi verkefni til að sökkva mér niður í. Ég er svo heppin að vinna svo ótrúlega skemmtilega vinnu á Stöð 2 og þar er alltaf eitthvað nýtt sem ég er að gera fyrir Ísland í dag sem ég hlakka til að vinna við á hverjum degi. Hlakka því til að vakna á morgnana þrátt fyrir ástandið. Líkamlega passa ég mig á því að eiga alltaf græna safann minn í frysti frá Ísey Skyr Bar sem ég fæ í Kringlunni. Hann gerir mér kleift að „sukka“ smá af og til án samviskubits. Og talandi um að „sukka“ smá þá er ég með smá æði fyrir rauða Bounty með mjög dökku súkkulaði. Það er geggjað. Ég borða bara dökkt súkkulaði og þetta er með því allra besta og hressir mig sannarlega við í þessu ástandi,“ segir Vala.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »